Sandra Ósk Pálmadóttir, verslunarstjóri KFC á Selfossi, náði á dögunum 2. sæti í keppni um besta kjúklingaborgarann meðal starfsfólks KFC á heimsvísu. Keppnin fór fram í Sviss og þar mætti Sandra til leiks með borgara sem inniheldur Zinger-kjúklingabringu, kartöfluskífu, kál, saxaða tómata, ost, camembert-smurost, rifsberjahlaup og léttmajónes. Borgarinn hefur hlotið nafnið Hangover og verður á boðstólnum hjá KFC næstu sex vikurnar bæði stakur og sem hluti af máltíð. Þess má geta að í apríl á Sandra 20 ára starfsafmæli en hún hefur starfað hjá KFC á Selfossi síðan 2005.
Fullt nafn: Sandra Ósk Pálmadóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Fædd í Þorlákshöfn 4. febrúar, 1986.
Fjölskylduhagir: Er búsett á Selfossi ásamt manni mínum, Bjarna Unnarssyni og börnum okkar tveim Sylvíu 15 ára og Styrmi Guðna 2 ára.
Hverra manna ertu: Foreldrar mínir heita Ragnhildur Óskarsdóttir og Pálmi Ragnarsson. Er yngst 6 systkina, algjör lúxus.
Menntun: Það er allavega grunnskólapróf.
Atvinna: Verslunarstjóri á KFC Selfossi og hef verið það í lítil 20 ár.
Besta bók sem þú hefur lesið: Gæti ekki fyrir mitt litla líf sest niður og lesið bók svo mitt svar er gröfubók fyrir Styrmi Guðna.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Elska alla glæpaþætti svo ætli ég segi ekki bara Law and Order.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Einu myndir sem ég gæti mögulega horft á aftur eru myndirnar með Liam Neeson.
Te eða kaffi: Hvorugt. Tek allan daginn Redbull.
Uppáhalds árstími: Verð að segja sumarið þó það komi nú ekki alltaf.
Besta líkamsræktin: Hlaupa á eftir einum 2 ára og ætli það sé ekki líka ein góð 12 tíma hlaupavakt á KFC.
Hvaða rétt ertu best að elda: Pasta og allt með hakki, finnst fátt betra en góður hakkréttur.
Við hvað ertu hrædd: Hræðist fátt, get ekki nefnt neitt í fljótu bragði.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Fer á fætur milli 7:30 og 8:30.
Hvað gerir þú til að slaka á: Slökun er ekki mín deild svo ég verð að segja að mín slökun er að rífa allt úr einhverjum skápum og þykjast raða því aftur inn, gengur misvel.
Hvað finnst þér vanmetið: Góður fiskur og gamli góði Redbullinn.
En ofmetið: Tenerife er alveg smá ofmetið.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Gemmér með Rottweiler.
Besta lyktin: Klárlega af íslensku sumri.
Bað eða sturta: Sturta. Ég hef litla þolinmæði fyrir baði en samt er alltaf næs ef maður nær smá slökun í baði.
Leiðinlegasta húsverkið: Úff… það er að blettahreinsa föt. Ég vel stundum frekar að henda þeim en að neyðast í blettahreinsi-vitleysuna.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Það er frá foreldrum mínum og það er að vera dugleg að vinna og mæta á réttum tíma, allavega í vinnu.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn allan daginn.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Verð að segja Bahamas og svo er auðvitað endalaust af fallegum stöðum í kringum Austurlandið.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Að mæta ekki á réttum tíma.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Úff… ætli það sé ekki þegar vinur nágrannans labbaði inn í vitlaust hús og rölti nánast inná mig í sturtu.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ætlaði að vera sjómaður eða flugfreyja.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ég á alltaf einhverja drepfyndna meistara í vinnunni hjá mér og svo er 2 ára gaurinn minn alveg sjúklega fyndinn.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Myndi vilja taka að mér að verða forseti Íslands og breyta ýmsu.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi klárlega stoppa alla fátækt.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ætli það sé ekki að ég keppti í pool í grunnskóla.
Mesta afrek í lífinu: Börnin mín tvö og húsin sem við fjölskyldan höfum byggt.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Færi til baka þegar foreldrar mínir voru að alast upp.
Lífsmottó: Þetta reddast alltaf.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Heyrðu, ég ætla að skella mér á sveitaþorrablót, það eru fá þorrablót sem slá alvöru sveitablóti við.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is