Hólmfríður Einarsdóttir er formaður Félags heilbrigðisgagnafræðinga en félaginu tókst að koma náminu á háskólastig eftir 20 ára baráttu. Heilbrigðisgagnafræðingar skiptu líka um starfsheiti, enda þótti þeim það gamla, læknaritari, engan veginn eiga við lengur. Aðsókn í nám í heilbrigðisgagnafræði hefur stóraukist og segir Hólmfríður að stéttinni hafi verið bjargað í bili.

Fullt nafn: Hólmfríður Einarsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 28. ágúst 1974 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Er gift Magnúsi Ragnari Magnússyni, framkvæmdastjóra Kayakferða á Stokkseyri og eigum við þrjú börn, Daníelu 18 ára, Mikael Fannar 16 ára og Einar Pál 10 ára. Prinsinn á heimilinu er svo litla ljónið okkar hann Otri Páll, 3 ára köttur sem er reyndar „hrútur“ því hann á afmæli 3. apríl.
Menntun: Stúdent frá FSu og heilbrigðisgagnafræðingur frá FÁ. Ég byrjaði svo síðastliðið haust í HÍ þar sem ég er að ná mér í diplómagráðu í heilbrigðisgagnafræði.
Atvinna: Umsjónarmaður rafrænnar sjúkraskrár og kerfisstjóri Sögukerfisins á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.
Besta bók sem þú hefur lesið: Tvær bækur höfðu gríðarleg áhrif á mig, svo mikil að ég grét og þurfti að leggja þær frá mér um tíma. Önnur er Þúsund bjartar sólir eftir Khaled Hosseini sem sýndi mér Afganistan og líf fólksins sem þar býr á allt annan hátt en ég þekkti. Hin er Hann var kallaður þetta eftir Dave Pelzer sem er hans eigin saga af skelfilegu ofbeldi sem hann varð fyrir af hálfu móður sinnar. Eina ástæða þess að ég gat klárað bókina var að ég vissi að hann komst lífs af og er í dag virtur fyrirlesari. Sú skemmtilegasta til þessa er Britt Marie var hér eftir Fredrik Backman. Ég hafði mjög gaman af húmornum í þeirri bók.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég horfi rosalega lítið á sjónvarp alla jafna og enginn einn þáttur í uppáhaldi. En ef ég horfi þá eru það helst norrænir eða breskir sakamála- framhaldsþættir eða þá vel valin drama bíómynd með „dass“ af spennu og „make love-i“.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég átti Dirty Dancing á VHS spólu og sleit henni út, en ég get ennþá horft á myndina og fengið gæsahúð yfir lokaatriðinu.
Te eða kaffi: Kaffi allan daginn.
Uppáhalds árstími: Bæði vorið, þegar allt er að lifna við eftir veturinn og haustið, er allt kemst í rútínu aftur eftir sumarið.
Besta líkamsræktin: Ketilbjöllur hjá Kristófer Helgasyni í World Class. Ég hef ekki komist í tæri við betri alhliða líkamsrækt. Einnig útihlaup, ég tek tarnir í því og finnst það æðislegt þegar ég er komin í form. Og svo snjóbretti, ég nota hvert tækifæri sem gefst á veturna til renna mér á snjóbretti sem er fjölskyldu sportið okkar.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég mundi segja kjúklingarétti og gúllassúpu. Ég er einnig góð í eftirréttum þar sem ég er sjálf vandræðilega mikill sælkeri.
Við hvað ertu hrædd: Eins og ég var nú mikill klifurköttur sem barn, klifraði uppá allt algjörlega óttalaus (ég veit að pabbi minn fær hroll við það eitt að hugsa um þetta) þá er ég orðinn frekar lofthrædd í dag!
Klukkan hvað ferðu á fætur: 05:20 tvisvar í viku til að mæta í ketilbjöllur, hina morgnana hringir klukkan 06:50.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég hlusta svakalega mikið á tónlist. Einnig prjóna ég, hlusta á „podcöst“, æfi mig á gítarinn og nota heita pottinn minn óspart.
Hvað finnst þér vanmetið: Einfaldleikinn.
