Gauti Sigurðsson var flugstjóri Icelandairvélarinnar sem flaug heim með Íslendingana sem urðu strandaglópar í Ísrael um síðustu helgi. Hópurinn flaug frá Amman í Jórdaníu til Rómar á Ítalíu og þaðan til Íslands og gekk ferðalagið vel. Stærstur hópi farþeganna voru Sunnlendingar og meðal þeirra voru bróðir og mágkona Gauta og það var því einstaklega ánægjulegt að Selfyssingurinn væri í flugstjórasætinu.
Fullt nafn: Gauti Sigurðarson.
Fæðingardagur, ár og staður: 5. maí 1981 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Giftur Kolbrúnu Maríu Ingadóttur og við eigum þrjár dætur, Eybjörgu Dís 14 ára, Ingunni Lilju 12 ára og Arnheiði Bellu 6 ára.
Menntun: Stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurlands og atvinnuflugmaður frá Flugskóla Íslands.
Atvinna: Flugstjóri hjá Icelandair á Boeing 757/767.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég er mikill Yrsu maður, hef lesið flest allar bækurnar hennar og get ekki gert upp á milli þeirra.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Band of Brothers og The Pacific… geggjaðir þættir.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ókei, smá lúðalegt en ég verð að segja satt! Top Gun.
Te eða kaffi: Helst bara Collab, annars kaffi ef það er ekki í boði.
Uppáhalds árstími: Það toppar ekkert íslenska sumarið.
Besta líkamsræktin: Labba upp á Úlfarsfellið með hundinn.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Skástur á grillinu en Kolla mín sér um þetta að mestu leiti, enda snilldar kokkur.
Við hvað ertu hræddur: Ég hræðist það að þurfa að sleppa takinu af dætrum mínum þegar þær verða eldri.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ef ég er að fara í morgunflug þá vakna ég klukkan 5 en annars 7:30 með stelpunum mínum. Ég reyni nú að sofa út ef ég á helgarfrí.
Hvað gerir þú til að slaka á: Hlusta á gott podkast og fer út að labba með hundinn.
Hvað finnst þér vanmetið: Það er svo margt, þétt faðmlag.
En ofmetið: Gamlárskvöld.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Gipsy Kings þökk sé Birni Daða, vini mínum og svo er ég mikill Mark Knopfler aðdáandi þökk sé öðrum vini mínum. Annars er ég algjör alæta á tónlist, allt frá karlakórum og upp í rokk. Það má alls ekki vera of þungt rokk samt, nú hlæja eflaust nokkrir vinir mínir á Selfossi.
Besta lyktin: Að labba út á morgana á tjaldstæði á fallegum sumarmorgni og finna lyktina af grasinu og íslenska sumrinu, ekkert sem toppar það.
Bað eða sturta: Alltaf sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Ganga frá þvotti.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: „Það er bara ein umferð í lífsins leik“. Þetta gullkorn heyrði ég fyrst hjá Torfa Ragnari vini mínum.
Nátthrafn eða morgunhani: Í vinnunni minni þá þarf að vera bæði.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Það eru svo margir. Vík í Mýrdal er ofarlega og svo fórum við á Vestfirðina í sumar með góðum vinum. Það er einhver stórkostleg orka þar í fjallafegurðinni.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Bezzerwizzerar og fólk sem er ekki heiðarlegt.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Úff… það er svo margt.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Flugmaður.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Einar Páll Bjarnason (Palli) vinur minn og maður frænku minnar.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Hefði viljað upplifað nokkra daga í lífi Þorsteins Jónssonar flugkappa, sem flaug Spitfire orrustuflugvélum í seinni heimstyrjöldinni… og lifði af.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Væmið en auðvelt svar, frið á jörð. Ofbeldi elur af sér meira ofbeldi. Ástandið í Ísrael er mér ofarlega í huga þessa dagana.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég mjög þrjóskur.
Mesta afrek í lífinu: Að eignast dætur mínar.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Eins og hefur komið nokkru sinnum fram hér að ofan þá er ég mikill áhugamaður um seinni heimstyrjöldina.
Lífsmottó: Verum góð hvort við annað og það er bara ein umferð í lífsins leik.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Fljúga til London og svo vonandi að fara í bústaðinn okkar rétt hjá Selfossi, heima. Mér líður alltaf eins og ég sé kominn heim þegar ég keyri yfir Ölfusárbrúnna.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is