Sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, sóknarprestur í Hrunaprestakalli, hefur verið skipaður prófastur í Suðurprófstsdæmi frá 1. nóvember næstkomandi. Óskar hefur víða komið við á sínum prestsferli, þjónaði í Ólafsvík, á Akureyri og Selfossi áður en hann varð sóknarprestur í Hruna. Hann hefur sinnt ýmsum félags- og trúnaðarstörfum í gegnum tíðina og situr nú meðal annars í stjórn Skálholts og auðvitað Sauðfjárræktarfélags Hrunamanna.

Fullt nafn: Óskar Hafsteinn Óskarsson.
Fæðingardagur, ár og staður: 24. mars 1973 á Landspítalanum í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Eiginkonan er Elín Una Jónsdóttir, íslenskukennari í ML, og við eigum Helgu Margréti f. 2001, Óskar Snorra f. 2004 og Elínbjörtu Eddu f. 2013.
Hverra manna ertu: Ég er sonur hjónanna Óskars H. Ólafssonar og Margrétar Steinu Gunnarsdóttur sem bæði eru úr Mýrdalnum.
Menntun: Embættispróf og MA-gráða frá guðfræðideild HÍ.
Atvinna: Sóknarprestur í Hrunaprestakalli.
Besta bók sem þú hefur lesið: Kristnihald undir jökli.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Derrick.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Forrest Gump.
Te eða kaffi: Kaffi.
Uppáhalds árstími: Vor og haust.
Besta líkamsræktin: Að eltast við þráakindur og forystufé.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Lasagna.
Við hvað ertu hræddur: Að hatrið og græðgin sigri.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Upp úr sjö.
Hvað gerir þú til að slaka á: Gái til kinda.
Hvað finnst þér vanmetið: Hrútafjöldi á fengitíð. Maður á aldrei nógu marga.
En ofmetið: Enski boltinn.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Fram á nótt með Ný dönsk.
Besta lyktin: Ilmur af góðu heyi.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Að skúra.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að sofa á erfiðri ákvörðun.
Nátthrafn eða morgunhani: Bæði og.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Dyrhólaey.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Beturvitar á samfélagsmiðlum.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar ég sat eins og lítill krakki, fimmtugur maðurinn, skömmustulegur aftur í bíl hjá Eiríki á Grafarbakka og Esther á Sólheimum eftir að hafa misst hestana mína í fjallferð. Þau reyndust mér þar eins og bestu foreldrar.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Bóndi.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Tobba organisti.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Afi minn, Ólafur Jakobsson í Fagradal f. 1895, og mundi síga eftir fýl í Fagradalshömrum.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Fésið.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég mundi koma á friði í heiminum og lengja framhaldsskólann í fjögur ár fyrir æsku þessa lands.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég hitti Jesú einn morguninn, líklega sex ára gamall, við eldhúsborðið heima á Laugarvatni. (Jesús reyndist spænskur ferðalangur sem foreldrar mínir höfðu boðið gistingu kvöldið áður og þegar ég vaknaði var ég kynntur fyrir gestinum og mamma sagði mér að hann héti Jesú þá spurði ég stóreygur: Er þetta hann?)
Mesta afrek í lífinu: Að finna Unu og upplifa ævintýrin sem tóku við í kjölfarið.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Nokkur hundruð ár aftur og upplifa kristnitökuna á Þingvöllum.
Lífsmottó: Allt hefur sinn tíma.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég ætla að taka þátt í árlegri hrútasýningu Hrunamanna og bregða mér síðan á fjallmannakvöld með skemmtilegu fólki.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinMiðflokkurinn fundar á Selfossi
Næsta grein„Nemendur eru uggandi yfir sinni stöðu“