Tinna Erlingsdóttir var á dögunum kosin nýr formaður Knattspyrnufélags Rangæinga. Mikill vöxtur hefur verið hjá KFR undanfarin misseri en iðkendur félagsins eru um 220 í dag og hafa aldrei verið fleiri. Tinna var líka einn af stofnendum meistaraflokks kvenna hjá KFR í fyrrasumar en góð mæting er á kvennaæfingar hjá félaginu um þessar mundir.

Fullt nafn: Tinna Erlingsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Fædd 20. maí 1980 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Gift Magnúsi Ragnarssyni, lögreglumanni, og börnin eru þrjú Óðinn, Freyja og Frosti.
Menntun: Félagsfræðibraut í FSu. BA í sálfræði og M.ed í sérkennslufræðum frá HÍ.
Atvinna: Starfa sem sérkennari í Hvolsskóla.
Besta bók sem þú hefur lesið: Bróðir minn ljónshjarta eftir Astrid Lindgren.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Messan.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Armageddon.
Te eða kaffi: Kaffi með rjóma!
Uppáhalds árstími: Get ekki gert upp á milli þeirra, hafa allar sinn sjarma.
Besta líkamsræktin: Fótboltaæfingar en annars geri ég meira af því að hlaupa og lyfta lóðum.
Hvaða rétt ertu best að elda: Þekkt fyrir gott túnfisksalat og öll eggjaeldun er sérstakt áhugamál.
Við hvað ertu hrædd: Að gera mistök!
Klukkan hvað ferðu á fætur: 5:35 á virkum dögum.
Hvað gerir þú til að slaka á: Leggst í heitan pott.
Hvað finnst þér vanmetið: Góðir þjálfarar og forvarnargildi íþróttastarfs.
En ofmetið: Bækur í kennslu barna.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: I want it all með Queen.
Besta lyktin: Lykt af olíum og öðrum bílailmum á verkstæðinu hans pabba á Hellu.
Bað eða sturta: Fer alveg eftir stemningunni.
Leiðinlegasta húsverkið: Taka hár úr niðurföllum.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Amma sagði alltaf: ,,Brostu… á meðan þú hefur enn tennur!”
Nátthrafn eða morgunhani: Algjör morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Hrafntinnusker og Hvolsvöllur.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Neikvæðni og uppgjöf.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar ég kveikti óvart á brunavarnakerfi Helluskóla með olnboganum þegar ég var í 10. bekk.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Bifvélavirki eins og pabbi.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Frosti sonur minn.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég myndi vilja vera sveitastjóri Rangárþings eystra og mitt fyrsta embættisverk væri að setja knattspyrnuhús á aðalskipulag sveitafélagsins og hefja útboð. Helst taka fyrstu skóflustunguna líka.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Sennilega Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi nota tækifærið og hækka styrki til heilsu-, íþrótta- og æskulýðsstarfs.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er einn af stofnendum meistaraflokks kvenna Knattspyrnufélags Rangæinga (KFR) sem stofnað var 22. ágúst 2018.
Mesta afrek í lífinu: Ala börnin mín upp og verða formaður Knattspyrnufélags Rangæinga.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Myndi ferðast fram í tímann um nokkur ár og kíkja á hvar knattspyrnuhöll KFR er staðsett.
Lífsmottó: Hugurinn ber þig hálfa leið.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Það verður eitthvað tengt hreyfingu, fótbolta og heitum potti.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

 

Fyrri greinJón Gunnþór vann Skarphéðinsskjöldinn í fyrsta sinn
Næsta greinEva Rut fékk fyrstu verðlaun í smásagnakeppni