Stokkseyringurinn Henning Eyþór Jónasson er yfirþjálfari í nýrri líkamsræktarstöð, Afreki, sem opnaði í Reykjavík á gamlársdag. Fjöldi Sunnlendinga stendur að baki stöðinni; Eyrbekkingurinn Elli Joð, Selfyssingurinn Atli Fannar Bjarkason og Tungnamaðurinn Eyþór Loftsson og kona hans Helga Björk Helgadóttir Valberg frá Hellu. Þarna ríkir sannkölluð fjölskyldustemning. Eins og sjá má hér að neðan er Henning margt til lista lagt, en hann er þekktur knattpyrnumaður og annálaður handverksmaður, svo fátt eitt sé nefnt.
Fullt nafn: Henning Eyþór Jónasson.
Fæðingardagur, ár og staður: Fæddur 24. júní 1983 á Stokkseyri.
Fjölskylduhagir: Í sambúð með Laufeyju Kristjánsdóttur. Sonur okkar er Orri óstöðvandi og það er von á öðrum strák í mars.
Menntun: Hin og þessi.
Atvinna: Starfa sem flugumferðarstjóri hjá Isavia og svo var ég að opna líkamsræktarstöðina Afrek, ásamt góðu fólki. Við opnuðum dyrnar fyrir iðkendum síðasta dag ársins 2021 og síðan hefur verið mikið fjör hjá okkur í Skógarhlíð 10. Þar eru allir velkomnir á æfingu.
Besta bók sem þú hefur lesið: Las frekar mikið á árum áður en hef ekkert gert af því að undanförnu. Mig vantar fleiri tíma í sólarhringinn.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég hef frekar orku í einn þátt á kvöldin en að grípa í bókina. Margir flottir þættir sem poppa upp en bestir finnst mér Mindhunter, sem eru á Netflix (#samstarf). Ég vona að það sé önnur þáttaröð væntanleg.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég man ekki hvenær ég horfði á bíómynd síðast og mér dettur engin í hug í augnablikinu. Jú, reyndar get ég alltaf horft aftur og aftur á Tarantino myndir. Þær eru alltaf snilld.
Te eða kaffi: Kaffi. Alltaf kaffi.
Uppáhalds árstími: Sumar. Alltaf sumar.
Besta líkamsræktin: Afrek!
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ferskan fisk frá pabba. Helst sólkola.
Við hvað ertu hræddur: Fátt held ég. Kannski bara eitthvað sem ég held að allir foreldrar hræðist.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Snemma.
Hvað gerir þú til að slaka á: Fer út í bílskúr í vinnustofuna mína. Set á mig headset og hlusta á ljúfa tóna og renni við í rennibekknum mínum. Það er fátt skemmtilegra og það er einstaklega slakandi. Ég er þessa dagana að smíða barnahristur sem eru, fyrir áhugasama, til sölu inni á litlabarnabudin.is. Tilvalin skírnargjöf.
Hvað finnst þér vanmetið: Fjaran og kyrrðin.
En ofmetið: Svo margt.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Þegar mig vantar smá spark í rassinn á æfingu þá máttu endilega spila All Out Life með Slipknot, eða Green Machine með Kyuss og hækka í botn. Það er þá sem við hættum okkur úr að ofan á æfingu.
Besta lyktin: Af Orra mínum nýkomnum upp úr bubblubaði.
Bað eða sturta: Sturta. Nema þegar Orri kemur með, þá er það bað.
Leiðinlegasta húsverkið: Að skúra held ég bara. Ég reyndar skúra næstum aldrei. En það var leiðinlegt þegar ég skúraði síðast.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að gera það besta úr stöðunni.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani, sem væri alveg til í að fá að sofa einu sinni út.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Þeir eru svo margir. En það er fallegt hjá mömmu og pabba í sveitinni. Fjaran á Stokkseyri verður heldur aldrei þreytt.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Ekkert sem að mér dettur í hug akkúrat núna.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Hvar á ég að byrja…???
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Atvinnumaður í fótbolta.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Allan daginn Orri.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Michael Jordan. Það væri forvitnileg tilfinning að labba inn á völl vitandi það að þú ert einn besti íþróttamaður allra tíma og ert væntanlega að fara að stríða mótherjanum ansi mikið.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég segja Jordan að standa alveg kyrr og troða svo yfir hann.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ekkert lengur.
Mesta afrek í lífinu: Orri okkar. Og svo nýjasta afrekið, Afrek.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi fara fimm ár fram í tímann og sjá hvernig staðan á Afreki væri.
Lífsmottó: Það er það sama og besta ráðið sem ég fékk. Að gera alltaf það besta úr stöðunni.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Æfa, mála, hamra, skrúfa og brasa í Afreki. Það er vinnuhelgi framundan þar sem við ætlum að leggja lokahönd á milliloftið okkar. Spennandi.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is