Vika hjúkrunar er haldin hátíðleg um heim allan dagana í kringum 12. maí, sem var fæðingardagur Florence Nightingale, upphafskonu nútíma hjúkrunar. Dagurinn í dag er alþjóðadagur hjúkrunarfræðinga og af því tilefni heyrðumm við í Selfyssingnum Sölva Sveinssyni, gjörgæsluhjúkrunarfræðingi á Landspítalanum. Hann er Sunnlendingur vikunnar.

Fullt nafn: Sölvi Sveinsson.
Fæðingardagur, ár og staður: Fæddur á sjúkrahúsinu á Selfossi 26. október árið 1995.
Fjölskylduhagir: Búsettur á Selfossi. Yngsta barn foreldra minna, Sveins Sigurmundssonar framkvæmdastjóra Búnaðarsambands Suðurlands og Önnu Atladóttur heitinnar sem starfaði lengst af í Landsbankanum á Selfossi.
Menntun: Ef við förum í gegnum alla skólagönguna þá hófst hún á Glaðheimum. Grunnskólagangan var í Sólvalla,- Valla,- og Sunnulækjarskóla. Lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands og er að ljúka klínísku meistaranámi í gjörgæsluhjúkrun frá sama skóla.
Atvinna: Ég starfa sem gjörgæsluhjúkrunarfræðingur á Landspítala við Hringbraut. Sinni einnig stundakennslu við hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands.
Besta bók sem þú hefur lesið: Tvær skemmtilegustu bækurnar sem ég hef lesið las ég í fjölbraut: Njálu og Sjálfstætt fólk – geggjaðar bækur.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Fer eftir því hvað er verið að sýna hverju sinni en mér finnst Friends samt alltaf klassískir.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Sem krakki horfði ég endalaust á Karlakórinn Heklu og Sódóma Reykjavík. Hef verið minna í enduráhorfi á fullorðinsárum en horfði reyndar á þær aftur um daginn. Það er eitthvað svo skemmtilegt við tíðarandann í þessum myndum.
Te eða kaffi: Dagurinn byrjar á kaffibolla á meðan ég les Moggann.
Uppáhalds árstími: Ekkert betra en björt vor- og sumarkvöld. Að sama skapi er ég lítið hrifinn af skammdeginu.
Besta líkamsræktin: Er fastagestur í Kraftbrennzlunni hjá Ása Sigmars en finnst líka gott að skokka í Hellisskógi eða hjóla niður eftir Eyrarbakkaveginum.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Er ágætur í eldhúsinu en held að mitt sérsvið sé að búa til sveppasósu.
Við hvað ertu hræddur: Mamma mín lést fyrir fimm árum síðan. Ég hræðist að upplifa aftur slíkan missi.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Sem vaktavinnumaður getur það verið breytilegt en er yfirleitt vaknaður upp úr klukkan átta á morgnana.
Hvað gerir þú til að slaka á: Finnst best að hreyfa mig og fara snemma að sofa þegar ég þarf að slaka á. Mér finnst líka gott að skipta um umhverfi og koma svo endurnærður heim.
Hvað finnst þér vanmetið: Að takast á við áskoranir í lífi og starfi er okkur nauðsynlegt. Þannig þroskast maður og heldur sér á tánum. Lífið er skemmtilegra ef það er áskorun.
En ofmetið: Að vera ríkur og frægur – ég held að það sé uppskriftin að óhamingju.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Erfið spurning og ekkert eitt lag sem kemur upp í hugann en mér finnst tónlist FM Belfast alltaf skemmtileg.
Besta lyktin: Úti, að sumri til þegar það er nýbúið að rigna. Helst í birkiskógi. Hreint og ferskt loft. Er til betri lykt?
Bað eða sturta: Vel sturtu í flestum tilfellum en getur samt verið fínt að skella sér í bað, sérstaklega í köldu veðri.
Leiðinlegasta húsverkið: Ganga frá þvotti engin spurning, það er ekkert leiðinlegra.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að hreyfa sig á hverjum degi. Þannig tekst mér að vera besta útgáfan af sjálfum mér. Að sama skapi var versta ráðið að læra ekki hjúkrunarfræði enda fór ég ekki eftir því.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég hallast frekar að því að vera morgunhani, finnst best að fara ekki of seint að sofa.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Hornstrandir eru magnað svæði en mesta perla Suðurlands er að mínu mati Þórsmörk.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Mér finnst mjög leiðinlegt þegar fólk segir ósatt.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Nenni ekki að velta mér upp úr neyðarlegum atvikum, ég er fljótur að gleyma öllu sem er neyðarlegt. Annars hefur pabbi stundum sagt frá neyðarlegum aðstæðum sem ég kom honum í þegar ég var barn. Við vorum í kaffi á sveitabæ og ég spurði þrekvaxna húsmóðurina hvort hún væri með barn í maganum sem hún var alls ekki.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Það var breytilegt eftir því á hvaða aldri ég var. Sem barn langaði mig til að verða bílasali eða tannlæknir en frá því ég var tvítugur var ég ákveðinn í að verða hjúkrunarfræðingur og hef aldrei litið til baka.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Vigdís Anna systurdóttir mín er algjör brandarakelling og lagin við að fá mig til að hlæja.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Stundum langar mig að vita hvernig það er að vera gjörgæslusjúklingur í öndunarvél. Að vera í öndunarvél er mikil berskjöldun og því fylgir að hafa litla stjórn á aðstæðum. Ég held að það sé upplifun sem getur verið erfitt að lýsa nema að upplifa það.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ætli það sé ekki Instagram og Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi vilja laga mönnunarvanda hjúkrunarfræðinga og efla framhaldsmenntun í hjúkrunarfræði. Hjúkrun er leynivopn sem fer oft hljóðlega um en skiptir miklu máli fyrir samfélagið. Með hjúkrun má til dæmis bæta útkomu sjúklinga þannig þeir komast fyrr út í samfélagið á nýjan leik eða bæta lífsgæði sjúklinga með langvinna sjúkdóma. Það er mjög hagkvæmt fyrir þjóðfélagið.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er frekar liðugur.
Mesta afrek í lífinu: Efst í huga er nýjasta afrekið – að klára meistaranám. Það var ansi ljúft að skila inn meistararitgerðinni í síðustu viku og setja punkt fyrir aftan sex ára háskólanám.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Mér hefur alltaf fundist leiðinlegt að ná ekki að hitta langafa og langömmur mínar sem voru öll látin þegar ég fæddist. Hef heyrt margar sögur af þessu góða fólki en get aðeins ímyndað mér hvernig manneskjur þau voru. Mest væri ég til í að hitta Guðbjörn langafa og Dagnýju langömmu sem bjuggu í Arakoti á Skeiðum. Væri skemmtilegt að fá að eyða sumri hjá þeim í kringum árið 1960.
Lífsmottó: Það er endalaust gaman að velta því fyrir sér hvort glasið sé hálf-tómt eða hálf-fullt. Ég kemst alltaf að sömu niðurstöðu að glasið sé hálf-fullt.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég er á næturvöktum um helgina – þá snýst lífið um að reyna að sofa sem mest á milli vakta.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinGrýlupottahlaup 4/2023 – Úrslit
Næsta greinOpið hús á Hvanneyri