Dagur Fannar Magnússon frá Selfossi er einn fjögurra presta sem kjörnefnd Austfjarðarprestakalls valdi úr hópi umsækjenda um prestakallið á dögunum. Dagur Fannar verður með aðsetur í Heydölum í Breiðdal en biskup mun skipa í preststöðuna frá 1. nóvember næstkomandi. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem valdir eru fjórir prestar á einum og sama kjörfundinum.

Fullt nafn: Dagur Fannar Magnússon.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég er fæddur 10. júlí 1992 á Selfossi. 10. júlí er nokkuð merkilegur dagur, Hótel Valhöll brann á Þingvöllum og þó nokkrum árum fyrr brann ráðherrabústaðurinn á Þingvöllum þennan dag. En nokkuð jákvæðari atburður sem átti sér stað á þessum degi er að Hið íslenska biblíufélag var stofnað.
Fjölskylduhagir: Ég er nýlega genginn í hjónaband með Þóru Grétu Pálmarsdóttir og saman eigum við tvö börn, Kristbjörgu Lilju og Skarphéðin Krumma.
Menntun: Ég er menntaður guðfræðingur, með svokallaða Mag.theol próf sem er hið eiginlega embættispróf. En það er svo gaman í guðfræði að ég get ekki hætt og ætla að halda áfram.
Atvinna: Ég vann í Skálholti í sumar sem verkefnastjóri en hef verið skipaður prestur í Heydölum í Breiðdal á Austfjörðum frá og með 1. nóvember.
Besta bók sem þú hefur lesið: Hef svo sem ekki haft mikinn tíma til þess að lesa mér til skemmtunar en Englar og djöflar eftir Dan Brown er mjög góð og reyndar hinar bækurnar um prófessor Robert Langdon. Svo er guðfræði reyndar afskaplega skemmtilegur lestur.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Klárlega Handmaid’s Tale. Ég hélt ég myndi drepast yfir síðasta þættinum í lokaseríunni vegna þess að ég þorði ekki að anda af ótta við að það kæmist upp um plottið.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég legg það ekki í vana minn að horfa aftur á bíómyndir, en sú bíómynd sem ég hef séð oftast er Frozen. Það er einungis vegna þess að dóttir mín 5 ára var gjörsamlega dolfallinn. Ég get ekki sagt að þetta sé uppáhalds myndin mín.
Te eða kaffi: Kaffi, ég er kaffifíkill, suma daga geng ég með kaffibolla í höndunum og skil ekkert í því afhverju hann er alltaf tómur þrátt fyrir að ég hafi verið að fylla á hann.
Uppáhalds árstími: Það er mjög erfitt að velja á milli árstíða en það kemur alltaf sá tímapunktur að ég finn lykt í loftinu og þá veit ég að það eru árstíðarskipti. Ég myndi segja að þessi árstíðaskipti væru hið fegursta við náttúruna. Þetta eru svo töfrandi breytingar á náttúrunni sem merkja hina eilífu hringrás lífsins. Lífið kviknar, lífinu er lifað, lífið hrörnar, dauðinn kemur og upprisa að vori og lífið kviknar á ný.
Besta líkamsræktin: Mér finnst langbest að fara út á frjálsíþróttavöll og kasta sleggju, þá fæ ég útiveru, þrekæfingu og lyftingaæfingu á sama tíma.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Þegar ískápurinn er tómur þá kemst ég í stuð og galdra fram máltíð úr engu.
Við hvað ertu hræddur: Ég er logandi hræddur við dauðann, þetta er jafnvel einhverskonar órökréttur ótti við eitthvað sem enginn sleppur frá. Ætli þetta sé ekki ótti við þá óvissu sem tekur við.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ég hef yfirleitt farið á fætur kl. 7:00 en nýlega hef ég farið á æfingar kl. 6:00 á þá fer ég á fætur 5:30.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég er nú yfirleitt mjög slakur en að fara í sund og heita pottinn gerir galdurinn. Einnig nota ég íhugun sem kallast kyrrðarbæn og er kristin íhugunaraðferð sem á rætur að rekja aftur til eyðimerkurfeðranna og -mæðranna.
Hvað finnst þér vanmetið: Bænin er vantmetið verkfæri. Bænin er einskonar íhugun hvort sem það er hljóðbæn þar sem setið er í kyrrðinni eða bæn tjáð með orðum. Bænin er verkfæri til þess að kjarna sig og ég tel að fólk þurfi í meiri mæli að kjarna sig í dagsins amstri.
