Kolfinna Sjöfn Ómarsdóttir frá Lambhaga á Rangárvöllum er stallari í nýrri stjórn nemendafélagsins Mímis í Menntaskólanum að Laugarvatni sem kosin var í síðustu viku. Það er alltaf nóg að gera í félagslífinu í ML og nú stendur fyrir dyrum frumsýning á leikritinu Adrenalín, sem Kolfinna og Þórkatla Loftsdóttir sömdu og þær leikstýra einnig verkinu.
Fullt nafn: Kolfinna Sjöfn Ómarsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 21. júlí 2006, Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Bý á Lambhaga á Rangárvöllunum með foreldrum mínum og þremur yngri systkinum.
Hverra manna ertu: Foreldrar mínir heita Margrét Harpa Guðsteinsdóttir og Ómar Helgason.
Menntun: Er í besta og skemmtilegasta skóla landsins að mínu mati, Menntaskólanum að Laugarvatni.
Atvinna: Vinn með skóla í Hellunum á Ægissíðu og einnig sem þjónn á Hótel Rangá.
Besta bók sem þú hefur lesið: Mennirnir með bleika þríhyrninginn, hún var rosaleg. Mjög erfitt að lesa hana en breytti gjörsamlega mínum hugsunarhætti og hvernig ég sá heiminn.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: The Office.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: The Lion King.
Te eða kaffi: Kaffi.
Uppáhalds árstími: Svona miður september. Þá er enn þá hlýtt og svona peysuveður en samt dimmt á kvöldin og yfirleitt er ekkert eða ekki mikið slabb því haustrigningin er ekki komin.
Besta líkamsræktin: Að labba frá matsalnum upp í Turn í skólanum.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég geri rosalega góða kanilsnúða!
Við hvað ertu hrædd: Kýr, sem er smá fyndið því ég er uppalin á nautgripabýli – en bara fake it till you make it!
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ég ætla ekkert að vera að fegra þetta neitt, svona 20 mínútur í tíma… En ef ekkert er í gangi, þá bara þegar ég nenni. Ef það er vinna þá er það svona 40 mínútur áður en að vaktin byrjar.
Hvað gerir þú til að slaka á: Spila á píanóið eða hlusta á tónlist og hangi í símanum.
Hvað finnst þér vanmetið: Rútuferðir með airpods og góða tónlist og horfa út um gluggann í geggjuðu chilli.
En ofmetið: Útilegur (ekki Bubba samt).
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Týnda kynslóðin með Bjartmari Guðlaugs og Heat Above með Greta Van Fleet, svo líka flest með Sálinni.
Besta lyktin: Elska lyktina af hreinum þvotti, eða þvottaefni.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Að þurrka af og fara út með ruslið.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Þú verður að bera þig eftir þeim standard sem þú vilt hafa.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ítalía og Azores eyjar eru rosalega fallegir staðir en svo er fátt sem toppar allt Ísland á sumarkvöldum.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Smjatt!
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Fékk að syngja með Jóhönnu Guðrúnu einu sinni, sem var rosalega gaman, en svo vildi ég taka mynd með henni en var búin að gleyma að ég setti 10 sekúndna timer á myndavélina á símanum, því litli bróðir minn var alltaf að taka myndir á hann. Við þurftum þá að standa í selfie-stöðu í 10 sekúndur því ég þorði ekki að stoppa og taka aðra… Þetta er vinaleg áminning til allra að taka tímateljarann á myndavélinni þinni af!
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Mig langaði að eiga minn eigin veitingastað og vera tónlistarkona. Tónlistin heillar mig ennþá og ég vona að ég fái að vinna með það meira í framtíðinni, en draumurinn um veitingastaðinn hvarf fljótt og breyttist í lögfræðinám sem ég stefni að eftir ML.
Fyndnasta manneskja þú veist um: „Væntanlega er ég fyndnasta manneskja sem þú þekkir!“ – Ásdís Helga Magnúsdóttir vinkona mín, þori ekki að þræta við hana…
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Pálmi húsbóndi í ML, hann getur bara einhvern vegin reddað öllu og veit allt. Langar bara að sjá hvernig hann fer að því, dáist að þessum manni!
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Snapchat.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi enda alla þessa hræðilegu hluti sem eru í gangi í heiminum.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég æfði golf í 14 ár.
Mesta afrek í lífinu: Úff… það er margt sem ég er stolt af. En núna er það örugglega það sem svolítið heltekur minn tíma. Leikritið mitt, Adrenalín, sem ég og vinkona mín Þórkatla Loftsdóttir sömdum sjálfar og erum búnar að vera að leikstýra og sjá um í vetur. Þetta tók rosalega mikla tíma og vinnu og er ég rosaleg stolt af verkinu sem og leikhópnum okkar.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Myndi vilja kíkja á sjálfan mig eftir svona 10 ár… bara til að taka stöðuna.
Lífsmottó: Þetta er bara hugarástand… og þetta reddast á endanum, sama hvort að það sé á þann hátt sem þú vildir eða ekki.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Öll helgin fer í það að æfa leikritið. Við frumsýnum svo Adrenalín í næstu viku.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is