Ragnhildur Sveinbjarnardóttir frá Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum tók undir lok síðasta árs við starfi framkvæmdastjóra Markaðsstofu Suðurlands. Ragnhildur hefur starfað hjá Markaðsstofunni sem verkefnastjóri í 10 ár og er því öllum hnútum kunnug þegar kemur að starfseminni. Hún er Sunnlendingur vikunnar að þessu sinni.
Fullt nafn: Ragnhildur Sveinbjarnardóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 6. janúar 1983 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Maðurinn minn er Benjamín Berg Halldórsson og eigum við tvö börn, Halldór Steinar 11 ára og Sigrúnu Lilju 7 ára.
Menntun: Ferðamálafræðingur.
Atvinna: Framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég hlusta nú orðið meira á hljóðbækur í dag og þá helst eitthvað léttmeti eða sakamálasögur. En einhver jólin fékk ég Millennium þríleik Stieg Larson í gjöf og þær lásust hratt.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ýmislegt sem ég hef gaman af svo sem… Hef til dæmis gaman að ferðaþáttum um íslenska náttúru, Crown, Grey´s og bara einhverjum spennuþáttum.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Það eru helst einhverjar gamlar nostalgíumyndir eins og t.d. Top Gun og Sister Act.
Te eða kaffi: Kaffi.
Uppáhalds árstími: Vorið er algjört uppáhalds, allur gróður að lifna við og farfuglarnir að mæta.
Besta líkamsræktin: Skemmtilegust er hún allavega með einhvern bolta, þá helst blak og körfubolti.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ætli það sé ekki bara klassískt lambalæri.
Við hvað ertu hrædd: Mér finnst mjög óþægilegt að lenda í sandbleytu og vera í of þröngu rými.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Yfirleitt í kringum 7, en seinna um helgar ef möguleiki er á.
Hvað gerir þú til að slaka á: Sjónvarpið verður oftast fyrir valinu og að púsla.
Hvað finnst þér vanmetið: Framlag ferðaþjónustunnar til aukinna lífsgæða okkar hér í samfélaginu.
En ofmetið: Hvítt súkkulaði.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Sálin er alltaf klassík. Þeir sem þekkja mig vel vita að ég þjáist af einhverju óminni þegar kemur að lagaheitum og textum.
Besta lyktin: Lykt af nýslegnu grasi.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Að skúra, en ég er svo heppin með mann að ég þarf nú yfirleitt ekki að fara í það verk.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Nefni tvö… Að koma jafnt fram við alla og reyna að láta hluti ekki fara í taugarnar á mér sem ég ræð ekki við.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Nauthúsagil er minn uppáhalds staður, heimaslóðirnar undir Eyjafjöllum skora alltaf hátt á svona lista.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Óheilindi.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Það lætur mig ekkert líta út sem frábært foreldri að segja frá þessu en held nú að móðirin hafi hlotið meiri skaða af en barnið. Ég lenti í því þegar sonur minn var innan við ársgamall að læsa hann inni í bíl á miðju bílastæði í borginni, lyklar, veski og sími inni í bílnum líka… Sem betur fer leystist nú úr þessu „fljótt“ (lengsti hálftími lífs míns) og vel og krakkinn steinsvaf sem betur fer allan tímann.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Þegar ég var krakki þá minnir mig að ég hafi ætlað að verða bóndi eða íþróttakona. Annars man ég ekki til þess að það hafi neitt verið mikið rætt þá.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Mér finnst Ari Eldjárn alltaf góður en svo hafa tilsvör barnanna minna oft vakið mikla kátínu hjá mér og mínum.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég hugsa nú ekki mikið um að það að vilja vera einhver annar en ég er. Reyni að setja mig í spor fólks en langar nú ekkert alltaf að vera í þeirra sporum.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram og Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Reyna að koma í veg fyrir fátækt í heiminum.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég luma nú ekki á neinu djúsí þar en er forfallin íþróttaáhugamanneskja. Fylgist talsvert með boltaíþróttum sérstaklega.
Mesta afrek í lífinu: Að eignast börnin tvö.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég reyni nú yfirleitt bara að fókusa á núið, en það koma nú stundum tímar sem maður væri til að að vera bara áhyggjulaust barn aftur.
Lífsmottó: Að hafa alltaf jákvæðnina í fyrirrúmi.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég er að fara á ferðasýninguna Mid-Atlantic að kynna áfangastaðinn Suðurland með öðru starfsfólki Markaðsstofunnar og fulltrúum sveitarfélaganna allan föstudaginn. Og aldrei þessu vant fáum við ekki að njóta þeirrar skemmtunar að fara með börnin á íþróttamót þessa helgina svo við höfum það held ég bara notalegt heima við.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is