Bæjarráð Árborgar hefur samþykkt að hefja undirbúning að endurhönnun Sigtúnsgarðs á Selfossi. Í ferlinu verður stofnaður samráðshópur hagaðila til að vinna með hönnuði.
Horft verður sérstaklega til notagildi garðsins fyrir íbúa og gesti, hátíðarhalda og samtengingar við nýjan miðbæ á Selfossi.
Í kjölfar breytinga á deiliskipulagi miðbæjar Selfoss sem samþykkt var í bæjarstjórn í júní í fyrra lá fyrir að taka þyrfti upp hönnun garðsins og samræma betur m.a. við núverandi hátíðarhöld og nýjar tengingar í miðbæinn. Í tengslum við hátíðarhöldin er horft til stækkunar á svokallaðri “söngskál”, staðsetningu hátíðartjalds, leiktækja og fleira.
„Sigtúnsgarður er einstaklega vel staðsettur á Selfossi og mikilvægt að hann geti áfram stutt við blómlegt menningar- og mannlíf sveitarfélagsins. Með vel heppnaðri hönnun gefst tækifæri til að auka nýtingu garðsins á öðrum tímum en þegar hátíðarhöld eru í garðinum,“ segir í tilkynningu frá Árborg en gert er ráð fyrir að endanleg hönnun liggi fyrir í lok árs.