Selfyssingurinn Ágúst Máni Þorsteinsson var dúx scholae í hópi nýstúdenta sem brautskráðust frá Fjölbrautaskóla Suðurlands á síðustu haustönn. Auk þess að vera með hæstu meðaleinkunn nýstúdentanna fékk Ágúst Máni sérstök verðlaun fyrir árangur í ensku.

Fullt nafn: Ég heiti Ágúst Máni Þorsteinsson og var skírður í höfuðið á Ágústu frænku minni.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég er fæddur 23. ágúst 2002, á Selfossi. Já, ég heiti Ágúst
og ég er fæddur í ágúst, mjög fyndið.
Fjölskylduhagir: Bý hjá foreldrum mínum og á sex hálf systkini, þar sem ég er yngstur. Er
einhleypur eins og stendur.
Menntun: Ég var í grunnskóla í tíu ár í Vallaskóla á Selfossi og útskrifaðist þaðan með fjögur verðlaun, var að klára þrjú og hálft ár í FSu þar sem ég útskrifaðist sem stúdent af opinni línu og grunnnám rafiðna. Var dúx haustannar 2021 með meðaleinkunnina 8,86. Ásamt því hef ég líka verið í tónlistarnámi í tíu ár hjá Tónlistarskóla Árnesinga þar sem ég lærði á trompet í átta ár og á píanó í tvö.
Atvinna: Ég hef verið í nokkrum störfum um ævina. Ég hef unnið hjá pabba mínum í tvö sumur við smíðar hjá Kvistfelli, ég hef unnið í tvö sumur hjá N1 og er núna að vinna hjá Rúmfatalagernum og verð þar fram á haust þangað til ég fer vonandi í Háskólann í Reykjavík.
Besta bók sem þú hefur lesið: Þegar ég var í Vallaskóla þá las ég Spiderwick bækurnar aftur og aftur.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Breaking Bad, þáttaröðinn er löng en geggjuð.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Forrest Gump.
Te eða kaffi: Ég myndi frekar fá mér heitt súkkulaði, en ef ég þarf að velja, þá te.
Uppáhalds árstími: Vetur. Mér hefur alltaf fundist snjórinn vera svo fallegur síðan ég var krakki og ef það var nóg af honum þá þurfti ég ekki að fara neitt.
Besta líkamsræktin: Mér finnst best að hjóla, sérstaklega á fallegum stöðum eins og í Helliskógi.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég er enginn kokkur, og bý mér oftast til samlokur eða pylsur ef ég er svangur, en ég get gert ágætis pasta.
Við hvað ertu hræddur: Myrkur, smá öfugmæli fyrst að mér finnst veturinn vera besta tímabil ársins.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Fer eftir því hvort ég þarf að mæta í skóla eða vinnu. Ég vakna ég klukkutíma og korteri áður en ég mæti. En um helgar sef ég út.
Hvað gerir þú til að slaka á: Spila tölvuleiki. Mér finnst mjög gaman að eyða tímanum í að spila eitthvað eins og Minecraft, eða horfa á Youtube.
Hvað finnst þér vanmetið: Góð fjölskylda og vinir, ég er til dæmis ótrúlega heppinn með fólkið í kringum mig.
En ofmetið: Íþróttir og fiskur. Ég hef aldrei getað borðað plokkfisk.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: The Hustle eftir Kiltro.
Besta lyktin: Kanill.
Bað eða sturta: Ég fer nú í sturtu á hverjum morgni en mér finnst bað betra ef það er möguleiki.
Leiðinlegasta húsverkið: Þurrka af.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að vera heiðarlegur og hreinskilinn.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn, oft gleymi ég mér þegar ég er í tölvunni.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Að snorkla á Crystal Bay á Balí.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Að mæta ekki á réttum tíma, oftast er ég mættur korter á undan í vinnuna eða skóla.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Það leið yfir mig þegar ég var að spila á trompet fyrir ömmu mína á níræðisafmælinu hennar – fyrir framan um hundrað veislugesti. Ekki gaman.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Uppfinninga maður og kannski rætist sá draumur í tölvunarfræði sem ég er að stefna á í háskóla.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Lalli vinur minn.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag, hver þá: Neil Armstrong þegar hann steig á tunglið.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Discord, samfélagsmiðill fyrir nörda.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi eyða út hungursneyð, eyða öllum kjarnorkusprengjum o.s.frv. Bara gera heiminn betri.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég hugsa á ensku.
Mesta afrek í lífinu: Að dúxa úr FSu.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Stephen Hawking hélt einu sinni æðislegt partí árið 2009 en sendi ekki út boðskortin
fyrr en daginn eftir, til að sjá hvort að einhver sem gæti ferðast um tímann myndi mæta. Ég myndi klárlega mæta þar.
Lífsmottó: “Of all sad words of tongue or pen, the saddest are these, ‘It might have been.’” – John Greenleaf Whittier.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Spila tölvuleiki og Dungeons and Dragons með vinum mínum.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinFSu mætir Versló í sjónvarpinu
Næsta greinBjarki og Aron einnig úr leik