Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir, frá Stóru-Sandvík í Sandvíkurhreppi, tók í vikunni við formannsembætti Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands. Dýrleif stendur í ströngu um helgina en Söngkeppni framhaldsskólanna verður haldin í Iðu á Selfossi – já, og svo fagnar hún 18 ára afmælinu sínu í dag.

Fullt nafn: Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 5. apríl 2006 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Bý í foreldrahúsum í Sandvíkurhreppi ásamt tveimur yngri bræðum.
Hverra manna ertu: Foreldrar mínir eru Guðmundur Karl Sigurdórsson og Jóhanna S. Hannesdóttir Petersen.
Menntun: Er á opinni stúdentslínu í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Stefni að útskrift næsta vor.
Atvinna: Vinn í Bíóhúsinu Selfossi.
Besta bók sem þú hefur lesið: Verity eftir Colleen Hoover en Harry Potter bækurnar eru líka í miklu uppáhaldi.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Grey ́s Anatomy og Gettu betur.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Erfitt val á milli La La Land og Garðabrúða. Þegar ég var lítil dreymdi mig um að vera með jafn sítt hár og hún.
Te eða kaffi: Te. Afar ólíklegt að þú sjáir mig með kaffibolla í hendi.
Uppáhalds árstími: Sumar! Er algjör sökker fyrir bæjarhátíðum.
Besta líkamsræktin: Finnst alltaf gaman að kíkja á fótboltaæfingu. En annars finnst mér mjög næs að fara í yoga.
Hvaða rétt ertu best að elda: Er búin að mastera að steikja brauð með eggi á pönnu. Setti reyndar reykskynjarann óvart í gang við eldamennskuna um daginn og húsið fylltist af reyk. Enginn átti að komast að því en mamma og pabbi sáu auðvitað í myndavélinni á dyrabjöllunni þegar ég var að lofta út.
Við hvað ertu hrædd: Er skíthrædd við geitunga.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Er yfirleitt alltaf í stressi á virkum dögum. Slekk á vekjaraklukkunni um helgar. Er algjör B-manneskja…
Hvað gerir þú til að slaka á: Skelli mér í yogatíma eða út að labba og blasta tónlist eða hlusta á Þarf alltaf að vera grín?
Hvað finnst þér vanmetið: Nýja platan með JóaPé og Króla.
En ofmetið: Algebra.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Úff… Prada og Ég fer á Þjóðhátíð væru augljós svör. Hef reyndar aldrei farið á þjóðhátíð… En þegar kviknar á America Has a Problem í bílnum hjá mér og Soffíu fer allt í botn. Í Kendrick Lamar útgáfunni að sjálfsögðu!
Besta lyktin: Að mæta í grjónó til ömmu og afa.
Bað eða sturta: Sturta. Eða sund.
Leiðinlegasta húsverkið: Brjóta saman þvott.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Umkringdu þig fólki sem lyftir þér upp.
Nátthrafn eða morgunhani: Klárlega nátthrafn.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Held mikið upp á sumrin heima í sveitinni og Gjánna í Þjórsárdal.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Fáfræði.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég var einu sinni stödd í plötubúð í Reykjavík þegar ég heyrði mann kynna sig sem Hauk Morthens. Ég kannaðist við nafnið og vissi að einhver frægur tónlistarmaður væri hér á ferð. Í sakleysi mínu fór ég upp að manninum og spurði hvort hann væri Haukur Morthens og hvort ég mætti taka í höndina á honum. Greyið maður rétti hikandi fram höndina en lét mig þó vita að hann væri sonur stórsöngvarans sem væri látinn. Ég held að pabbi hafi hlegið alla leiðina heim á Selfoss að þessum ósköpum. Það eru þrjú ár síðan og ég er ennþá að jafna mig.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Leikkona. Það er ennþá draumurinn.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Finnst vinkonur mínar mjög fyndnar. Sídó, bróðir minn, getur reyndar alltaf fengið mig til að hlægja. Pabbi líka, þótt hann slái yfirleitt bara um sig með pabbabröndurum.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Myndi vilja vera Jennifer Lawrence, hún er svo geðveikt fyndin. Kannski væri líka gaman að vera bara besta vinkona hennar.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram og TikTok.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég vilja fjölga bílastæðum á FSu planinu.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég kann ekki að leggja í stæði.
Mesta afrek í lífinu: Að endurvekja kór FSu. Ég var reyndar mjög stolt af mér þegar ég náði bóklega bílprófinu.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Væri til í að fara aftur í tímann með ömmu og sjá hvernig lífið var. Amma á svo mikið af sögum og myndum frá því að hún var ung og mér líður eins og ég hafi misst af einhverju stóru.
Lífsmottó: Þeir skora sem þora.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Halda upp á afmælið og undirbúa Söngkeppni framhaldsskólanna.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinÍslandsglíman haldin á Laugarvatni
Næsta greinÍR-ingar skrefi á undan