Nýverið tók Rangæingurinn Birkir Snær Fannarsson við starfi landgræðslustjóra. Birkir er lögfræðingur stofnunarinnar og hefur verið staðgengill landgræðslustjóra frá 1. desember síðastliðnum. Hann verður væntanlega síðasti landgræðslustjórinn í sögu stofnunarinnar en um næstu áramót munu Landgræðslan og Skógræktin sameinast í nýrri stofnun sem nefnist Land og skógur.
Fullt nafn: Birkir Snær Fannarsson.
Fæðingardagur, ár og staður: Fæddur á Selfossi þann 14. nóvember árið 1982. Tilefnið var að 19 ár voru frá upphafi Surtseyjargossins.
Fjölskylduhagir: Eiginkona mín er Selfyssingurinn Guðrún Ásta Gísladóttir og saman eigum við börnin okkar fjögur, þau Freydísi Erlu, Telmu Gerði, Kristján Ara og Vöku Björt. Annars er ég Sunnlendingur í flestar ættir og segi keikur að ég sé úr Fljótshlíðinni og Austur-Landeyjum.
Menntun: Eftir að hafa klárað grunnskólann á Hellu lá leiðin, með rútu, í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Eftir það voru góð ráð dýr en eitthvað þurfti að gera og Lagadeild Háskóla Íslands varð fyrir valinu. Þrátt fyrir þessa formlegu skólagöngu þá segi ég nú samt oft í gamni, en þó meina ég mikið með því, að ég lærði í raun allt sem ég þurfti að læra í sveit sem barn og unglingur – annað er meira og minna uppfylling.
Atvinna: Settur landgræðslustjóri eins og er.
Besta bók sem þú hefur lesið: Mig langar að lesa svo mikið meira en ég geri og finn það alltaf þegar ég les góða bók. Ég ætla að segja Fátækt fólk, eftir Tryggva Emilsson. Bókin Að breyta fjalli, eftir Stefán Jónsson er líka stórkostleg.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Venni Páer er klárlega langbesti sjónvarpsþáttur sem ég hef séð. „Hver er fimmti besti morgunmaturinn þinn?“ Ef Vernharð Þorleifsson les þetta viðtal skora ég hér með á hann að gera nýja seríu.
Te eða kaffi: Kaffi – með örlítilli mjólk fyrir sálina.
Uppáhalds árstími: Langar að segja vorið, þegar allt er að lifna, en þá er bara sjaldnast nægjanlega gott veður finnst mér. Ég segi sumarið.
Besta líkamsræktin: Mér finnst mest skemmtilegt að hafa einhverja keppni í hlutunum. Áður en ég flutti á Selfoss var ég bæði í fótbolta og badminton. Ég hef ekki fundið neinn til að keppa við eftir flutninginn.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég veit svosem ekkert í hverju ég er bestur en kóteletturnar mínar eru, að mér finnst, mjög frambærilegar.
Við hvað ertu hræddur: Það er ekki spurning – að það komi eitthvað alvarlegt fyrir mína nánustu.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Væri til í að geta sagt 06:15 en það er ekki sannleikanum samkvæmt. Yfirleitt eins seint og ég kemst upp með án þess að lenda í vandræðum.
Hvað gerir þú til að slaka á: Langar að segja; fer í bað – en ég fer aldrei í bað, sjá svar við spurningu hér að neðan. En ég fer í heita pottinn og finnst það mjög slakandi, sérstaklega þegar börnin eru farin upp úr.
Hvað finnst þér vanmetið: Því miður þá held ég að drift og dugnaður séu í dag ekki alltaf metin að verðleikum.
En ofmetið: Snjalltæki og próteinduft.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Það eru svona tvö, þrjú lög með Vinum vors og blóma sem ég tel vera alveg í efstu hillunni hvað stuð varðar.
Besta lyktin: Lyktin af því að vera í heyskap. Graslyktin í hæfilegu blandi við vélalykt.
Bað eða sturta: Sturta. Gerði heiðarlega tilraun til að úthýsa baðinu þegar ég byggði mér hús. Ég tapaði þeim slag og sit uppi með lítið notað bað.
Leiðinlegasta húsverkið: Ætla ekki að gera upp á milli þeirra frekar en barnanna en öfugt við börnin eru þau vissulega aðeins misjafnlega leiðinleg.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Bjór er matur en matur er ekki bjór. Gott að hafa þetta á hreinu.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég var a.m.k. mikið frekar nátthrafn. Hef alltaf fundið mig best síðdegis, á kvöldin og ef út í það er farið á nóttunni. Barnauppeldið krefst þess þó af mér að ég finni í mér morgunhanann, a.m.k. tímabundið.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Finnst reyndar víðast fallegt í góðu veðri og fámenni. Minnist þó kannski sérstaklega á Hveradali við Kerlingafjöll en þar vorum við fjölskyldan eitt síðdegið fyrir nokkrum misserum ein, í geggjuðu veðri. Það var algjörlega stórkostlegt.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Hroki og yfirlæti fer óstjórnlega í taugarnar á mér, alveg sama hvernig þeir þættir eru dulbúnir.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Á maður ekki alltaf eitt pass í svona spurningum, ég ætla að nýta mitt hérna.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég rokkaði á milli þess að vilja verða bóndi og smiður. Ég held að ég hefði staðið mig þokkalega í hvoru tveggja en ætli það verði nokkuð af því úr því sem komið er.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Venni Páer?
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Má segja Guðrún Ásta? Væri satt að segja til í að vita hvernig það er að búa með mér.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég nota ekki samfélagsmiðla.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Það ætla ég rétt að vona að verði ekki.
Eitthvað sem fæstir vita um þig:1) Ég get blakað eyrunum og 2) Ég fór í nám við Fjölbrautaskólann í Breiðholti eftir að ég hafði útskrifast úr lagadeildinni.
Mesta afrek í lífinu: Staðlað svar: Börnin mín.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Klárlega aftur í tímann og ekki endilega þannig að ég yrði viðstaddur nokkurn sögufrægan viðburð. Ég væri til í að taka einn dag í íslensku samfélagi fyrir kannski svona 150 árum síðan. Væri sjálfsagt áþreifanleg áminning um hvað við höfum það gott í dag.
Lífsmottó: Vertu góður við þá sem þú hittir á leiðinni á toppinn, þú gætir nefnilega hitt þá aftur á leið þinni niður.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Grunar að það verði sambland af vinnu og hefðbundnu helgarbrasi með fjölskyldunni.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is