Eyrbekkingurinn Guðbjörg Eva Guðbjartsdóttir er ein þeirra sem stendur að opnun vinnustofunnar og menningarhússins BrimRótar Co op & Café í félagsheimilinu Gimli við Hafnargötu 1 á Stokkseyri. Markmiðið er að BrimRót verði menningarmiðja Suðurlands fyrir með fjölbreyttri og skemmtilegri starfsemi; list, sýningum, námskeiðum og tónleikum – ásamt því að bjóða upp á kaffi og með því.

Fullt nafn: Guðbjörg Eva Guðbjartsdóttir, en alltaf kölluð Eva.
Fæðingardagur, ár og staður: 8. september 1986, fædd og uppalin á Blönduósi.
Fjölskylduhagir: Sjálfstæð tveggja barna móðir, Freydís Aría fædd 2013 og Sólrún Ylfa fædd 2015.
Menntun: Sjúkraliði, diplóma í viðburðastjórnun, BA-gráða í ferðamálafræðum, landvörður og er í meistaranámi í náttúru- og umhverfisfræði á Hvanneyri.
Atvinna: Í Meistaranámi og frumkvöðlakona í BrimRót að framleiða allskyns lífrænar húðvörur og te úr jurtum og þangi.
Besta bók sem þú hefur lesið: Leyfðu mér að segja þér sögu eftir Jorge Bucay.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Á kannski ekki einn uppáhalds en þessir koma sterklega til greina; Landinn, Top Gear, Grand Design og allt með David Attenborough.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Shaun of the Dead.
Te eða kaffi: Kýs te en fæ mér yfirleitt kaffi (Íslendinga syndromið).
Uppáhalds árstími: Vor og haust.
Besta líkamsræktin: Fjallgöngur og skemmtiskokk.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Er ekki mikill kokkur, soðinn fiskur og feiti klikkar ekki hjá mér þessa dagana.
Við hvað ertu hræddur: Illsku.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Á slaginu sjö +/- hálftíma.
Hvað gerir þú til að slaka á: Fer í útivist eða fæ mér góðan bolla af kamillu te-i yfir lélegu sjónvarpsefni.
Hvað finnst þér vanmetið: Kurteisi.
En ofmetið: Inniskór, já, ég er komin á inniskó-aldurinn.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Það fer eftir því hvernig stuð er skilgreint, Ohh La La með Faces kemur mér alltaf í hamingjusamt stuð.
Besta lyktin: Á vorin þegar lífið er að vakna og á haustin þegar sumarið er að kveðja.
Bað eða sturta: Alltaf bað. Ég leysi öll mín erfiðustu verkefni og tilfinningar í baði.
Leiðinlegasta húsverkið: Að skúra, alla leið. Eða taka til í barnaherberginu, það er álíka jafnt slæmt.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Allt slæmt leiðir af sér gott, gefur manni extra búst á erfiðum tímum að vera bjartsýnn.
Nátthrafn eða morgunhani: Bæði, kemur sér illa hvað ég elska að vakna snemma á morgnana og eiga gæðastund því ég fæ allar bestu hugmyndirnar og löngun í bras á kvöldin, hin eilífa togstreita A og B manneskjunar.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ættaróðalið í Kvíum í Jökulfjörðum. Talandi um óspillta, ævintýralega flóru og endalausa fegurð náttúrunnar.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Dónaskapur og ónærgætni.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Í tilefni af hrekkjavökunni kom upp í huga mér atvik sem ég lenti í á yngri árum þegar ég fór í stór skemmtilegt hrekkjavökupartý og gisti heima hjá vini og þurfti að ganga í gegnum miðbæ Reykjavíkur daginn eftir klædd og máluð sem Drakúla. Þetta vakti meiri lukku hjá gestum og gangandi en hjá undirritaðri.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Dýralæknir, en ég sá það mjög ung að það myndi aldrei ganga upp nema ég ætti búgarð þar sem ég hefði ekki hjarta í að svæfa eitt einasta dýr.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Það fyrsta sem mér dettur í hug er ég sjálf… en Elva Dögg uppistandari toppar mig alveg með tourette bröndurum.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag, hver þá: Það er afar erfitt að velja á milli frú Vigdísar Finnbogadóttur og Gretu Thunberg. Myndi ekki slá hendinni á móti því að fá að vera jafn mikil áhrifakona og þær eru, hvað varðar þokka, visku og góðmennsku. Frú Vigdís hefur haft gríðarleg áhrif á mig í gegnum allt líf mitt og Greta er ein magnaðasta unga kona sem ég hef heyrt í.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook, en er að dragast meira og meira að Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi strjúka lampann minn, biðja um heimsfrið, stoppa fátækt, þrælkun og loftslagsbreytingar ásamt því að setja meira grín og glens í veröldina.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég get ekki hugsað um að bíta í handklæði þá fæ ég hroll. Eins og núna.
Mesta afrek í lífinu: Að vinna á blóðrannsókn verandi týpan sem var alltaf að líða útaf þegar kom að blóði, fyrsta skiptið sem ég þurfti að „tappa“ af manneskju sem að mér fannst með stólpípu, lenti ég sem betur fer á hörðum bónda sem talaði mig í gegnum ferlið. Hann sagði mér að fá mér súkkulaði, drekka vatnsglas, koma svo og reka nálina í hann, sem og ég gerði svo snilldarlega eftir nokkra súkkulaðibita. Svo auðvitað að ganga með og koma í heiminn tveimur afleggjurum. Hafið þið pælt í því hversu magnaður kvenlíkaminn er?
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Yfir í hippaveröldina, beint á tónleika með Bítlunum.
Lífsmottó: Það er ekkert sem heitir slæmt veður, það er bara veður og föt eftir því.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Á laugardaginn opnum við BrimRót Co op & Café, Hafnargötu 1 á Stokkseyri og verðum með loppumarkað, sýningar, upplestur, tónleika í Knarrarósvita og endum svo kvöldið á tónleikum með Svavari Knúti. BrimRót er opin vinnustofa, hægt að fá kaffi og verður menningarmiðja suðurlands, með allskyns uppákomum. Mæli eindregið með að kíkja!


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinSveinn Skúli Íslandsmeistari í víðavangshlaupi
Næsta greinAron Emil þriðji á sterku móti í Hollandi