Anna Guðrún Halldórsdóttir var útnefnd Íþróttamaður Hamars 2024 á aðalfundi félagsins í síðustu viku. Anna Guðrún náði frábærum árangri í ólympískum lyftingum á síðasta ári en hún er margfaldur Íslandsmethafi, Evrópu- og heimsmeistari og frábær fyrirmynd í alla staði.
Fullt nafn: Anna Guðrún Halldórsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 1. nóvember 1969, Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Gift Gunnari Biering, eigum 5 börn og 4 barnabörn. Öll flogin úr hreiðrinu en við búum með 11 ára hundinum okkar honum Nóa.
Hverra manna ertu: Foreldrar mínir eru Halldór Sigmundsson, f.v. skrifstofustjóri Húsameistara ríkisins, og Ingibjörg Loftsdóttir, sjúkraliði. Alin upp á Háaleitisbrautinni, byrja í handbolta hjá Fram en enda í lyftingum hjá Hamri í Hveragerði.
Menntun: Stúdentspróf.
Atvinna: Flugfreyja til margra ára. Hvísl… 30 ár!
Besta bók sem þú hefur lesið: Úff, hlusta svo mikið á hljóðbækur að ég get bara ekki gert uppá milli. Elska skandinavíska rithöfunda. Hef oftar en einu sinni hlustað á sömu bókina aftur án þess að fatta það fyrr en ég er komin langt inn í bókina. Þegar ég tek lyftingaæfingu þá er ég með hljóðbók í eyrunum.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Tvíhöfði.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: The Holiday.
Te eða kaffi: Kaffi og nóg af því fyrir hádegi, viðbúið að ég sofni seint ef ég drekk kaffi eftir klukkan 14:00.
Uppáhalds árstími: Haustið, því þá er ég ekkert að svekkja mig á veðrinu og fer að kveikja aftur á kertum. Þá er líka farið að styttast í jólin.
Besta líkamsræktin: Lyftingar með Maríu Rún, þjálfara mínum, en ef hún er ekki með mér þá lyfti ég og hlusta á hljóðbók.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég er hrikalega flínk í að poppa.
Við hvað ertu hrædd: Ég er bílhrædd, sem farþegi.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Á frídögum læt ég klukkuna hringja 8:30 svo ég sofi ekki of lengi. Ég elska að sofa og sef oftast 8 tíma. Þegar ég þarf að mæta í vinnu þá þarf ég að vakna 4:20 og næ þá ekki nema kannski 4-6 tíma svefni.
Hvað gerir þú til að slaka á: Fer upp í sófa og skoða t.d. Insta eða prjóna, fer í tölvuleiki og leyfi mér að taka smá lúr ef ég er þreytt.
Hvað finnst þér vanmetið: Konur í íþróttum, en jákvæðar breytingar hafa þó átt sér stað í þeim efnum undanfarið.
En ofmetið: Salat með steik, sósa og kartöflur er eina meðlætið sem ég þarf.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Týnda kynslóðin með Bjartmari.
Besta lyktin: Rakspírinn sem kallinn notar hverju sinni.
Bað eða sturta: Bað allan daginn, elska hljóðbók í baði og eða horfa á þætti. Baðtíminn getur auðveldlega varað í rúmlega klukkustund.
Leiðinlegasta húsverkið: Moppa og ryksuga, enda eru komnir fínir róbótar í þessi störf.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Gerðu það sem er best fyrir þig.
Nátthrafn eða morgunhani: Bæði betra. Ég á dóttur í Kanada svo það er dásamlegt að ná spjalli við hana að kvöldi en tímamunur er 5-6 klst eftir árstíð, svo ég þarf stundum að vera nátthrafn. En morgunhani get ég líka verið því það er ekkert mál að vakna 04:20 til að ná morgunflugi í Keflavík, ef ég fæ nóg kaffi áður en ég legg á Heiðina.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Suðurskautið, var svo heppin að fá að fara þangað nokkrar ferðir nú janúar og vegum vinnunar minnar. Mánaðar verkefni, búsett í Punta Arenas í Chile og skutlaði ríkum túristum á skautið og til baka.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Yfirborðskennd, vill að fólk komi hreint fram við mig og ég nenni ekki neinu kjaftæði.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar ég hugsunarlaust fór til dyra, nýkomin upp úr baði, á Evuklæðunum og þar stóð nágranni minn og sagði mér að ég hefði gleymt lyklinum í skránni.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði að verða prinsessa, og búa í höll, og segja má að draumurinn hafi ræst í Hveragerði.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Get alltaf hlegið að Gunna mínum þegar hann segir pabbabrandara, sem hann virðist eiga endalaust til af.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Oft dreymt um að verða hjúkka eins og Florence Nightingale. Ég er viss um að ég hefði orðið góð hjúkka.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook og Instagram (@annagudrunh).
Mesta afrek í lífinu: Koma aftur tvíelfd eftir tveggja ára bann og verða bæði Evrópu- og heimsmeistari, setja Evrópu- og heimsmet á þessum mótum og setja fullt af Íslandsmetum.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Fram í tímann og fá næstu lottótölur.
Lífsmottó: Ekki ofhugsa hlutina.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég flýg tvisvar sinnum í dag Reykjavík – Egilsstaðir en fer svo til Baltimore á morgun, laugardag. Fer örugglega út að borða með áhöfninni þar, en svo slökun með hljóðbók og prjónana. Kannski létt æfing á sunnudaginn fyrir heimför því það styttist í Evrópumót, en það verður í Albaníu í byrjun maí.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is