Það verður nóg að gera hjá tónlistarkonunni Unni Birnu Björnsdóttur um næstu helgi þegar fjölskyldu-, skemmti- og tónlistarhátíðin Allt í Blóma verður haldin í Hveragerði. Boðið verður upp á fjölbreytta tónlistardagskrá sem nær hápunkti með stórtónleikum í lystigarðinum Fossflöt á laugardagskvöldið og þar kemur Unnur Birna fram ásamt fjölda annarra frábærra söngvara.
Fullt nafn: Unnur Birna Björnsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 11. janúar 1987, Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Sambýlismaðurinn Sigurgeir Skafti Flosason, dóttirin Náttsól Viktoría og kettirnir Ísabella, Nicolina og Teresa.
Menntun: Söngkona, fiðluleikari og rytmískur tónlistarkennari.
Atvinna: Sjálfstætt starfandi tónlistarkona og kórstjóri.
Besta bók sem þú hefur lesið: Karitasbækurnar hennar Kristínar Marju og Dalalíf Guðrúnar frá Lundi.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Outlander og Handmaid’s Tale.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Love Actually og Bridget Jones. Þessar myndir eru bara einsog gott lag sem hægt er að hlusta á aftur og aftur.
Te eða kaffi: Kaffi helst. Americano með aðeins minna vatni, en Chai latte á Kaffi Krús er te á öðru leveli. Mæli með.
Uppáhalds árstími: Síðla vors og sumarið bjarta.
Besta líkamsræktin: Lyfta Náttsól. Ég hef sjaldan verið í jafngóðu vöðvaformi og eftir að hún fæddist.
Hvaða rétt ertu best í að elda: Grænmetislasagna. Eiginlega það eina sem ég er góð í að elda. En ég er að auka færni mína í eldhúsinu. Þetta kemur á endanum.
Við hvað ertu hrædd: Æl og fæðingar.
Klukkan hvað ferðu á fætur: 8:50, þegar barnið vaknar.
Hvað gerir þú til að slaka á: Fer í pottinn sem ég er svo heppin að hafa á pallinum mínum.
Hvað finnst þér vanmetið: Öll störfin sem láta samfélagið ganga upp án þess að við tökum eftir. Þau sem snúa að umönnun, kennslu og verkamannastörf.
En ofmetið: Rútína. Besta rútínan er að hafa sem minnsta rútínu.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Það eru til mismunandi stuð, stuð til að semja, slaka á, dansa, keyra, o.s.frv. En Saturday in the Park með Chicago kemur manni í stuð inn í daginn.
Besta lyktin: Útlandalykt og lykt af gömlum bílum í gangi í frosti.
Bað eða sturta: Fer eftir ýmsu, bað í köldum veðrum en ekkert jafnast á við sturtu eftir lang flug eða ferðalag.
Leiðinlegasta húsverkið: Hengja upp og ganga frá þvotti. Óska eftir manneskju í það verk.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Aldrei að ætlast til neins af neinum eða gera kröfur um að aðrir eigi að vera svona eða hinsegin. Loksins fór ég að taka þessi orð pabba míns inn.
Nátthrafn eða morgunhani: Hádegishegri og miðdegisdúfa. 11-18 er besti tíminn.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Flórens og íslenska hálendið.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Að heyra fallegt og hæfileikaríkt fólk tala illa um sjálft sig.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Það er maður hér í sveitinni sem ég þekki aldrei þegar ég sé hann. Hann heilsar mér alltaf glaðlega en ég horfi alltaf bara á hann, held hann sé að heilsa öðrum en brosi kurteislega og fletti honum upp á ógnarhraða í hausnum en kemst alltaf að því að ég hef aldrei séð hann áður. Skafti minn lætur mig alltaf vita, skellihlæjandi, eftir á hver þetta var. Þetta er hræðilegt.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Söngkona, búðarkona, flugmaður, bifvélavirki, læknir, fararstjóri… bara nefndu það.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Náttsól Viktoría dóttir mín. Og Jógvan Hansen.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Náttsól. Það væri gaman að vita hvort ég sé jafn skemmtileg mamma og ég held að ég sé.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram og Facebook í bland. Hef ekki haft tíma til að setja mig inn í neitt annað.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Leggja álög á alla menn sem myndu endast að eilífu. Álögin væru að öllum væri það ómögulegt að líða illa og gera öðrum mein.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég get spilað laglínur á ýlustrá.
Mesta afrek í lífinu: Að komast lifandi í gegnum óléttu (meira að segja án þess að finna fyrir henni).
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Myndi vilja sjá Ísland þegar amma og afi voru að alast upp, svo ég myndi stökkva úr tímavélinni um 1940.
Lífsmottó: Vera hamingjusöm, sama hvað.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Á föstudaginn ætla ég að sjá RvkDtr í tjaldinu í Lystigarðinum kl 17 og Magnús og Jóhann kl 20. Á laugardaginn ætla ég að hanga í Lystigarðinum, og selja fötin mín og njóta geggjaðrar dagskrár og syngja svo um kvöldið með frábærum söngvurum: Jóni Jóns, Stebba Jak, Guðrúnu Árnýju og Jógvani, og enda á balli í tjaldinu.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is