Söng- og leikkonan Anna Margrét Káradóttir frá Þorlákshöfn hefur í ýmsu að snúast á aðventunni, enda er hún yfirleitt með mörg járn í eldinum. Á laugardagskvöld heldur hún tónleika í heimabænum ásamt Sveinbirni Hafsteinssyni, undir yfirskriftinni Jólalögin þeirra.
Fullt nafn: Anna Margrét Káradóttir og svara kallinu Anna Magga.
Fæðingardagur, ár og staður: 8.desember 1983 sem gerði mig nýlega hálfsjötuga! Staðsetning var víst Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Ég bý með ferfætlingnum Grétu Garbó. Mjög skrautleg sambúð á köflum.
Menntun: Leikkona að mennt.
Atvinna: Hvar á ég að byrja? Sjálfstætt starfandi leik- og söngkona, aðstoðarforstöðumaður í félagsmiðstöð og stöku sinnum plötusnúður þegar tími gefst.
Besta bók sem þú hefur lesið: Bókin sem er á náttborðinu er að skora hátt, Vertu Úlfur eftir Héðin Unnsteinsson en ég ber svo svakalega mikla virðingu fyrir þessum manni. Hef setið nokkra fyrirlestra hjá honum og hvet alla til þess að reyna að koma því að hjá sér!
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Æi, þetta er svo vandræðalegt, hér kemur það, ég elska Nágranna.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Rocky Horror Picture Show. Punktur.
Te eða kaffi: Te. Búin að reyna að byrja að drekka kaffi en ofurnæmu bragðlaukarnir mínir höndla ekki bragðið. Elska lyktina og elska að bjóða öðrum upp á kaffi, á þessa fínu kaffivél meira að segja!
Uppáhalds árstími: Seinni hluti ágúst þegar það byrjar að dimma aftur. Það er svo kósý!
Besta líkamsræktin: Ég er búin að vera í fjarþjálfun hjá Loga Geirs núna í dágóðan tíma og sé ekki fram á að hætta sem viðskiptavinur þar, svo ætli það sé ekki mitt uppáhald, fjölbreytt ræktarplan, hentar mér agalega vel!
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég er góð í kjúllaréttunum. Svo bý ég til rosalegan fröllurétt sem ég lærði af múttu. Nei, hann er ruglaður og vinirnir farnir að grátbiðja um hann í matarhittingum.
Við hvað ertu hrædd: Móður náttúru. Maður veit aldrei hverju hún tekur upp á! Get ekki óveður og er gjörsamlega sú allra hræddasta við jarðskjálfta.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Það er svo svakalega misjafnt. Fer allt eftir hvernig ég er að vinna þann daginn, ég hata allavega ekki að fá að sofa út.
Hvað gerir þú til að slaka á: Óska eftir hugmyndum takk, ég er ekki alveg nógu flink í að slaka á.
Hvað finnst þér vanmetið: Hangikjöt með heimalagaðri kokteilsósu! Nei, bannað að dæma án þess að prufa!
En ofmetið: Peningar. Þeir eru nefnilega ekki allt.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Ég á svo mikið af uppáhaldslögum sem koma mér í gírinn en þessa stundina hendi ég Pink Lemonade með James Bay á ef ég þarf að komast í stuðið. Það er rosalegt, prufið það!
Besta lyktin: Ég ætla bara að henda þessu út í loftið, elskum við ekki öll lyktina af höfði ungbarna? Hún er eitthvað svo róandi og falleg. Annars er ég þannig að ég þarf að lykta af öllu, oft vandræðalegt! Já, og eins eldhrædd og ég er þá elska ég lyktina af eldspýtum þegar það slokknar á þeim.
Bað eða sturta: Bað bað bað! Ekkert betra en að liggja í baði með kerti, góða músík og jafnvel eitt hvítvínsglas!
Leiðinlegasta húsverkið: Ætli það sé ekki uppvaskið, ég er alltaf að vaska upp!
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Stundum má maður bara gera ekki neitt. Bara vera.
Nátthrafn eða morgunhani: Blússandi nátthrafn!
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Þetta er auðveld spurning, Borgarfjörður eystri.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Allskonar lítil hljóð geta farið í taugarnar á mér, hár andardráttur, tugghljóð og fleira í þeim dúr. Ég er einnig með bráðaofnæmi fyrir óheiðarleika.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Vá, það er úr svo mörgu að velja. Ég verð að nefna þegar ég kveikti í hárinu á mér í erfidrykkju í Perlunni. Það vinnur alltaf.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Sjoppukona eða leikkona.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Edda Björgvins og Helga Braga deila þessum titli. Elska þær. Svo eru vinir mínir snarfyndnir en ég ætla ekki að gera upp á milli þeirra!
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá (og afhverju): Pass. Kannski Gréta Garbó, þá bæði leikkonan og ferfætlingurinn minn. Báðar afar áhugaverðar!
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Halló heimsfriður. Kveðja, KærleiksMagga.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Þegar ég var í leiklistarnáminu mínu fékk ég styrk úr sjóð hins virðulega Sir John Gielgud heitins. Svakalegur heiður. Ég held ég hafi bara sjaldan eða aldrei talað um þetta. Ekki svo ég muni allavega. Af hverju veit ég eigi, því ég er pínu montin af þessu!
Mesta afrek í lífinu: Leiklistarnámið. Ég fór erlendis í leiklistarnám 2008 til Bretlands og þegar ég var nýflutt út skall hrunið á. Það var ansi áhugavert að vera Íslendingur í Bretlandi á þessum tíma. Ég upplifði samt ekkert nema hlýju frá skólanum mínum sem vafði okkur Íslendingana í bómul næstum því og vildu allt fyrir okkur gera.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég held ég myndi pluma mig ágætlega á hippatímabilinu svo ég væri til í að skreppa aðeins þangað, þó ekki nema örstutta stund.
Lífsmottó: Ég er að reyna að tileinka mér ráðið sem ég nefndi hér að ofan en það ráð átti einn uppáhaldsfrændi minn: Það þarf ekki alltaf mikið að vera. Það þarf ekki alltaf mikið að gera. Bara vera.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Núna er mikil söngtörn framundan hjá mér svo helgin fer að mestu leyti í tónleika og æfingar. Ég hóf helgina í Fríkirkjunni Hafnarfirði á fimmtudagskvöld með flottu föruneyti þar sem við fluttum íslensk jólalög. Á laugardagskvöldið ætla ég síðan að halda eitt stykki tónleika í mínum elskulega heimabæ, Þorlákshöfn ásamt Sveinbirni Hafsteins, vini mínum. Við ætlum að hringja inn jólin! Ég fór af stað með tónleikaröð í sumar sem bera heitið Óskalögin þeirra og núna í desember skelltum við tónleikunum í jólabúning og köllum þetta Jólalögin þeirra en þetta verða sumsé óskalög tónleikagestanna.
Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is