Gabríel og fjölskylda fengu veglega gjöf

Gabríel Freyr ásamt fulltrúum Félags sjúkraflutningamanna á Suðurlandi og lögreglumanna á Hvolsvelli, Klaustri og í Vík. Ljósmynd/Aðsend

Hinn fjögurra ára gamli Gabríel Freyr Madsson á Hvolsvelli fékk góða heimsókn í síðustu viku frá lögreglu- og sjúkraflutningamönnum.

Gabríel er sonur Hildar Aspar Garðarsdóttur og Mads Tinning og þarna voru á ferðinni fyrrum vinnufélagar Hildar í lögreglunni, ásamt sjúkraflutningamönnum. Hópurinn kom færandi hendi með jólagjafir til Gabríels og systkina hans, ásamt 200 þúsund króna styrk frá starfsfólki lögreglunnar í Vík, á Klaustri og Hvolsvelli og öðrum 200 þúsund króna styrk frá Félagi sjúkraflutningamanna á Suðurlandi.

Gabríel, sem heldur einmitt upp á fjögurra ára afmælið í dag, þann 21. desember, veiktist af RS-vírusnum sjö vikna gamall. Hann var lagður inn á spítala og í kjölfarið greindist hann með sjaldgæfan hjartasjúkdóm, en hjarta hans er of stórt og þróttlítið og dælir mjög illa blóði um líkamann, auk þess sem lekur á milli hólfa. Eins og er, er engin lækning við sjúkdómnum og dagleg lyf eru nauðsynleg til að létta á hjartanu. Eftir útskrift af spítalanum tóku við tvö ströng ár með miklum veikindum en síðasta eitt og hálft ár hefur gengið ágætlega og Gabríel hefur þroskast, stækkað og styrkst mikið á þeim tíma. Hann útskrifaðist úr líknandi teymi barna sumarið 2020 og byrjaði þá í leikskóla.

Gabríel var einnig fæddur með WPW syndrome. Kvilla sem er einnig í hjartanu og gerir það að verkum að hann fékk reglulega köst með hröðum hjartslætti, hjartsláttartruflunum og púlsinn gat farið upp úr öllu valdi. Þessi kvilli er lífshættulegur en læknar hér heima töldu að aðgerð væri áhættunnar virði og því var ákveðið að hafa samband við sérfræðinga í Boston og drifið í aðgerð sem var framkvæmd í Bandaríkjunum í nóvember síðastliðnum. Aðgerðin, þar sem brennt var fyrir auka rafleiðslur við hjartað, heppnaðist vel og læknarnir eru bjartsýnir og fylgjast spenntir með hvort einhverjar framfarir verði á sjúkdómnum hans.

Sjúklingur launaði flutninginn
Sigurjón Bergsson, formaður Félags sjúkraflutningamanna á Suðurlandi, sagði í samtali við sunnlenska.is að aðdragandinn að gjöfinni hafi verið sá að fyrir stuttu fluttu sjúkraflutningamenn á Hvolsvelli sjúkling, sem í þakklætisskyni gaf þeim 130 þúsund krónur. Sjúkraflutningamönnunum þótti ekki tilhlýðilegt að taka peningana til sín, heldur vildu gefa þá áfram. Stjórn félagsins hækkaði upphæðina upp í 200 þúsund og félag lögreglumanna gaf sömu upphæð til fjölskyldunnar.

Vinnufélagar Hildar í Hvolsskóla hófu söfnun fyrir fjölskylduna á dögunum og hefur verið stofnaður styrktarreikningur þeim til handa. Þeir sem vilja styrkja fjölskylduna geta lagt inn á reikning 0182-05-060396, kt. 011185-2239.

Fyrri greinFluttur í fangelsi eftir akstur undir áhrifum
Næsta greinEinar Karl skipaður dómari