Linda Björk Hilmarsdóttir hefur í mörg horn að líta þessa dagana. Fyrir utan það að starfa hjá Oche Reykjavík og vera meðeigandi í Studio Sport þá er hún nýtekin við starfi framkvæmdastjóra hjá Sviðinu, Risinu og Miðbar í miðbæ Selfoss. Linda Björk er Sunnlendingur vikunnar.
Fullt nafn: Linda Björk Hilmarsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Fædd og uppalin í Reykjavík þann 16. júlí 1986. Þess má geta að við erum fjórir ættliðir sem eigum afmæli þennan dag; ég, dóttir mín, langamma og langalangamma.
Fjölskylduhagir: Ég er gift æskuástinni honum Davíð Lúther Sigurðarsyni og saman eigum við tvö börn, hann Hilmar Lúther 19 ára og Ragnhildi Birtu 11 ára.
Hverra manna ertu: Móðir mín heitir Katrín Björk Eyjólfsdóttir og faðir minn Hilmar Gísli Gunnarsson.
Menntun: Ég er í grunninn menntuð í ferðamálafræði með áherslu á markaðsmál, en lærði svo seinna markþjálfun og er Professional Certified Coach frá ICF global og starfaði um tíma sem leiðbeinandi í námi markþjálfa.
Atvinna: Í dag starfa ég hjá Oche rvk þar sem við hjónin erum meðeigendur, ég er líka meðeigandi í Studio Sport með einni minni bestu vinkonu, einnig er ég nýtekin við sem framkvæmdastjóri hjá Sviðinu, Miðbar og Risinu. En til þess að fá útrás fyrir þeirri ástríðu sem ég brenn fyrir, sem er að vinna með og efla fólk, þá hef ég verið svo heppin að fá að leiðbeina hjá Birtu starfsendurhæfingu og Fræðsluneti Suðurlands. Einnig hef ég verið að sinna hugarfarsþjálfun hjá meistaraflokki kvenna í handbolta hér á Selfossi. Það er því óhætt að segja að ég hef nóg að gera og hef ég sett mér það markmið að taka fyrstu vikur nýs árs í það að forgangsraða og létta álagið svo allir boltar haldist á lofti og ég hafi örugglega rými fyrir mína andlegu heilsu og heilbrigði, því án þess hef ég ekki getu til þess að standa með fólkinu mínu.
Besta bók sem þú hefur lesið: Fyrsta bókin sem kemur upp í hugann núna er Ikigai, bók um leyndarmál langlífis og hamingju. En þegar ég hugsa lengra þá koma fjölmargar upp. Ég les mjög mikið og get ekki beðið eftir að byrja á jólabókunum.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Sá sjónvarpsþáttur sem hefur staðið með mér í gegnum súrt og sætt og sinnt hlutverki vina og fjölskyldu þegar þannig ber við er að sjálfsögðu Neighbours.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég get ekki horft aftur og aftur á neina mynd og tolli sjaldnast við sjónvarpið nema þá með þvottakörfuna mér við hlið eða eitthvað föndur.
Te eða kaffi: Kaffi allan daginn.
Uppáhalds árstími: Haustið er einn fallegasti árstíminn að mínu mati.
Besta líkamsræktin: Besta líkamsræktin er sá staður sem ég fæ útrás bæði fyrir líkamlega þjálfun og félagslega næringu og í dag eru það morguntímarnir í World Class Selfossi sem ég elska. Þar hittumst við stór hópur af konum undir stjórn Silju Sigríðar stöðvastjóra. Hún er alveg mögnuð í því að gefa ekkert eftir og á sama tíma hvetja okkur áfram.
Hvaða rétt ertu best að elda: Matseldin mín kemur frá hjartanu og strákurinn minn talar oft um það að á okkar heimili sé aldrei það sama í matinn. Ég les mikið uppskriftabækur og pæli í mat en opna svo oftast bara skápana og elda úr því sem er til. Ef ég hef ekki eldað heima í nokkra daga þá er það merki um að eitthvað sé ekki í lagi eða álagið of mikið, semsagt mjög einfalt að lesa í mína líðan.
Við hvað ertu hrædd: Ég er hrædd við löggur, já ég veit það er skondið en það er sannleikur.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Þegar ég er að mæta í ræktina þá vakna ég 5:20 sirka, annars 6:30.
Hvað gerir þú til að slaka á: Til að slaka á þá sæki ég mikið í einveru og á það til að skrifa mikið, svo hugleiði ég eða fer í jóga.
Hvað finnst þér vanmetið: Þögn er eitt það vanmetnasta í okkar lífi.
En ofmetið: Titlar, völd og frægð.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: I Wish I Was a Punk Rocker með Sandi Thom.
Besta lyktin: Elska lyktina af nýslegnu grasi, lyktin í loftinu á áramótunum er líka í uppáhaldi og enn og aftur skrítin opinberun hér en vindlalykt er einnig í uppáhaldi. Á maður ekki alltaf að segja sannleikann?
Bað eða sturta: Alltaf sturta sérstaklega með góðum krafti.
Leiðinlegasta húsverkið: Ganga frá þvotti eftir að hafa brotið saman.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Hættu að vera svona fullorðin, lífið er ekki svona alvarlegt.
Nátthrafn eða morgunhani: Bæði í bland. Ef ég hef ekki fengið neina einveru yfir daginn þá þarf ég minn tíma á kvöldin.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Feneyjar er með fallegri stöðum og menningu sem ég hef upplifað.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Það sem fer mest í taugarnar á mér er óheiðarleiki og mikilmennska.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Það neyðarlegasta sem ég hef lent í er líklega þegar löggan stoppaði mig (þið munið að ég er hrædd við löggur) fyrir að keyra aðeins of hratt og lögregluþjónninn sagði við mig „Veistu hvað þú varst að keyra hratt?“ og ég svaraði: „Já og ég var líka að tala í símann“ og fór svo að gráta.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði alltaf að verða prestur og það er svosem draumur sem hefur aldrei alveg slokknað á.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Fyndnasta manneskja sem ég þekki er líklega Linda Rós Jóhannesdóttir. Alveg sama hversu flókin og stundum leiðinleg verkefni sem við erum að vinna saman þá nær hún alltaf að troða inn smá húmor, það er eiginleiki sem ég elska.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Bjarni Ben út af mörgum ástæðum en í grunninn langar mig að skilja hann betur.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég nota Facebook allra mest enda er það mikið vinnutæki. Ég eyði of miklum tíma þar í ekkert gagnlegt.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi útrýma vopnum og kenna fólki samkennd.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Það sem fæstir vita um mig er að ég elska allt sem er lítið, litla hluti og eldhúsáhöld. Vil finna fyrir öllu í höndunum og þoli ekki stór rafmagnstæki.
Mesta afrek í lífinu: Það er að koma barninu mínu til manns og berjast fyrir hans tilveru og getu, hann fæddist á viku 29 og er langveikur/hreyfihamlaður sem var stórt verkefni fyrir okkur hjónin þegar við áttum hann á tvítugsaldri. Einnig tel ég það til afreka að vera í ástarsambandi í 22 ár, því það vita allir sem hafa verið eða eru í parasambandi að það krefst þess að vera meðvitaður og leggja inn vinnuna.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi fara og hitta 5 ára gömlu mig og segja henni að þetta verði allt í góðu það sé verið að passa upp á hana.
Lífsmottó: Sá sem stefnir ekkert fer þangað.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég ætla mér að fara á ball með Skítamóral í kvöld á Sviðinu og helgin fer í samveru með mínu besta fólki.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is