Það er í mörg horn að líta hjá Trausta Jóhannssyni, skógarverði Suðurlands, þessa dagana enda jólastemmningin að magnast í skógum landsins. Það er mikið að gera hjá Skógræktinni svona rétt fyrir jól, verið að sækja jólatré út í skóg fyrir landsmenn, bæði heimilstré og torgtré. Og svo þarf auðvitað að undirbúa jólatréssöluna sívinsælu, sem hefst í Haukadalsskógi um helgina.

Fullt nafn: Trausti Jóhannsson.
Fæðingardagur, ár og staður: 22. apríl 1982 á Selfossi. Er frá Mjóanesi í Þingvallasveit.
Fjölskylduhagir: Sambúð með Kristínu Birnu Bragadóttur lyfjafræðingi og við eigum dæturnar Anítu Evu fædd 2008 og Hrafnhildi Erlu fædd 2012. Við búum á Selfossi.
Menntun: Stúdentspróf frá FSu, sveinspróf í húsasmíði og B.Sc. í skógfræði frá LBHÍ og er því skógfræðingur að mennt með trésmíða bakgrunn.
Atvinna: Skógarvörður Suðurlands hjá Skógræktinni.
Besta bók sem þú hefur lesið: Hlaupabókin eftir Arnar Pétursson, tímamótaverk og ég bíð spenntur eftir bíómyndinni.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Modern Family er skemmtilegir.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Fight Club er alltaf klassísk en svo er Love Actually alltaf tekin rétt fyrir jólin.
Te eða kaffi: Kaffi, helst espresso.
Uppáhalds árstími: Finnst allur árstími hafa sinn sjarma en 20. ágúst er alltaf í uppáhaldi því að það markar upphaf skotveiðitímabilsins og upphaf haustsins.
Besta líkamsræktin: Körfubolti og lyfta lóðum finnst mér skemmtilegast en fjölbreytnin skiptir miklu máli og allt best í bland.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Er orðinn nokkuð slyngur að grilla nauta ribeye með piparostasósunni minni.
Við hvað ertu hræddur: Páfagauka, grimmileg kvikindi sem klóra úr manni augun.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ofast um kl. 7 á morgnanna en er alltaf á leiðinni að vakna fyrr og fara í ræktina.
Hvað gerir þú til að slaka á: Finnst oft gott að vera einn til að slaka sem best á. Fer á veiðar, göngu úti í skógi eða á rólega stund með fjölskyldunni.
Hvað finnst þér vanmetið: Skógur og allar hans dásamlegur nytjar, skjól og umhverfi.
En ofmetið: Sushi, það finnst engum þetta svona rosalega gott í raun og veru. Ég neita að trúa því.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Total Eclipse of the Heart með Bonnie Tyler, einstök stuð klassík sem maður öskursyngur alltaf með.
Besta lyktin: Lyktin af nýgrisjuðum skógi.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Ganga frá þvotti inn í skáp.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að ekki dvelja of lengi við það liðna sem þú getur ekki breytt.
Nátthrafn eða morgunhani: Hef aldrei náð að skilgreina mig þarna, á nokkuð auðvelt með bæði og á auðvelt með að aðlagast í hvora áttina sem er.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Sunnlensku þjóðskógarnir eru dásamlegir en Stokkhólmur er í miklu uppáhaldi eftir að hafa búið þar í þrjú ár og er ákaflega falleg borg.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Nýlega hefur það verið fjárlagafrumvarpið og sleppistæðið við Sunnulækjarskóla sem hefur farið í mínar fínustu taugar.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar Gísli Einarsson bauðst til að gera mér greiða á árshátíð Skógræktarinnar og ég bað hann um að hætta með Útsvarið. Fattaði tveimur dögum síðar að hann hefði aldrei verið með það og það útskýrði afhverju engum fannst þetta fyndið nema mér.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Minnir að það hafi verið bóndi eins og foreldrar mínir eða smiður, annars langaði mig alltaf að búa út í skógi eins og Hrói höttur þannig að kannski var það bara að vera skógarmaður.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ég hlæ langmest að dætrum mínum, þær geta verið ansi fyndnar.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Batman, því maður á alltaf að vera maður sjálfur nema að maður geti verið Batman, þá á maður að vera Batman.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook er mest notað.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þar sem það ómögulegt að breyta heiminum á einum degi þá myndi ég gera eitthvað til að gera líf mitt betra og skemmtilegra.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Að ég er innilegur Eurovision aðdáandi og á þann draum að fara á lokakeppnina einhvern tímann.
Mesta afrek í lífinu: Að hafa orðið skákmeistari í Ljósafossskóla, annað enn Oddur bróðir minn.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég hef oft velt þessu fyrir mér. Ég væri til í að fara aftur til landnámsaldar eða fyrr og sjá Ísland eins og það var áður en það byggðist. Hef reyndar líka velt fyrir mér að fara og taka framhaldsskólaárin aftur.
Lífsmottó: Að gefa meira af mér en ég tek.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Það er mikið að gera um helgina. Ég er að fara horfa á Anítu dóttur mína að keppa í fótbolta í Reykjavík á laugardaginn og hún er einnig að halda upp á afmælið sitt með vinkonunum og svo er hún aftur að keppa á Kjörísmóti Hamars í Hveragerði á sunnudaginn þannig að þetta verður fótboltahelgi út í gegn. Svo ætlum við nokkrir vinir að hittast á jólahlaðborði í Reykjavík á laugardagskvöldið og hafa gaman. Síðast en ekki síst er jólatréssala í Haukadal að byrja þessa helgi og mæli ég með að fólk taki helgarrúntinn þangað og nái sér í tré og njóti dýrðar Haukadalsskógar.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinNetkosning hafin á íþróttafólki ársins
Næsta greinSaga ráðin tímabundið til Rangárþings ytra