Þorlákshafnarbúinn Sigurjón Óli Arndal er söngvari og bassaleikari hljómsveitarinnar Moskvít sem stormaði fram á sjónarsviðið árið 2021. Moskvít er nú með nýja plötu í smíðum og nokkur lög af henni eru komin inn á streymisveitur. Hljómsveitin heldur tónleika á Sviðinu á Selfossi á föstudaginn og eru meðlimir Moskvít miklu meira en spenntir fyrir kvöldinu. Sigurjón er Sunnlendingur vikunnar af þessu tilefni.

Fullt nafn: Sigurjón Óli Arndal Erlingsson.
Fæðingardagur, ár og staður: 15. janúar 1994 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Ég bý með konu minni, Söru Rut Björgvinsdóttur, og 6 mánaða dóttur okkar, Valíu. Hún er fyrsta stúlkan á Íslandi sem ber það nafn. Svo á ég líka mömmu og pabba og tvær yngri systur sem eiga báðar börn.
Menntun: Grunnnám á bæði lista- og rafiðnabraut.
Atvinna: Tónlistarmaður og seiðaeldismaður.
Besta bók sem þú hefur lesið: Þegar ég var 8 ára gutti í 3. bekk, með engan áhuga á lestri var ég beðin um að lesa fyrir hana Albínu, kennarann minn, og gerði það ekkert sérstaklega vel. En hún var klár og sagði að ég væri lestrarhestur og ég væri í rauninni alltof góður að lesa til þess að gera það ekki! Þann dag fór ég heim með Róbinson Krúsó.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Breaking Bad.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Pulp Fiction og La vita é bella.
Te eða kaffi: Ég er fyrrverandi kaffivéla-viðgerðarmaður og þess vegna segi ég kaffi. Þeð er ekki bara drykkur heldur lífstíll.
Uppáhalds árstími: Það er eitthvað svo töfrandi við haustið. Tíminn sem allt róast niður.
Besta líkamsræktin: Hiit æfingar geri ég daglega og það er sérstaklega gott þar sem ég get gert þær hvar sem er. Annars eru það lyftingar á bodybuilding máta.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég er nokkuð flinkur að elda nautasteikur og hef gaman af eldamennsku.
Við hvað ertu hræddur: Ég hræðist ekkert eitt sérstaklega eins og lofthræðslu, myrkfælni eða snáka. Hræðsla hjá mér er meira eitthvað svona tilfallandi.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Klukkan 6:25.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég hlusta á, eða bý til tónlist.
Hvað finnst þér vanmetið: Náttúran, við komum af henni og verðum alltaf partur af henni.
En ofmetið: Svefn, en það er kannski meira bara afneitun.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Það er árstíðarbundið en á sumrin er það Civilization með Danny Kaye.
Besta lyktin: Negull og kanill!
Bað eða sturta: Ég vel sturtuna. Ég er mjög flinkur í henni sko, eiginlega bara bestur! Maður verður að nýta öll tækifæri til að flexa á meðan maður getur það sko.
Leiðinlegasta húsverkið: Að brjóta saman.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Það er nóg annað fólk rakki þig niður, þú þarft ekki að taka þátt sjálfur.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn að eðlisfari en það sveigist svolítið eftir þörfum.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Stuðlagil er mikið augnakonfekt.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Nýju haldapokarnir! Við vissum ekki hvað við höfðum það gott áður.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Úff.. ég verð ekki auðveldlega vandræðalegur. Örugglega eitthvað í æsku sem ég man ekki.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Mig langaði alltaf að vera listmálari en síðan tók tónlistin við og ekkert annað komst að eftir það.
Fyndnasta manneskja sem þú veist um: Engin ein manneskja, en ég ólst upp við Tvíhöfða og Fóstbræður.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Það væri örugglega mjög gaman að velja einhvern sem er að gera eitthvað furðulegt fyrst að þetta er bara einn dagur. En myndi líklegast hika vegna manneskjunnar sem þarf að díla við eftirköstin. Eða til dæmis vera ljónatemjari sem veit í raun ekkert hvað hann er að gera. En ætli ég
myndi ekki vilja vera konan mín því ég er alltaf svo góður við hana. Má ekki örugglega segja svoleiðis?
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég er Youtube maður
Ef að þú værir alvaldur í einn dag: Myndi ég taka út alla óþarfa kvöl.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er ofboðslega mikill fjölskyldumaður.
Mesta afrek í lífinu: Dóttir mín, Valía Arndal.
Ef að þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann hvert myndir þú fara: Ég myndi kíkja á byggingu píramídanna. Ég myndi samt ekkert sérstaklega vilja staldra þar við. Það væri nú verra ef að ég kæmist að því að þeir væru byggðir með Sjonna-afli.
Lífsmottó: Ræktaðu tré þó svo þú fáir aldrei að sitja undir því.
Hvað ætlaru að gera um næstu helgi: Ég ætla að trylla lýðinn á Sviðinu á Selfossi.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinSelfyssingar öflugir á Íslandsmeistaramóti yngri flokka
Næsta greinKröftug hrina í Kötluöskjunni