Eyrbekkingurinn Ingimar Helgi Finnsson á Selfossi fékk draum sinn uppfylltann í síðustu viku þegar Tómas Steindórsson gerði hann að Sunnlendingi vikunnar í útvarpsþættinum Litli/Stóri á X-inu 977. Ingimar mun stýra þættinum með Tómasi alla föstudaga og er að stíga sín fyrstu skref á öldum ljósvakans við hlið reynsluboltans úr Rangárþingi. Það sem Tómas vissi ekki er að Sunnlendingurinn er skrásett vörumerki en tilnefningin var frábær og Ingimar því vel að því kominn að vera Sunnlendingur vikunnar™.
Fullt nafn: Ég heiti því ágæta nafni Ingimar Helgi Finnsson.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég er fæddur 8. september árið 1988 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Steinunn Birna Guðjónsdóttir kærasta mín og ég eigum tvær frábærar dætur. Þær heita Þórunn Erla og Brynja Rún. Föðurbetrungar.
Menntun: Ég er stúdent og búinn með allt nema ritgerðina í BA eða BS námi í félagsfræði, man ekki hvort. Ritgerðin hefur setið á hakanum í 10 ár, ég mun einn daginn klára hana. Held ég.
Atvinna: Ég er viðskiptastjóri hjá Sýn, starfsmaður á búsetuúrræði fyrir börn, knattspyrnuþjálfari hjá Árborg og nú síðast útvarpsmaður. Svissneskur vasahnífur.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ævisaga Yeonmi Park er ein sú magnaðasta sem ég hef lesið. Beint á bókasafnið, þið verðið ekki svikin.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Mikill Dexter maður, Breaking Bad og svo elskaði ég flestar seríurnar af Homeland. Annars lélegur að horfa á TV.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Gladiator nær mér alltaf, en til að vera léttur Superbad eða Old School.
Te eða kaffi: Ég heimta malbikssvart pumpukaffi.
Uppáhalds árstími: Maður væri að ljúga ef maður segði ekki sumar, þó svo að ég sé mikill vor maður.
Besta líkamsræktin: Að spila fótbolta, bæði fyrir líkama og sál. Ekkert betra.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ef það er ekki á grillinu lendi ég oftast í vandræðum. Konan kallar mig ástríðu-hamfarakokk.
Við hvað ertu hræddur: Ég er hræddur um vini mína og fjölskyldu, annars reyni ég að velta því lítið upp.
Klukkan hvað ferðu á fætur: 07:20 er minn tími til að skína, en vissulega meira af því ég þarf þess heldur en vilji.
Hvað gerir þú til að slaka á: Góð stund með fjölskyldu eða vinum. Að spila fótbolta líka hrikalega slakandi.
Hvað finnst þér vanmetið: Kurteisi.
En ofmetið: Páskaegg, ég er tilbúinn að deyja á þessari hæð.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Climax með Usher.
Besta lyktin: Nýslegið gras, svo var mjög góð lykt af nýja frænda mínum honum Birni Leó Eyþórssyni.
Bað eða sturta: Sturta, eftir 5 mín í baði líður mér alltaf eins og algerum þorpara.
Leiðinlegasta húsverkið: Að brjóta saman þvott og ganga frá honum. Það er gefið.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Einar Johnny heitinn sagði mér einu sinni að það sem dræpi mig ekki myndi herða mig. Það var líka hvernig hann sagði það og í hvaða aðstæðum sem hann sagði það.
Nátthrafn eða morgunhani: Bæði eiginlega, sofna oftast seint og vakna snemma.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Botnstjörn í Ásbyrgi, Skefilsstaðir í Skagafirði og svo var húsbílaferðalagið mitt í Frakklandi stundum eins og við værum að keyra inn í málverki.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Fótbolti, bæði áhorfs og þegar ég spila hann. Þá styttist í kveikiþræðinum á mér.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég átti tímabil þar sem ég gleymdi ítrekað að læsa baðherbergjum sem ég var að nota. Voru vondir svona 2-3 mánuðir sem sá rofi í heilanum á mér bilaði.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég er eitthvern veginn þannig að ég hef alltaf hugsað lítið um framtíðina, sennilega ókostur en á eitthverjum tímapunkti hefur það bókað verið atvinnumaður í fótbolta.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Steinunn og stelpurnar, Hjálmar Örn er yndislegur. Hjörvar Hafliða þegar hann leyfir sér það.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Það fyrsta sem mér datt í hug var að fá að vera Kim Jong-Un og aðeins bylta Norður-Kóreu.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Twitter.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi stoppa stríð. Hérna aðeins nær okkur, þá myndi ég græja göng í gegnum Hellisheiðina.
Mesta afrek í lífinu: Stoltastur er ég af börnunum sem við Steinunn eigum. Þau eru mitt mesta afrek.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Það fyrsta sem mér datt í hug var að kíkja á Maradona á HM árið 1986.
Lífsmottó: Hafa gaman!
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Það er þáttur á föstudagsmorgunn. Föstudagskvöldin eru kósýkvöld með familíunni. Svo er það afmæli með góðu fólki á laugardaginn.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is