En ofmetið: Ætli sauðfjárbændur hengi mig ekki upp á staur fyrir þetta en mér þykir lambakjöt algjörlega ofmætið, það er að vísu aðeins mín persónulega skoðun en menn hafa nú verið hengdir fyrir minna.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Skímósyrpan kemur mér alltaf í stuð.
Besta lyktin: Eins og ég kom inn á áðan þá finn ég lykt af árstíðaskiptum, eða það er eins og þau liggi í loftinu, það er töfrandi lykt.
Bað eða sturta: Til þess að þrífa mig þá er sturtan betri, skíturinn rennur ekki ofan í poll að vatni sem verður svo að drullupolli. En svo er náttúrulega best að fara í heita pottinn.
Leiðinlegasta húsverkið: Að brjóta saman þvott er svo leiðinlegt að ég fæ grænar bólur. Um leið og það kemur vél á markað sem gerir þetta fyrir mig verð ég fyrstur í röðinni.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Ég hef fengið svo mikið af góðum ráðum í gegnum tíðina að ég er hreinlega ekki viss. Það er þó alltaf gott ráð að geyma smjör við stofu hita því annars verður ómögulegt að smyrja með því.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani, ég veit færri yndislegri stundir en að vakna á undan öllum á heimilinu til þess að eiga stund með sjálfum mér.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Fegurð staða er fyrir mér sú tilfinning þegar maður stendur úti í náttúrunni og friður færist yfir mann. Þessi tilfinning er ekki bundin neinum stað heldur því að vera hér og nú. Margir staðir geta verið fallegir en maður upplifir ekki þessa tilfinningu því maður er annars hugar.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Fólk sem keyrir á 60 km/klst á 90 vegi.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Einu sinni ætlaði ég að segja eitthvað við ákveðin einstakling og bullaði bara tóma steypu, ég þurfti að endurtaka mig þrisvar sinnum til þess að koma því rétt frá mér.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði að minnsta kosti ekki að verða prestur, en ég hafði eitt sinn hugmyndir um að verða læknir eða leikari. Nú er ég orðinn stór og er alveg að verða prestur.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Konan mín á stundum mjög góð gullkorn. En svo fer það nú bara eftir veðri og vindum hver er fyndnastur.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég myndi sennilega vilja prófa að vera Jesú Kristur daginn sem hann reis upp frá dauðum, bara til þess að vita hvernig það er að vakna upp frá dauðum. Svona til samanburðar við það hversu erfitt það getur stundum verið að velta sér framúr á morgnana.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég nota Facebook mest en það er ekki svo langt síðan að ég uppgötvaði Instagram, það er allt að koma.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Það fylgir því væntanlega mikil ábyrgð að vera alvaldur í einn dag, nú ef ég gæti bannað plastnotkun til frambúðar og snúið við hnattrænni hlýnun með nokkrum tilskipunum þá myndi ég gera það.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég þoldi ekki kristinfræði í grunnskóla, nú sjáið þið hvað það hafði upp á sig.
Mesta afrek í lífinu: Hið mesta afrek var að biðja Þóru Grétu um að giftast mér, mér leið eins og þyngdaraflið hefði snúist við því það var gríðarlega erfitt að fara niður á skeljarnar.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi fara og ræða við upphafsmenn helstu trúarbragða heimsins og fá beina kennslu á speki þeirra. Jesú Krist, Siddhattha Gotama (Búdda), Múhamed og ef það væri einhver sérlegur kennimaður innan Hindúisma þá myndi ég líka tala við hann.
Lífsmottó: Að leitast eftir því af fremsta megni að dvelja í hinu eilífa núi. Ástæðan fyrir því er að ávextir slíkrar iðkunar og upplifana eru miklir og bætandi fyrir einstaklinginn og umhverfi hans.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Ég og Þóra Gréta ætlum austur í Heydali að skoða prestsetrið, þar sem við munum búa um ókomin ár.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

 

 

 

 

Fyrri grein„Allt það besta við handboltann“
Næsta greinHæsta tré landsins 70 ára og nálgast 30 metra