Magnús Örn Sigurjónsson, kúabóndi í Eystri-Pétursey í Mýrdalshreppi, er nýr formaður Félags kúabænda á Suðurlandi. Hann tók við formennskunni af Aðalbjörgu Rún Ásgeirsdóttur á Stóru-Mörk á aðalfundi félagsins sem haldinn var á dögunum. Í Eystri-Pétursey eru Magnús og Hugrún með mjólkurframleiðslu fyrir 55 árskýr og nautaeldi.

Fullt nafn: Magnús Örn Sigurjónsson.
Fæðingardagur, ár og staður: 19. mars 1995 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Bý með Hugrúnu Sigurðardóttir og eigum við saman soninn Sigurð Árna.
Hverra manna ertu: Foreldrar mínir eru þau Kristín Magnúsdóttir og Sigurjón Eyjólfsson.
Menntun: Ég er menntaður bifvélavirki og búfræðingur.
Atvinna: Vinn sem bóndi. Aukalega er ég líka formaður Félags kúabænda á Suðurlandi og formaður skipulags- og umhverfisráðs hjá Mýrdalshreppi.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég les mjög lítið svo ég ætla bara að leyfa mér að kalla Bændablaðið bók, þar sem að ég fletti því reglulega.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Yellowstone.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: The Lord of the Rings.
Te eða kaffi: Kaffi allan daginn.
Uppáhalds árstími: Vorið hugsa ég.
Besta líkamsræktin: Fjallgöngur.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Nautasteik.
Við hvað ertu hræddur: Að tala fyrir framan stóran hóp af fólki. Samt er ég einhvernveginn búinn að koma mér í þá stöðu að þurfa að gera það ansi reglulega.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Milli 6 og 7.
Hvað gerir þú til að slaka á: Spila tölvuleiki.
Hvað finnst þér vanmetið: Íslenskar landbúnaðarafurðir.
En ofmetið: Nutella.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Runnin’ Down a Dream með Tom Petty klikkar seint.
Besta lyktin: Ný uppáhellt kaffi á morgnana.
Bað eða sturta: Svona dags daglega sturta en gott bað klikkar aldrei öðru hvoru til að slaka á.
Leiðinlegasta húsverkið: Brjóta saman þvott.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Ekki pæla of mikið í því hvað öðru fólki finnst um þig.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Uppi á toppi á Sveinstind við Langasjó. Þar er örugglega eitt fallegasta útsýni sem hægt er að komast í í góðu veðri.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Læt fátt fara í taugarnar á mér svo það kemur lítið upp í hausinn á mér.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Bóndi, fyrir utan smá tíma eftir að ég sá Indiana Jones þegar ég var lítill, þá var ég alveg á því að ætla að vera fornleifafræðingur.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Konan. Hún er mikill húmoristi og ég fæ seint leið á því.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Örugglega Facebook.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég hef svakalegan áhuga á geimnum og öllu sem honum tengist.
Mesta afrek í lífinu: Sennilega bara það að hafa orðið bóndi og að vera að leggja mitt af mörkum í þeirri frábæru matvælaframleiðslu sem fer fram hér á Íslandi.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Myndi annaðhvort ferðast fram í tímann þar til að ég gæti ferðast út í geim eða aftur í tímann og labba um götur Rómar á tíma Pax Romana.
Lífsmottó: Þetta reddast.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Við erum á leið í fermingu í Reykjavík, en annars tek ég því bara rólega um helgina.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinVokes-frændur veittu ÍH náðarhöggið
Næsta greinTveir nemendur úr BES komnir í úrslit Pangea stærðfræðikeppninnar