Selfoss U tapaði nokkuð sannfærandi gegn Kríu á útivelli á Seltjarnarnesi í 1. deild karla í handbolta í kvöld.
Lokatölur urðu 30-24 og samkvæmt tíðindamanni sunnlenska.is átti ungmennalið Selfoss erfitt uppdráttar gegn fullvöxnu karlaliði Kríunnar.
Kría tók strax forystuna og staðan var 8-3 eftir rúmlega tíu mínútna leik. Munurinn hélst svipaður fram að leikhléi en staðan í hálfleik var 18-11.
Krían hækkaði flugið í upphafi seinni hálfleiks og munurinn var orðinn tíu mörk fljótlega. Selfyssingar minnkuðu muninn á lokamínútunum en þá voru úrslit leiksins löngu ráðin.
Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með 5 mörk, Arnór Logi Hákonarson og Gunnar Flosi Grétarsson skoruðu 3 mörk, Sölvi Svavarsson, Sæþór Atlason, Guðjón Baldur Ómarsson, Andri Dagur Ófeigsson, Hans Jörgen Ólafsson og Elvar Elí Hallgrímsson skoruðu allir 2 mörk og þeir Tryggvi Sigurberg Traustason og Haukur Páll Hallgrímsson skoruðu 1 mark hvor.
Alexander Hrafnkelsson varði 7 skot í marki Selfoss og var með 28% markvörslu, Hermann Guðmundsson varði 5 skot og var með 62% markvörslu og Sölvi Ólafsson varði 3 skot og var með 25% markvörslu.