Selfyssingurinn Katrín Birna Sigurðardóttir hlaut á dögunum hæfileikaverðlaun Vina Sinfóníuhljómsveitar Árósa, Aarhus Symfoniorkesters Venner. Verðlaunin eru veitt ungu og einstaklega hæfileikaríku klassísku tónlistarfólki, sem er á þröskuldi þess að verða stjörnur morgundagsins. Í umsögn dómnefndar segir að Katrín sé gædd fallegum hljóm á hljóðfærinu sínu, öruggri tækni og sterkum tjáningarvilja hjá svo ungum tónlistarmanni. Katrín er við nám í Árósum og hefur meðal annars komið fram sem einleikari hjá Sinfóníuhljómsveit Árósa.

Fullt nafn: Katrín Birna Sigurðardóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Fæddist 8. desember 2002 á Landspítalanum.
Fjölskylduhagir: Ég bý með kærastanum mínum, Sander, í Árósum.
Hverra manna ertu: Foreldrar mínir eru Unna Björg Ögmundsdóttir frá Vík dóttir Helgu og Ögmundar og Sigurður Fannar Sigurjónsson Selfyssingur sonur Guðrúnar og Sigurjóns. Þannig að ég á ættir að rekja t.d. í Mýrdalinn, Flóann og Hrunamannahrepp.
Menntun: Lauk við Bachelor-gráðu í sellóleik í vor frá Konunglega tónlistarháskólanum í Árósum og er núna í mastersnámi í sellóleik/sellókennslu í sama skóla.
Atvinna: Í fullu starfi sem nemandi en tek að mér eitt og eitt gigg.
Besta bók sem þú hefur lesið: Las Vetrarfrí eftir Hildi Knútsdóttur sem unglingur og hún er enn í uppáhaldi.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Kappsmál.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég elska La La Land þrátt fyrir sorglegan endi.
Te eða kaffi: Kaffi á morgnana og te á kvöldin.
Uppáhalds árstími: Ég kann að meta sitt lítið af hverri árstíð.
Besta líkamsræktin: Þessa stundina er ég mjög hrifin af pílates.
Hvaða rétt ertu best að elda: Samtíning úr ísskápnum.
Við hvað ertu hrædd: Ég er mjög hrædd við að vera sein og mæti alltaf allt of snemma.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ég fer yfirleitt á fætur klukkan 7.
Hvað gerir þú til að slaka á: Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá fæ ég mér te og skrolla á Tiktok til að slaka á.
Hvað finnst þér vanmetið: Klassísk tónlist.
En ofmetið: Orkudrykkir, mér finnst þeir vondir á bragðið.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Betri tíð með Stuðmönnum.
Besta lyktin: Mér dettur helst í hug lyktin af mandarínum og piparkökum, en kannski er ég bara komin í jólastuð.
Bað eða sturta: Sturta, ég á reyndar ekki baðkar.
Leiðinlegasta húsverkið: Að skipta um á rúmi, eins stuttan tíma og það tekur.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að umkringja mig fólki sem lætur mér líða vel.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani, stunda það að horfa á þátt eða lesa bók áður en ég mæti í skólann.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Þórsmörk.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Þegar Danir biðja mig um að segja “rødgrød med fløde”.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég fór í stelpuferð til Mallorca og þar fórum við vinkonurnar í siglingu. Þegar siglingunni lauk og við vorum að labba úr bátnum, horfði ég á unga og myndarlega skipstjórann. Hann blikkaði mig og það var eins og fótunum hafi verið kippt undan mér og ég steinlá.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Læknir eða verkfræðingur.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Elísabet Anna.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Guðni Th, því hann er svo gáfaður.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Örugglega Facebook, því það er svo praktískt.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég gefa E.Finnsson umboð í Danmörku.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Hvað ég fer vandræðalega snemma að sofa.
Mesta afrek í lífinu: Þegar ég vann einleikarakeppni skólans á fyrsta árinu mínu í Konunglega tónlistarháskólanum í Árósum.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Væri til í að fara aftur í tímann og vera gestur í Á tali með Hemma Gunn.
Lífsmottó: Muna að njóta.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég ætla að eiga afmæli og halda upp á það með góðum vinkonum.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinEnn mikil hætta á smitdreifingu
Næsta greinSjö umferðaróhöpp í vikunni