Íslenski Eurovision-hópurinn heldur af stað til Rotterdam á morgun, þar sem Daði og Gagnmagnið stíga á svið í fyrri undanúrslitum þann 20. maí. Lykilmaður í Gagnamagninu er gleðigjafinn Stefán Hannesson. Æskudraumur hans er að vera Sunnlendingur vikunnar og hann hefur oftar en aðrir verið nefndur sem fyndnasta manneskjan í þessum dálki. Þannig að það var sjálfgefið að hann fengi hásætið og kórónuna þessa vikuna með brjálæðislegum stuðkveðjum um gott gengi í Rotterdam.

Fullt nafn: Stefán Hannesson.
Fæðingardagur, ár og staður: 3. febrúar 1990 á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Í sambúð með Önnu Birnu Elvarsdóttur.
Menntun: B.A. í kvikmyndafræði með íslensku sem aukafag og M.A. í íslenskukennslu frá Háskóla Íslands.
Atvinna: Kenni íslensku og kvikmyndafræði við Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Besta bók sem þú hefur lesið: Á topplistanum eru þó nokkrar; Salka Valka, Sjálfstætt fólk, Íslandsklukkan, Njála, Hjartað býr enn í helli sínum, Konur, Íslenskur aðall, Kofi Tómasar frænda, Afdalabarn, Hvítfeld og Drápa. En ef ég þarf að velja eina bók væri það líklega Gæludýrin eftir Braga Ólafsson, hef aldrei tengt jafnmikið við neina bókmenntapersónu
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ekki er þessi spurning mikið auðveldari. Topplistinn samanstendur af Seinfeld, It’s always sunny in Philadelphia, Breaking Bad, Cheers, Twin Peaks, The Office (báðar útgáfur), South Park, Fargo, Freaks and Geeks, Better Call Saul, Monty Python’s Flying Circus, Spaugstofan, Rick and Morty, Curb Your Enthusiasm og The Walking Dead. En fyrsta sætið er auðvelt að velja: The Simpsons. Tek sérstaklega fram að ég á eftir að horfa á Sopranos og The Wire, það er næst á dagskrá.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Forrest Gump.
Te eða kaffi: Hef drukkið te síðan ég var krakki og finnst það mun betra en kaffi. En sem B-manneskja í samfélagi sem miðast við A-manneskjur er kaffið mikilvægur bandamaður.
Uppáhalds árstími: Vorið, því þá er sumarið framundan. Sumarið er besti árstíminn.
Besta líkamsræktin: Kenna upp á þriðju hæð í FSu.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Mjög góður í að elda pakka-lasagna frá Knorr, hlutföllin eru vandasöm.
Við hvað ertu hræddur: Að tapa gegn kærustunni minni í spurningaspilum.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Eins seint og mögulegt er á virkum dögum, fer eftir stundatöflu, en oftast er það í kringum 6:50. Um helgar er hins vegar slökkt á vekjaraklukkunni.
Hvað gerir þú til að slaka á: Horfi á kvikmynd eða þátt með kærustunni. Góð bók eða tölvuleikur býður einnig upp á fullkomna slökun. Já, og auðvitað langt bað. Annars finnst mér besta slökunin vera þegar ekkert er framundan og ég þarf ekki að fara út úr húsi.
Hvað finnst þér vanmetið: Borða mjög hægt og njóta þess í botn.
En ofmetið: Að vakna snemma.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Eins og fram hefur komið finnst mér mjög erfitt að svara svona spurningum án þess að setja upp lista, enda fátt skemmtilegra en að grúska í dægurmenningu. Topp sex bestu stuðlögin: 6. Pink Floyd – The Nile Song, 5. Night Ranger – Sister Christian, 4. Pearl Jam – Alive, 3. Smashing Pumpkins – Cherub Rock, 2. Hall and Oates – Out of Touch, 1. Wang Chung – Dance Hall Days.
Besta lyktin: Lyktin af geisladisk sem maður er nýbúinn að kaupa, taka plastið af og er að fara að setja í tækið. Bæklingurinn á sínum stað og allt tilbúið í að hlusta á nýju plötuna. Þetta upplifir maður ekki lengur.
Bað eða sturta: Fyrir mér eru þetta öfgar í sitthvora áttina. Baðker eru að mínu mati ein besta uppfinning mannkynssögunnar, en að fara í sturtu er ekkert annað en kvöð.
Leiðinlegasta húsverkið: Að fara í sturtu.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Þegar foreldrar mínir hvöttu mig til að hætta í íþróttafræðinni á Laugarvatni. Ég þorði því ekki sjálfur en þetta varð til þess að ég uppgötvaði mína hillu, sem eru hugvísindi. Bróðir minn, Sölvi Þór, hefur einnig veitt mér mörg góð ráð í gegnum tíðina, enda er hann ekki jafn ferkantaður og ég.
