Selfyssingurinn Esther Hallsdóttir var á dögunum kosin af aðildarfélögum Landssambands ungmennafélaga, LUF, til þess að verða ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Þetta er í fyrsta skipti sem Ísland á slíkan fulltrúa. Esther verður fulltrúi íslenskra ungmenna í sendinefnd Íslands á 74. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í september þar sem hún mun tala fyrir hagsmunamálum íslenskra ungmenna.

Fullt nafn: Esther Hallsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég er fædd 29. september árið 1995 í fallegasta bæ landsins, Selfossi. Núna er ég hins vegar búsett í Reykjavík, nánar tiltekið í 105.
Fjölskylduhagir: Ég bý með kærasta mínum, Ísaki, og við eigum tvær plöntur sem við reynum að halda lífi í.
Menntun: Stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurlands og með B.A. gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands.
Atvinna: Ég vinn hjá UNICEF á Íslandi og er þar verkefnastjóri í fjáröflun.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég held mikið upp á tvær bækur sem ég las þegar ég var yngri. Önnur þeirra heitir Frumskógarstelpan og er frásögn Sabine Kuegler af því að alast upp með Fayu-ættbálknum á afskekktu frumskógasvæði í Indónesíu. Hin heitir Ein til frásagnar og er eftir Immaculée Ilibagiza sem faldi sig í 91 dag í baðherbergiskytru á meðan þjóðarmorðið í Rúanda stóð yfir. Þessar bækur höfðu mikil áhrif á mig og má segja að þær hafi markað upphafið af mannfræði- og mannréttindaáhuganum.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: House of Cards, Suits, Billions. Pólitískt jakkafata-drama er minn tebolli.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég held að ég hafi aldrei horft á sömu bíómyndina aftur og aftur. Hef aldrei skilið það konsept.
Te eða kaffi: Nei takk.
Uppáhalds árstími: Ég elska birtuna og hlýjuna sem lætur sjá sig á sumrin, sumarið er uppáhalds árstíminn minn hvað það varðar. Hins vegar er oft mikið að gerast á veturna svo það er skemmtilegur tími líka.
Besta líkamsræktin: Eftir að ég hætti í handbolta þá hef ég aðallega verið að lyfta. Mér finnst skemmtilegast að æfa í góðra vina hópi, setja mér markmið og hafa smá keppni í þessu.
Hvaða rétt ertu best að elda: Lengi vel kunni ég ekki að elda neitt annað en hakk og spagettí, svo ég er orðin nokkuð sleip í því. Annars er ég þessa dagana að reyna að læra þá list að gera góð mexíkósk taco.
Við hvað ertu hræddur: Fleira en ég myndi viðurkenna hér. Eigum við ekki að segja lokuð rými og háar hæðir.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Eins seint og ég kemst upp með. Yfirleitt svona 7 tímum eftir að ég sofna.
Hvað gerir þú til að slaka á: Horfi á þátt, hlusta á podcast, les bók eða fer út að labba með góða tónlist í eyrunum.
Hvað finnst þér vanmetið: Pasta. Af hverju telst pasta til dæmis ekki sem viðeigandi hátíðarmatur?
En ofmetið: Að „taka daginn snemma“ þegar það er ekki nauðsynlegt. Margir virðast ekki vita að það eru jafn margar klukkustundir í deginum ef fólk vaknar snemma og fer snemma að sofa og ef það vaknar seint og fer seint að sofa. Það er þjóðþrifamál að leiðrétta þennan misskilning.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Suðræn tónlist kemur mér alltaf í stuðið!
Besta lyktin: Lyktin af nýbökuðum vöfflum ber höfuð og herðar yfir aðrar lyktir. Klárt mál.
Bað eða sturta: Ég fer í langar sturtur. Sumum finnst þær of langar en sú gagnrýni á ekki rétt á sér.
Leiðinlegasta húsverkið: Það vita allir að það er langleiðinlegast að skipta á rúminu. Annars tók ég nýverið við stjórnarsetu í húsfélaginu í blokkinni okkar (sem telst til húsverka) og því er komin samkeppni um titilinn. Niðurföll, loftstokkar, pípulagnir, gluggaskipti, þakviðgerðir, útidyrahurðir. Þarf að segja eitthvað meira?
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að vera óhrædd við að taka að mér hlutverk og verkefni sem eru út fyrir þægindarammann og vaxa inn í þau.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn. Á kvöldin er ég yfirleitt full orku og kem mestu í verk.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Fallegustu staðirnir eru í mínum huga þeir sem tengjast manni einhverjum böndum. Mér finnst alltaf jafn fallegt að sitja við ána fyrir neðan hús foreldra minna á Selfossi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Yfirlæti og óheiðarleiki.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég lenti einu sinni í því að gleyma textanum við heilt erindi þegar ég var að syngja einsöng fyrir framan fullan sal af fólki. Ég var örugglega svona tíu ára en fæ ennþá kaldan svita við tilhugsunina.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég man ekki til þess að hafa haft einhverjar ákveðnar hugmyndir um það, en ég ætlaði að minnsta kosti aldrei að verða mannfræðingur.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Fólkið í kringum mig er almennt frekar ófyndið.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég væri til í að prófa að vera hundur. Bara svona til að sjá hvernig það er.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook og Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ó, svo margt. Að sjálfsögðu myndi ég byrja á því klassíska – að tryggja mannréttindi allra, enda stríð og laga umhverfismálin. En ef valdsvið mitt næði svo langt, þá myndi ég líka gera sykur hollan. Bara svona sem bónus.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég lærði einu sinni á trompet og spilaði í lúðrasveit, sælla minninga.
Mesta afrek í lífinu: Að fá kallinn minn til að hanga með mér. Mörg ár í röð.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég held að ég myndi bara vilja halda mig í nútíðinni. Þar er ég best geymd.
Lífsmottó: Ég reyni að fara út fyrir þægindarammann eins oft og ég get. Svo finnst mér líka mikilvægt að gera hlutina á eigin forsendum og láta ekki stjórnast of mikið af viðhorfum annarra.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Síðustu helgar hef ég verið í hringferð um landið og að hvetja áfram hlaupara í Reykjavíkurmaraþoninu með UNICEF. Næstu helgi mun ég því slaka á og eyða tíma með fólkinu mínu.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri grein„Íbúarnir vonandi hoppandi ánægðir“
Næsta greinFyrstu réttir 6. september