Óttar Guðlaugsson, íþrótta- og heilsufræðingur, var á dögunum ráðinn heilsu- og tómstundafulltrúi Grímsnes- og Grafningshrepps. Óttar er með M.T. gráðu í íþrótta- og heilsufræði frá Háskóla Íslands og með góða reynslu úr kennslu og þjálfun barna og unglinga ásamt því að hafa staðið að ýmiskonar heilsutengdum námskeiðum fyrir alla aldurshópa. Hann er Sunnlendingur vikunnar.
Fullt nafn: Óttar Guðlaugsson.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég er fæddur þann 24. febrúar árið 1992 í Reykjavík. Þessi dagsetning hefur ófáum sinnum lent á konudeginum og brandarakallarnir hafa keppst við að senda mér kveðju á afmælisdaginn: „Til hamingju með daginn… og afmælið“.
Fjölskylduhagir: Við Sesselja Anna Óskardóttir búum saman og deilum forræði yfir hundinum okkar, Myrru.
Hverra manna ertu: Foreldrar mínir eru Guðlaugur Sæbjörnsson, fjármálastjóri í Múlaþingi og Áslaug Ragnarsdóttir, hárgreiðslumeistari, skemmtanastjóri á hjúkrunarheimilinu Dyngju og algjör meistari.
Menntun: Stúdentspróf frá Menntaskólanum á Egilsstöðum, með mastersgráðu í íþrótta- og heilsufræði frá Háskóla Íslands og Marketing Management frá Erhvervs Akakemi Sydvest í Danmörku.
Atvinna: Nýráðinn heilsu- og tómstundafulltrúi hjá Grímsnes- og Grafningshreppi. Ásamt því er ég með styrktarþjálfun á morgnana með hressu og skemmtilegu fólki í Sjúkraþjálfun Selfoss.
Besta bók sem þú hefur lesið: Synir Duftsins eftir Arnald Indriðason.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég á erfitt með að festa einn uppáhaldsþátt en ég get alltaf horft aftur og aftur á Brooklyn Nine Nine.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: The Vacation (2015). Besta atriði bíómyndasögunnar er þegar heimilisfaðirinn er að sýna nýja plug-in hybrid bílinn með tveimur bensíntökum og hliðarspeglunum báðu megin.
Te eða kaffi: Kaffi allan daginn.
Uppáhalds árstími: Sumarið er tíminn.
Besta líkamsræktin: Lyfta með heilsu- og lífstílshópnum Vippinu™.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Hrísgrjónagraut.
Við hvað ertu hræddur: Ég er ekkert sérlega hrifinn af suðandi flugum.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ég er oftast að vakna um 5:30 og gera mig kláran í Vippið™ og Strippið™.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég finn innri frið með mér í göngutúr með hundinum. Annars finnst mér gott að horfa á góða ræmu í sjónvarpinu.
Hvað finnst þér vanmetið: Öll störf sem gerð eru í sjálfboðavinnu, þetta eru hetjur samtímans.
En ofmetið: Ég ætla koma með óvinsæla skoðun og henda skyndibitastaðnum KFC undir rútuna. Ég hef aldrei náð að detta á vagninn.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Fjólublátt ljós við barinn með Klíkunni. Annars var forsetaframboðslag Ástþórs Magnússonar algjör banger.
Besta lyktin: Lyktin af nýsleginu grasi er mér ofarlega í huga.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Að brjóta saman og ganga frá hreinum fötum. Það gerist ófáu sinnum að ég safna í hreina og óhreina hrúgu.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Hann Sindri Rúnarsson í Íslandsbanka og aðstoðarþjálfari Árborgar gaf mér eitt sinn gott ráð. Að vera óhræddur að taka af skarið og stökkva í djúpu laugina, annað hvort sekkur maður eða syndir. Frábært ráð frá vini mínum Sindra.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég er algjör morgunhani en nátthrafn í grunninn.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Það er aragrúi af fallegum stöðum austur á Héraði en verð að segja Stórurð við Borgarfjörð eystri.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Metingur, hroki, tuð, leiðindi og svo fiskibollur í dós.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég myndi segja þegar ég var að keppa í fótbolta í 2. flokki og við áttum útileik gegn Sindra á Hornafirði. Fyrir þennan leik var búið að ákveða að gera umgjörðina eins flotta og hjá meistaraflokknum; vallarþulur, full stúka og liðin gengu saman inn á völlinnn. Þegar ég var að taka fyrsta skrefið út úr íþróttahúsinu þá tókst mér með eindæmum að misstíga mig í þrepinu. Ég stóð upp eins og ekkert hefði í skorist en var sárþjáður. Ég ætlaði ekki að láta þetta stoppa mig og þjösnaðist í heilar 4 mínútur þangað til ég lét kúlið á hilluna og bað um skiptingu. Mér til mikillar gleði þá var lagið 4 Minutes með Madonnu og Justin Timberlake vinsælt á þessum tíma og var það reglulega spilað í klefanum mér til heiðurs eftir þennan leik.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Atvinnumaður í fótbolta eða landsliðsþjálfari.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Þórarinn Smári Thorlacius – ég fer alltaf hlæjandi í bankann til hans.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Það er bara mjög erfitt að svara þessari spurningu.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Sennilega er ég mest á Instagram en er vel hallærislegur og hangi stundum á Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi boða heimsfriðar, samþykkja að byggja löglega íþróttahöll og leikvang fyrir alla stórviðburði á Selfossi og láta Braga Bjarnason, bæjarstjóra taka heila vakt á Bragabátum.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég þótti upprennandi tónlistarmaður á sínum tíma og get spilað á nokkuð mörg hljóðfæri. Einnig var ég í kór sem vígði Hörpuna á sínum tíma.
Mesta afrek í lífinu: Ég er mjög stoltur af bikarmeistaratitli okkar Selfyssinga árið 2019. Þar var mikil vinna sem allir lögðu á sig fyrir það afrek.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég færi aftur til haustins 2015 og tæki aftur skólaárin mín í Háskólanum á Laugarvatni, með bekknum mínum þar – langbesti hópurinn.
Lífsmottó: Gerðu eins vel og þú getur.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég ætla að fara á svakalega lyftingaræfingu með Vippinu™, skella mér í sund og láta svo lífið koma mér á óvart.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is