Nátthrafn eða morgunhani: Nokkuð viss um að þetta sé komið fram.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Þegar ég vann við slátt á Selfossi í nokkur sumur uppgötvaði ég nokkra fallega staði sem ég hafði ekki hugmynd um þrátt fyrir að vera fæddur hér og uppalinn. Fólk sér bara Austurveginn og allar skyndibitakeðjurnar, því miður. Annars er fallegasti staðurinn í mínum huga túnið og umhverfið í kringum æskuheimilið mitt, Vog í Árbæjarhverfinu. Þaðan höfum við fullkomið útsýni yfir Ölfusá og Selfoss.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Skortur á gagnrýnni hugsun hjá Íslendingum, það er stundum pínlegt að skoða samfélagsmiðla.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég lendi í því svo oft að fólk kallar mig Hannes að ég er hættur að leiðrétta það. Það hjálpar ekki að annar hver Sunnlendingur var í þýsku hjá pabba. Annars er það ein saga sem rifjast upp. Ég vann einu sinni við upplýsingagjöf á Þingvöllum. Einn daginn koma til mín karl og kona og karlinn segir mér frá því, á ensku með bandarískum hreim, að þau hafi komið að ferðalangi á Mosfellsheiði sem var bensínslaus, og þau vilji að landverðir skutli bensíni til hans. Ég kalla upp landverði í talstöðinni og fæ þau svör að það sé ekkert sem við getum gert, enda mikið að gera og engin bensínstöð á staðnum. Karlinn verður mjög pirraður og heldur áfram að krefjast þess að fá þessa þjónustu. Eftir að hafa kallað upp landverði nokkrum sinnum, og fengið sama svarið aftur og aftur, segi ég í talstöðina að „þessi fáviti ætli ekki að gefa sig”. Þá verður konan brjáluð, hún var víst Íslendingur. Tek fram að ég var 22 ára og nýbyrjaður að vinna þarna, lærði mikið af þessu atviki.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Lögga eða fornleifafræðingur, var ótrúlega ófrumlegur krakki.
Fyndnasta manneskja sem þú veist um: Anna Birna fær toppsætið hér, enda algjör rugludallur. Svo á ég marga fyndna vini sem verða enn fyndnari þegar þeir eru saman: Brúsi, Kári og Ingi þegar þeir rífast, Bjöggi og Danni þegar þeir eru að smíða, og Gagnamagnið þegar við erum búin að mæta á hvern viðburðinn á fætur öðrum og erum komin í galsa.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Væri til í að prófa að vera Prince og sjá hversu margar neglur ég nái að semja á einum degi.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Twitter.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég leggja fram frumvarp um að enginn þurfi að mæta til vinnu fyrr en í hádeginu. Frumvarpið yrði svo samþykkt með einu atkvæði, mínu. Einnig væri það skylda að hlusta á eina plötu með Pink Floyd hverja helgi og horfa á eina mynd eftir Martin Scorsese.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég bjó til ensku Wikipedia-síðuna um UMF Selfoss (karlaliðið í fótbolta). Hef sjaldan eytt jafnmiklum tíma í neitt verkefni og fór svo í mikla sjálfskoðun eftir að hafa grafið mig svona djúpt í nördaholuna. Það er ástæða fyrir því að fólk veit þetta ekki um mig.
Mesta afrek í lífinu: Gunnlaugur Bjarnason hefur bent á það að Sunnlendingur vikunnar svari þessari spurningu alltaf á sama hátt: „Börnin mín”. Þar sem ég á ekki börn, og hef ekki afrekað neitt af viti yfir ævina, ætla ég að svara þessu með: „Sunnlendingur vikunnar”. Ég hef verið dyggur lesandi Sunnlenska frá því að ég var krakki og fannst þetta ótrúlega mikill heiður, sérstaklega þar sem þessum dálki fylgdi alltaf mynd af manneskju í hásæti, með kórónu á höfðinu og lútandi þegni fyrir framan.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Myndi fara til 9. áratugar síðustu aldar, einfaldlega til þess að upplifa hann. Það er ekkert tímabil í mannkynssögunni sem heillar mig jafnmikið, og ég fæddist mánuði eftir að því lauk.
Lífsmottó: Það má leyfa sér að vera latur ef maður var duglegur.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Fljúga til Rotterdam með vinum mínum, við vorum beðin um að taka þátt í einhverri keppni.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinBarnavernd tilkynnt um laust barn í bíl
Næsta grein„Þessi á skilið orðu“