Svanur Ingvarsson, kennari og húsasmíðameistari á Selfossi, var einn þeirra sextán sem forseti Íslands sæmdi heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum á þjóðhátíðardaginn. Svanur var sæmdur riddarakrossi fyrir framlag í þágu íþróttastarfs fatlaðra.

Fullt nafn: Svanur Ingvarsson.
Fæðingardagur, ár og staður: 12. febrúar 1963 í Vestmannaeyjum.
Fjölskylduhagir: Ég er giftur Maríu Óladóttur og eigum við tvö börn. Ara Steinar 1989 og Hörpu 1999. Ari býr með Heiðu Ösp Árnadóttur. Saman eiga þau Helgu Völu 2020, fyrir átti Heiða Gunnar Erik 2009 og Ari átti Arnar Mána 2013. Harpa býr enn hjá okkur.
Hverra manna ertu: Mamma er Ingibjörg Helga Guðmundsdóttir frá Hurðarbaki í Villingaholtshreppi. Pabbi heitinn var Ingvar Gunnlaugsson frá Gjábakka í Vestmannaeyjum.
Menntun: Húsasmíði og síðar kennsluréttindanám.
Atvinna: Kennari við Húsasmíðabraut Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Besta bók sem þú hefur lesið: Mæðgurnar á heimilinu banna mér að nefna hana en ég get sagt að einhver frændi minn skrifaði hana. Hún er skemmtileg og með góðan boðskap, en best er að hún er bæði lítil og þunn.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Martin læknir er náttúrulega dásamlegur þáttur með öllum þessum skemmtilegu persónum. Svo hef ég gaman af flestum lögguþáttunum sem sýndir eru á RÚV.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Svoleiðis haga ég mér bara ekki. Ég verð samt að játa að hafa um jól og áramót horft á Die Hard myndirnar nokkrum sinnum. Intouchables (2011) hef ég horft á tvisvar, þrisvar og gæti alveg hugsað mér horfa á hana aftur. Ég á auðvelt með að tengja við hana. Atvinnulausi gaurinn, sem ræður sig í vinnu við að sinna ríka fatlaða gaurnum, er alveg frábær. Hann er svo skemmtilegur, sem gerir myndina skemmtilega og samstarfið þeirra verður stórbrotið og fallegt.
Te eða kaffi: Klárlega kaffi. Það einhvern vegin tekur því ekki að lepja te.
Uppáhalds árstími: Ég held að það sé vorið. Það er dásamlegt þegar veðrið batnar, gróðurinn tekur við sér, farfuglarnir koma og skólarnir loka. Annars finnst mér allt árið bara fínt.
Besta líkamsræktin: Án vafa er það sund. Ég þarf að fara að taka mig á þar. Fara oftar og synda. Það liggur ekki svo á að leysa vanda heimsins að ekki megi synda áður en farið er í heitapottinn.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ef rétt skildi kalla þá er ég bestur í að gera kartöflumús. Það kemur mér oft á óvart hversu vel hún heppnast.
Við hvað ertu hræddur: Ég er ábyggilega hræddur við rottur, það hefur bara ekki reynt á það. Annars er ég nokkuð slakur yfir leitt.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Á veturna fer ég á fætur kl. 7:00. Um helgar og á sumrin er allur gangur á fótaferðatíma.
Hvað gerir þú til að slaka á: Fer í heita pottinn í sundlauginni eða hendi mér fyrir framan sjónvarpið og horfi á einhvern af áður nefndum uppáhalds sjónvarpsþáttum.
Hvað finnst þér vanmetið: Mannleg samskipti.
En ofmetið: Samfélagsmiðlar.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Stína stuð.
Besta lyktin: Ungbarnalykt toppar allt en gróðurlyktin á vorin skorar hátt.
Bað eða sturta: Sturta verð ég að segja, hún er fljótlegri o.þ.h. Baðið er hins vegar mun notalegra.
Leiðinlegasta húsverkið: Minnst skemmtilega húsverkið gæti verið að þrífa klósettið. Man þó eftir því að til að hvíla mig á próflestri eitt sinn, valdi ég mér klósettþrif.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Úbbs, þessi er erfið. Ég er viss um að mamma og pabbi hafi kennt mér heiðarleika.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani fyrstu áratugina en þetta hefur einhvern vegin snúist svolítið við. Ég næ oft að slaka ansi vel á á morgnana.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Vestmannaeyjar.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Japl og smjatt á tyggjói gæti drepið mig.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Það munaði litlu núna í byrjun júní. Með góðri hjálp synti ég í Adriahafinu við Króatíu. Félagar mínir héldu á mér í kóngastól upp úr sjónum og í hjólastólinn. Þegar ég var svo kominn í sundlaugina við hótelið áttaði ég mig á því að ég var ekki lengur í sundstuttbuxunum. Þær höfðu orðið eftir í sjónum! …en sem betur fer var ég í venjulegri sundskýlu innan undir sem var á sínum stað.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Það man ég ekki, sjálfsagt hefur maður ætlað að verða sjóari, sem Eyjapeyji.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Fyrir utan atvinnumanninn Örn Árnason þá er það Nói vinur minn Guðmundsson. Fjórtán ára strákur, með downs, sem er stundum hjá okkur.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Það væri gaman að vera Tóti Ingólfs og geta spilað á gítar eins og hestur allan daginn.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég nota samfélagsmiðla næstum ekki neitt. Ég held að tölvupóstur teljist ekki með, en þá er það Snapchat.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá mundi ég að sjálfsögðu stoppa stríð og aðrar hörmungar af manna völdum.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er af sumum talinn þrjóskur og þver. Það er verst að ég veit ekki hvort það er gott eða slæmt.
Mesta afrek í lífinu: Að haga mér þannig að María mín nenni mér enn eftir öll þessi ár og alla hjálpina.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Að Hurðarbaki og Gjábakka og hitta foreldra mín unga.
Lífsmottó: Gera sitt besta, hjálpa til og vera ekki til vandræða.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Ferðast til Langaness með hjólhýsið í eftirdragi (í annað sinn), til móts við göngufélag FSu, hvar gengnir verða dagstúrar fram í næstu viku.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinListasafn Árnesinga hlaut menningarverðlaun Hveragerðis
Næsta greinHamar vann toppslaginn