Þorlákshafnarmærin Sirrý Fjóla Þórarinsdóttir stendur í ströngu þessa dagana en hún er ein af leikurunum í Ávaxtakörfunni hjá Leikfélagi Hveragerðis. Þar fer hún með hlutverk Geddu gulrótar. Sýningin hefur slegið algjörlega í gegn og fengið frábærar viðtökur áhorfenda en uppselt er á nánast allar sýningar til og með 24. nóvember.

Fullt nafn: Sigríður Fjóla Þórarinsdóttir (Sirrý Fjóla).
Fæðingardagur, ár og staður: Ég er fædd 23. febrúar 2004 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Ég bý hjá mömmu og pabba og kisunni minni. Ég er einbirni en á fóstursystkini. Svo á ég kærasta.
Hverra manna ertu: Mamma heitir Ágústa Ragnarsdóttir og pabbi Þórarinn Friðrik Gylfason.
Menntun: Ég gekk í Grunnskólann í Þorlákshöfn alla mína grunnskólagöngu og fór svo þaðan í Fjölbrautaskóla Suðurlands þar sem ég útskrifaðist í fyrra. Núna er ég svo í Leikhússkóla Þjóðleikhússins.
Atvinna: Ég vinn sem leikmunavörður í Borgarleikhúsinu, það er ótrúlega gaman!
Besta bók sem þú hefur lesið: Mjöööög erfið spurning! Ég les mjög mikið og oftast nær eru bækurnar góðar. Ég er mikið fyrir svona ævintýra bókaflokka og rómans en ef ég þyrfti að velja eina bók væri það Seven husbands of Evelyn Hugo.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: SKAM, get horft á á aftur og aftur.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Pitch Perfect, ég er með óheilbrigða þráhyggju fyrir þeim myndum og gæti þulið þær utanbókar.
Te eða kaffi: Hvorugt helst. Ég fíla kakó.
Uppáhalds árstími: Haust og vetur!
Besta líkamsræktin: Mér finnst mjöööög gaman í fimleikum og sirkus! Síðan er ég að reyna að læra að dansa.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég er almennt mjög lélegur kokkur en ég er ágæt í að elda hakk og spaghettí.
Við hvað ertu hrædd: Að valda vonbrigðum.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Mjög misjafnt eftir vinnunni minni, stundum vinn ég á morgnanna og stundum á kvöldin en að meðaltali örugglega klukkan 8.
Hvað gerir þú til að slaka á: Geri á mig neglur og hlusta á podcast.
Hvað finnst þér vanmetið: Tíminn áður en maður fer eitthvað. Mér finnst oft skemmtilegra að græja mig og hafa mig til fyrir eitthvern viðburð frekar en viðburðurinn sjálfur. Sérstaklega að græja sig með einhverjum!
En ofmetið: Mjög óvinsæl skoðun en mér finnst íslenskt sumar ofmetið. Ég sé bara fyrir mér 10 stiga hita og ský þegar ég hugsa um það.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Eitthvað gott One Direction lag eða Candy Store úr söngleiknum Heathers.
Besta lyktin: Jólalykt, svona lykt þegar það er kveikt á kertum og það er verið að baka eða elda. Eða svona svona fersk blómalykt blönduð við sjávarlykt, það er þannig lykt á sumrin í Þorlákshöfn þar sem ég bý.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Ég hata að skúra!
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Ekki bíða eftir að ná markmiðunum þínum heldur njóttu ferðalagsins sem þú ferð í til að ná markmiðunum.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani, ég vil vera nátthrafn en ég sofna alltaf óvart.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Örugglega Santorini. Ég fór í dagsferð þangað þegar ég var í útskriftarferð og það var eins og í Mamma mia!
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Karlrembur!
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Það sem mér datt fyrst í hug var þegar ég fékk mjög hátt garnagaul í prófi, það fór ekki framhjá neinum. Ég vissi ekki hvert vinkona mín, sem sat á næsta borði, ætlaði henni fannst þetta svo fyndið. Svo gerðist það aftur. Hún er ennþá að gera grín af mér.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði alltaf að verða sirkusstjóri en núna stefni ég á leikarann.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Fyrir utan mig sjálfa myndi ég annað hvort segja Birgitta vinkona mín, Daníel vinur minn eða Matti kærastinn minn. Mér finnst samt eiginlega allir fyndnir, ég er með mjög einfaldan húmor.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Emma Watson. Mér finnst hún vera algjörlega frábær, ég er svona fan girl. Mér finnst bara allt sem hún gerir geggjað, hún er líka mjög góð fyrirmynd og ég held að ég gæti lært eitthvað af þessum eina degi.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram eða TikTok.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ef ég væri alvaldur í einn dag myndi ég reyna að stoppa öll stríð og hjálpa flóttafólki.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég hef verið í sirkus síðan ég var pínu lítil og er þar línudansari og sýndi meðal annars með Sirkus Íslands í sumar í sirkustjaldinu Jöklu. Svo er líka mikill Skálmaldar aðdáandi, held að mjög fáir viti það.
Mesta afrek í lífinu: Þetta er ótrúlega erfið spurning. Mér finnst alveg afrek að hafa komist inn í skólann sem ég er í núna, Leikhússkóli Þjóðleikhússins, af því mig langað svo mikið að komast inn. Svo reis ég semí upp frá dauðum einu sinni.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Fram í tímann, kannski um svona 150 ár og tékka hvernig staðan væri á jörðinni. Svo myndi ég koma til baka og segja öllum hvernig hún væri orðin og reyna að koma í veg fyrir það að hún eyðileggist.
Lífsmottó: Að gera alltaf mitt besta.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Núna um helgina ætla ég í bíó, söngtíma, fara í afmæli hjá litla frænda mínum og fara í leikhús en helgina þar á eftir halda sýningar áfram og þá ætla ég að sýna Ávaxtakörfuna með Leikfélagi Hveragerðis og vinna.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinKótelettukvöld í Þingborg
Næsta greinSigurður Ingi leggur sjálfan sig undir – Halla Hrund leiðir Framsókn í Suðurkjördæmi