En ofmetið: Kartöflur.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Jiiii, þau eru svooo mörg og erfitt að nefna eitt. Rolling in the deep með Adele er t.d. eitt þeirra og er eitt af þeim lögum sem ég get bara alls ekki slökkt á. Ég sá Adele á tónleikum fyrir 4 árum síðan. Ef það kemur t.d. í útvarpinu og ég er komin á áfangastað, þá verð ég annaðhvort að klára það eða þá lækka hægt og rólega alveg niður, svo mér finnist eins og það sé að klárast.
Besta lyktin: Nýlagað kaffi og útilyktin sem fylgir bæði sængum sem búið er að viðra og þvotti af snúrum.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Ég man ekki eftir einhverju einu sem mér finnst leiðinlegast en mér finnst skemmtilegast að sjá um þvottinn. Það er eitthvað róandi við það að brjóta saman þvott og þá nota ég oft tímann til að hlusta á eitthvað.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að vera alltaf besta útgáfan af sjálfri mér frekar en léleg útgáfa af einhverjum öðrum.
Nátthrafn eða morgunhani: Bæði, fer allt of seint að sofa en vakna snemma.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Stokkseyrarfjara er afskaplega falleg í austur endanum, sennilega er ég aðeins hlutdræg þar sem ég er alin upp á Stokkseyri. Nauthúsagil finnst mér komast nálægt því að líkjast himnaríki eins og ég ímynda mér að það sé og ítölsku alparnir eru stórkostlegir.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Óheiðarleiki og lygi, ég bara get það ekki í fari fólks.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ahh… þau eru ansi mörg þar sem ég get verið svo hvatvís… ég get nefnt eitt sem var heldur neyðarlega hlægilegt… þá var ég bílstjóri á leið á sveitaball í Njálsbúð í kringum tvítugt með fullan bíl af strákum og var að reyna að vera töff gella. En þar sem ég hef litla sem enga sjón á hægra auga þá vissi ekki að það vantaði hægra glerið í sólgleraugun mín.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég man ekki til þess að hafa verið búin að ákveðið það… svo finnst mér ég ekki vera alveg orðin stór og er því enn að ákveða mig.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Þær eru sko nokkrar, húmor er eitt af því fyrsta sem ég leita eftir í fari fólks. Þar sem þetta er liðurinn Sunnlendingur vikunnar skal ég nefna tvo af mínum uppáhalds FB-vinum sem eru einmitt Sunnlendingar. Ég fer reglulega inn á síðuna þeirra bara til að athuga hvort ég hafi nokkuð misst af status frá þeim. Það er annarsvegar Stokkseyringurinn Hróbjartur Örn Eyjólfsson, fangavörður og hinsvegar Selfyssingurinn Anna Margrét Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur á HSU. Þau eru bæði hrikalega fyndnir pennar.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Besta vinkona bandarísku söngkonunnar Demi Lovato. Ég mundi vilja eyða öllum deginum með henni því mér finnst hún svo fyndin og skemmtileg.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram og Twitter.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég útrýma óréttlæti.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Mér finnst sjúklega gaman að spila á trommur og get haldið takti nokkuð vel.
Mesta afrek í lífinu: Vona að ég eigi það eftir, en eitt af afrekum mínum hingað til var að fá Magga minn, sem þoldi alls ekki ketti, til þess að samþykkja það að við fengjum okkur kött á heimilið. Í dag elskar hann litla ljónið okkar.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég hugsa að ég færi aftur til dagsins 28. júní 1984 til að upplifa lokatónleika hljómsveitarinnar WHAM á Wembley Stadium. Það hefði verið rosalegt! En George Michael var mitt fyrsta átrúnaðargoð.
Lífsmottó: “Allt er eins og það á að vera” – það fylgir því mikil ró að vita það.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Ég verð að vinna við forsetakosningarnar á laugardaginn þar sem ég er í kjörstjórn Árborgar og það þykir mér svakalega skemmtileg vinna. Sunnudagurinn fer svo eftir veðri en mér dettur örugglega eitthvað í hug.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinSelfoss úr keppni eftir fjörugan leik
Næsta greinÞakkarorð