Eyrbekkingurinn Ágústa Margrét Þórarinsdóttir er eigandi og framkvæmdastjóri menningarfyrirtækisins Einkofi Productions sem fékk á dögunum einnar milljón evru styrk frá Creative Europe fyrir verkefnið Moving Classics: Sonic Bridges. Meginviðfangsefni verkefnsins er að leiða saman listamenn frá evrópskum samstarfslöndum ásamt framleiðendum og samfélagsrýnum og skilgreina þema og hugmyndir sem Menningarborg Evrópu 2028, Skopje í Norður Makedónu byggir á; Culture over Division. Styrkurinn er til fjögurra ára en verkefnið tekur á viðfangsefnum eins og þjóðaruppbyggingu og ímynd, sjálfstæði, fólksflutningum, evrópskri sjálfsmynd og hnattvæðingu.

Fullt nafn: Ágústa Margrét Þórarinsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 10. mars, 1976 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Ég er gift Andy Brydon og við eigum saman Isobel Sóleyju 14 ára og Óskar Thor 8 ára. Við búum í Manchester þar sem ég hef verið búsett í rúmlega 20 ár.
Hverra manna ertu: Ég er Eyrbekkingur og ber þangað enn sterkar taugar. Pabbi minn er Þórarinn Ólafsson, fyrrverandi fangavörður og sjómaður og móðir mín Ragnheiður Þórarinsdóttir sjúkraliði, sem lést langt um aldur fram fyrir rúmlega 3 árum.
Menntun: Ég er með stúdentspróf frá Menntaskólanum að Laugarvatni, BA próf í mannfræði frá Háskóla Íslands og svo MA í félagslegri mannfræði frá University of Manchester.
Atvinna: Eigandi og framkvæmdastjóri Einkofa Production á Íslandi og Curated Place í Bretlandi. Er einnig ræðismaður bæði Íslands og Danmerkur í Manchester.
Besta bók sem þú hefur lesið: Sjálfstætt fólk eftir Laxness er alltaf sterk í minningunni og svo gleypti ég alveg bækurnar um Gratíönu og Hansdætur eftir Benný Sif nýlega. Besta sem ég veit er íslensk skáldsaga í jólapakkann.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Sopranos og Normal People… svo er ég að missa mig yfir Narcos þessa dagana.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Good Will Hunting.
Te eða kaffi: Kaffi allan daginn.
Uppáhalds árstími: Vorið.
Besta líkamsræktin: Að ganga í skólann með syni mínum. Það er svo ótrúlega dýrmæt stund, góð fyrir líkama og sál.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég er orðin nokkuð lunkin við breska hversdagsrétti eins og Cottage Pie og Fish Pie.
Við hvað ertu hrædd: Donald Trump og hans líka.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Um sjöleytið.
Hvað gerir þú til að slaka á: Fer í góðan göngutúr með gott podcast/tónlist eða borða góðan mat með góðu fólki.
Hvað finnst þér vanmetið: Góðar uppbyggilegar samræður.
En ofmetið: Slúður.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Euphoria með Loreen.
Besta lyktin: Fersk basilíka og mynta.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Ganga frá þvotti.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Þetta reddast (eða var það versta?!?).
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Eyrarbakki.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Ég er voða lítið að láta hlutina fara í taugarnar á mér, kannski helst fólk sem heldur fram samsæriskenningum um allt og ekkert.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Það var frekar pínlegt þegar ég var í forsvari fyrir stóra tónlistarhátíð í Bretlandi 2017 og það gleymdist eitt stykki píano fyrir norsku stórstjörnuna Susanne Sundfor. Það reddaðist þó á ögurstundu og í kjölfarið stendur fallegt píanó í stofunni heima hjá mér.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ætlaði lengi vel að vera hárgreiðslukona og æfði mig mikið á systrum mínum. Kom sér svo vel seinna meir að eiga dóttur, ég geri geggjaðar fastar fléttur.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Andy maðurinn minn. Hann fær mig til að hlæja á hverjum degi enda var hann uppistandari á sínum yngri árum.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Madonna, ég væri svo til í að geta dansað og sungið á sama tíma (smá æskudraumur).
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi koma konum um allan heim í valdastöður, værum eflaust betur stödd með konur í fararbroddi. Við þurfum ekki á fleirum gömlum valdagráðugum köllum að halda í þessum heimi.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er ágætis söngkona.
Mesta afrek í lífinu: Börnin mín fyrst og fremst en svo er ég líka voða stolt yfir að hafa skapað sjálfri mér og öðrum vinnu innan menningargeirans bæði hér heima og erlendis.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég væri alveg til í að sjá fram í timann og sjá hvernig litið verður til baka á okkar samtíma.
Lífsmottó: Don’t sweat the small stuff!
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Halda upp á afmæli eiginmannsins og fara eitthvað gott út að borða í Manchester.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinAlvöru ’80s dúett á Sviðinu
Næsta greinAllt í járnum í Set-höllinni