Kvennalið Selfoss tryggði sér í kvöld bikarmeistaratitilinn í knattspyrnu með 2-1 sigri á KR á Laugadalsvelli.
KR byrjaði betur í leiknum og komst yfir á 18. mínútu með marki frá Gloria Douglas. Selfyssingar hresstust síðasta korterið í fyrri hálfleik og á 36. mínútu jafnaði Hólmfríður Magnúsdóttir metin með glæsilegu marki eftir frábæran sprett upp völlinn. Örfáum andartökum síðar var Barbára Gísladóttir nálægt því að skora en markvörður KR varði vel. Staðan var 1-1 í leikhléi.
Seinni hálfleikurinn var jafn og spennandi en hvorugu liðinu tókst að skora því varð að grípa til framlengingar.
Selfyssingar voru sterkari í framlengingunni og á 102. mínútu tryggði Þóra Jónsdóttir Selfossi sigurinn með sínu fyrsta meistaraflokksmarki. Selfoss varðist vel á lokakaflanum þegar KR reyndi að jafna metin og fögnuðurinn var gríðarlegur hjá þeim vínrauðu þegar dómari leiksins flautaði til leiksloka.
Þetta er fyrsti stóri titill Selfoss í knattspyrnu og er óhætt að segja að stuðningsmennirnir hafi átt sinn hlut í því að landa þessum titli því að þeir fjölmenntu á leikinn og voru stórkostlegir í stúkunni.
Bikarinn er á leiðinni yfir brúna og hefst dagskrá á Tryggvatorgi um klukkan 21:30 og eru Sunnlendingar hvattir til að mæta og hylla bikarmeistarana.