Sr. Ninna Sif Svavarsdóttir er næsti sóknarprestur Hveragerðisprestakalls en hún tekur við embættinu næstkomandi sunnudag, þann 1. desember og er skipuð til fimm ára. Ninna Sif hefur lagt gjörva hönd á margt og meðal annars verið stundakennari við guðfræðideild HÍ, forseti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar og formaður Prestafélags Íslands frá 2018. Hún hefur þjónað sem prestur í Selfossprestakalli undanfarin fjögur ár og munu Selfyssingar kveðja hana formlega í guðsþjónustu þann 8. desember næstkomandi.

Fullt nafn: Ninna Sif Svavarsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Fædd á Akranesi 20. apríl 1975.
Fjölskylduhagir: Gift Daða Sævari Sólmundarsyni, málarameistara. Börnin okkar eru Svavar 20 ára, Kristín Sif 18 ára, Hallgrímur 12 ára og Sæmundur Daði 5 ára.
Menntun: Embættispróf í guðfræði og MA í gamlatestamentisfræðum frá HÍ.
Atvinna: Sóknarprestur Hveragerðisprestakalls frá 1. desember.
Besta bók sem þú hefur lesið: Biblían. Jafnframt er það líka sú bók sem ég hef þurft að hafa mest fyrir að reyna að skilja. Í tilefni aðventunnar nefni ég líka aðra af fjölmörgum uppáhaldsbókum, Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: The Crown. Elísabet er mín kona og mér finnst að við gætum náð vel saman yfir tebolla. Eða glasi af góðu gini.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Eina myndin sem ég horfi á aftur og aftur er Love Actually, alltaf fyrir jólin. Hún er líka mjög góð flensumynd.
Te eða kaffi: Einn kaffibolli á morgnana og annar seinnipartinn. Prestur kemst heldur ekki upp með annað en þiggja kaffi í húsvitjunum. Annars alls konar te.
Uppáhalds árstími: Allar árstíðir hafa sinn sjarma.
Besta líkamsræktin: Crossfit. Útihlaup finnst mér líka afskaplega góð þegar stressið er alveg að fara með mig, og sund með fjölskyldunni.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég monta mig af því að vera góður kokkur. Ég geri t.d. mjög góða sjávarréttasúpu.
Við hvað ertu hrædd: Ég er svo hrædd við kríur að það nær engri átt!
Klukkan hvað ferðu á fætur: Kl. 7:00 stundvíslega. Dagurinn hjá okkur hjónum byrjar með einum kaffibolla í sófanum þar sem við tökum stöðuna á nýjum degi. Klárlega ein af bestu stundum dagsins. Svo vaknar hver af öðrum og ballið byrjar.
Hvað gerir þú til að slaka á: Les, prjóna og elda, nýt samverustunda með fjölskyldunni og fer í heita pottinn.
Hvað finnst þér vanmetið: Litlu hlutirnir sem eru samt stóru hlutirnir.
En ofmetið: Veraldleg gæði.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Stanslaust stuð með Páli Óskari. Virkar alltaf.
Besta lyktin: Lyktin af nýfæddum börnunum mínum. Engin mamma gæti svarað þessu öðruvísi.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Að þrífa ísskápinn. Reyndar finnst mér flest húsverk ágætlega skemmtileg ef ég fæ frið til þess að vinna þau.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að treysta Guði.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Paradísarlaut í Borgarfirði og Langisandur á Akranesi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Hroki.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þessu er náttúrlega ekki hægt að svara heiðarlega ef maður vill koma vel fyrir! En mér fannst það t.d. mjög neyðarlegt að sjá tilvonandi eiginmann minn koma hlaupandi út úr kirkjunni þegar ég kom til kirkju til að giftast honum, það leit út eins og hann hefði hætt við á síðustu stundu.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Mig langaði alltaf mest til að verða mamma. Ætlaði lengi að verða læknir, komst inn í læknisfræði í Danmörku en ákvað þá að fara í guðfræði.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Hún Guðbjörg Arnardóttir samstarfskona mín í Selfosskirkju og vinkona er sjúklega fyndin, bæði þegar hún ætlar sér það og ekki. Við hlæjum mikið saman.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ein af konunum í lærisveinahópi Jesú.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook vegna vinnu og hópa og alls konar, en mér finnst Instagram miklu skemmtilegra.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Það þykir mér ekki spennandi og myndi vonandi hafa rænu á að lágmarka áhrif alveldisins.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég held ég sé bara eins og opin bók og fátt sem fólk veit ekki, og alls ekkert spennandi.
Mesta afrek í lífinu: Að hafa búið yfir þrautseigju og haldið í vonina þegar mest á reyndi.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Margt sem er spennandi, en ég verð að segja að ég myndi vilja fara til Ísrael á dögum Jesú.
Lífsmottó: Að vera þakklát fyrir lífið og lifa vel.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Halda matarboð, þjóna í Selfosskirkju í fjölskyldumessu og á aðventukvöldi, skíra börn og jólast heima hjá mér með mínu fólki.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinGott viðbragð varðskipsmanna – Drógu bát til hafnar
Næsta greinHamar marði Sindra – Selfyssingar töpuðu