Rangæingurinn Arnór Ingi Grétarsson dúxaði á stúdentsprófi þegar nemendur voru brautskráðir frá Fjölbrautaskóla Suðurlands fyrir jól. Arnór Ingi hlaut fjölmargar viðurkenningar við brautskráninguna, meðal annars frá Hollvarðasamtökum FSu, en einnig fékk hann sérstaka viðurkenningu fyrir einstaka frammistöðu, alúð og áhuga í tungumálanámi. Háskólanám er næsta skef hjá þessum efnilega pilti sem þó er ekki búinn að gera upp við sig hvaða námsgrein verður fyrir valinu.
Fullt nafn: Arnór Ingi Grétarsson.
Fæðingardagur, ár og staður: Fæddist í Reykjavík 2. nóvember árið 2000, en ólst upp á Hellu.
Fjölskylduhagir: Foreldrar mínir eru Guðrún Elín Pálsdóttir og Grétar Jónsson. Ég bý hjá móður minni og eiginmanni hennar á Selfossi og faðir minn býr á Hellu. Ég á eina hálfsystur, Elísu Björg Grímsdóttur.
Menntun: Stúdent á viðskipta- og hagfræðilínu, og alþjóðalínu frá Fjölbrautaskóla Suðurlands. Stefni á háskólann eða menntun erlendis næsta haust.
Atvinna: Vinn um helgar við að selja málningu hjá Húsasmiðjunni.
Besta bók sem þú hefur lesið: Engin ein í uppáhaldi, en annað hvort Harry Potter eða Hunger Games bækurnar.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Friends er auðvitað go-to þátturinn. Hef mögulega horft á alla þættina að minnsta kosti tíu sinnum. Annars er til margt annað skemmtilegt á veitunni Netflix.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Eins og bækurnar, er Hunger Games sagan ein af mínum uppáhalds og get þannig horft á myndirnar aftur og aftur.
Te eða kaffi: Ég tók einu sinni lífsýnarannsókn sem gaf mér niðurstöðuna um að ég sé 30% breskur. Það gæti útskýrt af hverju mér finnst te betra.
Uppáhalds árstími: Vorið. Ekki það kalt og frjókornin ekki komin á stjá.
Besta líkamsræktin: Fara út og viðra hundinn er besta hreyfingin.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Er sérfræðingur í að grilla samloku með osti og pepperoni.
Við hvað ertu hræddur: Öll skordýr sem fljúga.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Alltaf hálftíma áður en ég þarf að byrja á einhverju.
Hvað gerir þú til að slaka á: Horfi á eitthvað skemmtilegt á YouTube.
Hvað finnst þér vanmetið: Quesadillas fá ekki þá ást sem þær eiga skilið.
En ofmetið: Grillað kjöt og BBQ sósa.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Fergalicious með Fergie.
Besta lyktin: Ilmkertin í Hagkaup.
Bað eða sturta: Sturta, þar sem að ég á ekki bað.
Leiðinlegasta húsverkið: Að fara með glös úr herberginu mínu, inn í eldhús.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að stíga út fyrir þægindaramman.
Nátthrafn eða morgunhani: Mesti nátthrafn sem til er.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Umdeilanlegt svar, en ég myndi segja París.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Fólk sem gefur ekki stefnuljós.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég var ekki búinn að æfa textann minn nógu vel fyrir leikrit og þar af leiðandi gleymdi ég hvað ég átti að segja fyrir framan allan skólann.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég vildi verða arkítekt. Ég elskaði að teikna þegar ég var yngri og var oft að teikna hús og ýmsar byggingar.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Besti vinur minn, lávarður Kormákur Atli.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég myndi vera Guðni Th. til að sjá hvernig það er að reka land.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég nota Snapchat of mikið.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi geispa golunni, eins og Joey.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Að ég veit ekki mikið um íslenska menningu. Ég er þó að vinna í því.
Mesta afrek í lífinu: Að dúxa og fá allar viðurkenningarnar tengdar því kemur mjög ofarlega á þeim lista.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi ferðast til ársins 2011 og fjárfesta í Bitcoin.
Lífsmottó: Ekki hugsa, bara gera.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Fara í keilu og út að borða með vinum mínum.
Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is