Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Skaftárhrepps, var á dögunum útnefndur grasrótarpersóna Knattspyrnusambands Íslands 2024. Sigurður hlaut hann nafnbótina fyrir íþróttastarf á Kirkjubæjarklaustri en hann hefur sýnt af sér ómældan dugnað, ástríðu og útsjónarsemi þegar kemur að uppbyggingu á íþróttaaðstöðu og auknum möguleikum ungs fólks til íþróttaiðkunar á Kirkjubæjarklaustr.
Fullt nafn: Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson.
Fæðingardagur, ár og staður: 10. febrúar árið 2000 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Er búsettur einn á Kirkjubæjarklaustri en held einnig mikið til heima í Eystri-Pétursey þar sem foreldrar mínir búa, sem og bróðir minn og hans fjölskylda.
Hverra manna ertu: Skaftfellingur í aðra ættina og Rangæingur í hina, frábær blanda! Pabbi minn heitir Sigurjón Eyjólfsson frá Eystri-Pétursey í Mýrdal og mamma mín heitir Kristín Magnúsdóttir frá Skógum undir Eyjafjöllum.
Menntun: Lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurlands á íþróttalínu. Einstaklega góður tími og frábært að vera á Selfossi!
Atvinna: Hef starfað fyrir Skaftárhrepp sem íþrótta- og æskulýðsfulltrúi frá því í janúar 2023. Þar kem ég einnig mikið að starfi Ungmennafélagsins ÁS sem er mikið líf og fjör!
Besta bók sem þú hefur lesið: Les því miður ekki mikið en ef ég les eitthvað þá er það helst eitthvað sannsögulegt, þar koma t.d. Útkalls bækurnar sterklega til greina. Ef ég fer út í það hver er áhugaverðust myndi ég án nokkurs vafa segja Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness. Svona bók sem ég þarf ekki að lesa aftur en samt ótrúlega áhugaverð!
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Stend mig mjög illa í sjónvarpsáhorfi en ef ég horfi á sjónvarp horfi ég á fótbolta. En það eru engir gleðidagar um þessar mundir þar sem ég held með Manchester United.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Stella í orlofi, ekki spurning!
Te eða kaffi: Hvorki te né kaffi maður, var þó alveg við það að byrja í kaffinu í kosningabaráttunni í haust þar sem það var að sjálfsögðu allsstaðar boðið upp á kaffi.
Uppáhalds árstími: Sumarið klárlega, er mikið fyrir bæði ljósmyndun og útivist. Því er sumarið í algjöru uppáhaldi hvað það varðar.
Besta líkamsræktin: Ekkert betra en góð fjallganga.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Pulsupasta í rjómaostasósu er mín listgrein í eldhúsinu.
Við hvað ertu hræddur: Eins og ég er nú mikill áhugamaður um fuglaljósmyndun og fugla þá þoli ég ekki þegar þeir eru fljúgandi í kringum hausinn á mér. Það er því t.d. fátt sem fer meira í taugarnar á mér í erlendum stór borgum heldur en dúfur sem fljúga helst ekki upp fyrr en maður er liggur við búinn að stíga á þær.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Er mikið að vinna með 7:30.
Hvað gerir þú til að slaka á: Það leynist smá sagnfræðinörd í mér, mín besta leið til að kúppla mig út er að vera heima í Pétursey og grúska í gömlum munum eða spá í gömlum sögnum. Ef ég er hins vegar algjörlega bugaður þá er Tene besta lausnin.
Hvað finnst þér vanmetið: Það er fátt betra en að borða saltaðan fýl.
En ofmetið: Orkudrykkir (koffíndrykkir).
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Þessa dagana er það Límdu saman heiminn minn með Bubba.
Besta lyktin: Það er ekkert eins jólalegt og lyktar vel eins og þegar engiferkökurnar hennar ömmu koma úr ofninum.
Bað eða sturta: Sturta, ekki spurning.
Leiðinlegasta húsverkið: Uppvaskið er ekkert mjög skemmtilegt en lykilinn að húsverkin gangi vel er að vera með einhverja góða tónlist í eyrunum.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Hljómar kannski flókið. En ef maður er í þeirri stöðu að þurfa velja á milli tveggja eða fleiri staða sem manni langar að vera á sama tíma á maður alltaf að stökkva á það tækifæri sem kemur ekki aftur.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Hvergi fallegra en í Pétursey! En svo finnst mér líka alveg einstakt að koma á Rauðasand á Vestfjörðum, mikill uppáhalds staður.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Túristar í umferðinni, sérstaklega þegar þeir kunna ekki að lækka ljósin.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Örugglega mjög skemmtilegt atvik fyrir þá sem sáu til. Enn ég lenti í því á einu fótboltamótinu eftir að ég fór að þjálfa að ég brást svo skjótt við þegar boltinn fór útaf og inni á næsta völl að ég rann og flaug á hausinn. Enn boltinn komst þrátt fyrir það fljótt aftur í leik sem skipti jú auðvitað öllu máli.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Sem barn var það alltaf bóndi, enda uppalinn sveitastrákur. Sem unglingur heillaði blaðamennska og fjölmiðlar mig mjög mikið. En svo hefur lífið fært mér allskonar skemmtileg tækifæri og ég gæti ekki verið sáttari í starfi heldur en ég er í dag.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Þó að Einar Kristján samstarfsmaður minn og vinur stuði mig stundum smá þá er hann líka einstakur húmoristi. Svo er Kjartan vinur minn í Fagurhlíð líka mjög fyndinn.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ætli að knattspyrnugoðsögnin Roy Keane yrði ekki fyrir valinu. Sparkspekingur á hliðarlínunni í enska boltanum og algjör töffari.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Álíka mikið á Instagram og Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Koma viti fyrir Donald Trump en að öllum líkindum dugar ekki til að vera alvaldur í einn dag til þess að það gangi eftir.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Það vill svo skemmtilega til að mín fyrsta bók er nú í prentun. Þar ætla ég að gefa af mér til annarra, sérstaklega til barna og ungmenna, í baráttu við hamlandi kvíða. Spennandi verkefni sem býður upp á allskonar möguleika.
Mesta afrek í lífinu: Það að hafa verið 24 ára, ný farinn að spá í pólitík að einhverju ráði, í framboð til Alþingis var ótrúleg lífsreynsla fyrir ungan mann.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég er stundum talinn vera frekar gömul sál og því myndi ég klárlega fara aftur í tímann. Fyrsta hugsun væri að leita aftur til fyrri hluta síðustu aldar til að fá betri tilfinningu fyrir því hvað lífið hefur breyst á Íslandi á „stuttum tíma“.
Lífsmottó: Lífið er núna, njótum þess með fólkinu okkar og grípum tækifærin þegar þau koma.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ungmennafélagshreyfingin á hug minn allan þessa helgina, framundan er aðalfundur hjá Ungmennafélaginu ÁS og innanhúsmót USVS í frjálsíþróttum á Kirkjubæjarklaustri.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is