Í lok maí settu 22 nýir búfræðingar upp húfurnar sínar við hátíðlega brautskráningarathöfn frá Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Ein þeirra var Sunna Lind Sigurjónsdóttir frá Efstu-Grund undir Eyjafjöllum en hún fékk viðurkenningu fyrir frábæran árangur í búfjárræktargreinum og verðlaun frá Minningarsjóði Hjartar Snorrasonar og Ragnheiðar Torfadóttur fyrir frábæran árangur í námsdvöl. Þá er ekki allt upp talið því í apríl fékk Sunna Lind Morgunblaðsskeifuna, sem veitt er þeim nemanda skólans sem náð hef­ur best­um sam­an­lögðum ár­angri í áfang­an­um reiðmennsku III og í frumtamn­ingar­prófi.

Fullt nafn: Sunna Lind Sigurjónsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 8. mars árið 2003 á Landsspítalanum í Reykjavík
Fjölskylduhagir: Í sambandi.
Hverra manna ertu: Ég er undan Sigurjóni Sigurðssyni frá Ytri-Skógum undir Austur-Eyjafjöllum og Sigríði Lóu Gissurardóttur frá Herjólfsstöðum í Álftaveri en ólst upp á bænum Efstu-Grund undir Vestur-Eyjafjöllum.
Menntun: Stúdent af hestabraut frá Fjölbrautaskóla Suðurlands og svo nú nýlega útskrifuð búfræðingur frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Stefnan er síðan sett á búvísindi næsta haust við LbhÍ.
Atvinna: Er í námi en sinni bústörfum og tamningum þegar ég get.
Besta bók sem þú hefur lesið: Hrútaskráin er bók sem ég bíð árlega eftir.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Enginn.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Flestar teiknimyndir.
Te eða kaffi: Hvorugt.
Uppáhalds árstími: Þær búa allar yfir sínum sjarma. Veturnir eru dásamlegir á sinn hátt að hafa skepnurnar sínar inni til að dekra við allan sólarhringinn, vorin, þegar lömbin og folöldin líta dagsins ljós, sumarið, þegar gripirnir komast út á grænan haga og haustið, þegar féð heimtist á ný.
Besta líkamsræktin: Smalamennskur. Við undir Fjöllum erum ekki svo lukkuleg að hafa Heiðarnar hestfærar og komumst því ekki um nema á tveimur jafnfljótum. Þar af leiðandi held ég oft að ég dragi minn síðasta andardrátt við að elta einhverjar skjátur upp og niður gil. En alltaf er það þó jafn dásamlegt að koma heim, sátt við gott dagsverk.
Hvaða rétt ertu best að elda: Lasagne.
Við hvað ertu hrædd: Alveg skíthrædd við allan fiðurfénað.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Þegar ég þarf þess.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ekkert betra en að hjúfra sig upp að hrossunum eða leggjast í garðann og gæla við kindurnar til að slaka á.
Hvað finnst þér vanmetið: Íslenskt hráefni.
En ofmetið: Utanlandsferðir.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Misjafnt eftir stað og stund.
Besta lyktin: Lyktin af nýslegnu grasi.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Að skúra.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Betra er að eiga heiðurinn þó lítill sé en að eigna sé heiður annarra.
Nátthrafn eða morgunhani: Algjör nátthrafn en dreymir um að verða morgunhani og þá alveg sérstaklega á morgnana. Alveg hryllilegt að vera komin á ról snemma morguns og vakna svo enn upp í rúmi alltof sein.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Hverjum þykir sinn fugl fagur og langar mig því að segja að fjallasýnin undir Fjöllunum tróni á toppnum.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Þegar fólk stendur ekki við loforð sín.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Sumu á maður að gleyma.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði að eiga meira en góðu hófi gegnir af hundum, sauðfé og hrossum. En ég ætlaði aldrei á ævi minni að eiga kýr. Ég átti það til að fela mig frekar út í hænsnakofa heldur en að mjólka þegar ég var yngri sem er ákveðin þversögn, en námið hefur kennt mér að meta kýrnar líka og sjá þær frá öðru sjónarhorni.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Það eru ótrúlega margir sem hægt er að hlæja með.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Snapchat.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég hefði ekki taugarnar í það.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er sennilega búin að blaðra því öllu saman.
Mesta afrek í lífinu: Það er ekkert eitt sem kemur upp í hugann. En allir litlir sigrar sem stuðla að því sem mig langar að starfa við og stunda í framtíðinni eru ákveðin afrek sem ég er stolt af. Það er gaman að ganga vel í því sem maður hefur mestan áhuga á.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Nútíminn er góður staður til að vera á.
Lífsmottó: Betra er seint en aldrei.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Það sem ég þarf að gera.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinKatla María verður áfram á Selfossi
Næsta greinKatrín kláraði leikinn fyrir Selfoss