Nýlega flutti æfingastöðin Box800 á Selfossi starfsemi sína í stærra og betra húsnæði við Eyraveg 57. Þar taka Eyþór Stefánsson og Alda Kristinsdóttir vel á móti nýjum og gömlum iðkendum, óháð því hvernig formið eða þolið er. Og ætla ekki allir að taka sig á á nýju ári? Eyþór er Sunnlendingur vikunnar.

Fullt nafn: Eyþór Stefánsson.
Fæðingardagur, ár og staður: Fæddur 2. júlí árið 1992 á Selfossi
Fjölskylduhagir: Ég bý á Selfossi ásamt konunni minni Öldu Kristinsdóttur og börnunum okkar, Kristni Óla (8 ára), Atla Val (4 ára) og Emilíu (7 mánaða).
Hverra manna ertu: Foreldrar mínir eru þau Stefán Þorleifsson, tónlistarkennari og Anna Þórný Sigfúsdóttir, grunnskólakennari.
Menntun: Ég er með sveinsbréf í framreiðslu. Eftir að hafa opnað æfingastöðina okkur Öldu, Box800, hef ég þó verið að mennta mig meira á því sviði og ná mér í réttindi sem þjálfari.
Atvinna: Ég er eigandi og þjálfari í Box800 en það er óhætt að segja að ég sé þar í rúmlega fullri vinnu. Í haust var ég þó einnig að starfa í Kópnum, frístundaheimili, hér á Selfossi.
Besta bók sem þú hefur lesið: Það mun vera Harry Potter en ætli það sé ekki eina bókin sem ég hef lesið.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Erfitt að velja á milli Breaking bad og fyrstu seríu af Prison Break.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég hef sennilega oftast horft á Grown Ups – kenni Netflix um.
Te eða kaffi: Mikill kaffimaður.
Uppáhalds árstími: Alltaf sumarið.
Besta líkamsræktin: Ólympískar lyftingar eru í uppáhaldi eins og er en svo langar mig til þess að hlaupa meira í sumar. Annars er alltaf best þegar ég næ að mæta á æfingar í Box800 og æfa í frábærum félagsskap.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég er oftast beðin um að elda krönsí kjúklingaborgara hérna heima.
Við hvað ertu hræddur: Ég hræðist mest geitunga!
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ég fer yfirleitt á fætur kl. 05:20 á virkum dögum ef ég er að þjálfa kl. 06:00. Svo um helgar er lítið sofið út með einn pabbasjúkan dreng sem dregur mann snemma á fætur.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég fer í tölvuna og spila nokkra leiki.
Hvað finnst þér vanmetið: Svefn er vanmetinn – ég væri til í að vera sofnaður kl. 21:00 alla virka daga ef ég gæti.
En ofmetið: Að vaka fram eftir.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Du Hast – Rammstein.
Besta lyktin: Úff, það kemur hreinlega ekkert upp í hugann.
Bað eða sturta: Sturta er fljótleg og þægileg.
Leiðinlegasta húsverkið: Klárlega að brjóta saman þvott.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að gera hlutina fyrir sjálfan mig en ekki aðra.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Stuðlagil, hittum á frábært veður og það skartaði sínu fegursta.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Allt viðhald á bílum.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Mér finnst alltaf neyðarlegt þegar fólk heilsar mér í búðinni og ég gleymi gleraugunum heima, þá veit ég stundum ekkert hverjum ég er að heilsa.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Mig langaði alltaf að verða íþróttakennari eða körfuboltaþjálfari.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Sverrir Þór Sverrisson (Sveppi krull) er einn fyndinn maður.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá (og afhverju): Ég myndi vilja vera Pétur Jóhann til þess að fá að rúnta um með Sveppa Krull í einn dag.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég veit ekki hvar ég ætti að byrja…
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Það eru fáir sem vita að ég var yfirþjónn á Lækjarbrekku og Humarhúsinu en blessuð sé minning þeirra! Covid fór illa með þá.
Mesta afrek í lífinu: Að sjálfsögðu eru það börnin mín! Mér þykir þó afar stórt afrek að hafa stofnað Box800 með konunni minni og sjá þar frábært samfélag sem hefur myndast.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi vilja ferðast aftur í tímann og gefa ömmu og afa eitt knús í viðbót og taka Öldu með svo hún fengi að hitta þau.
Lífsmottó: „Einn dag í einu“.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Við erum á leiðinni í fjölskyldu-þorrablót.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinHugmyndin að „Janoir“ kviknaði hjá blóðþyrstum bókaverði
Næsta greinMilljónamæringurinn úr Skálanum ófundinn