Dagurinn í dag

Ég hef verið hugsi undanfarið, það gerist semsagt öðruhvoru að það koma hugsanir upp í kollinn minn sem segja mér að hausinn á mér er ekki bara hattastandur. Sérstaklega hafa tveir atburðir í lífi fólks sem stendur mér nærri orðið til þess að ég hef hugsað hversu hverfult lífið er. Hversu oft maður tekur lífinu sem sjálfsögðum hlut og pælir lítið í deginum í dag sem hverfur oftast í dagsins amstri og maður er oft svo upptekin við það að halda öllu gangandi að maður gleymir hvað það er sem skiptir virkilega máli.

Það er svo sorglegt að það þurfi sorglega atburði til að fá mann til að stoppa og hugsa: Hver er mín forgangsröðun? Hvað skiptir mig mestu máli? Hverjir skipta mig mestu máli? Hvað mun ég skilja eftir í hjörtum fólks þegar minn tími kemur?

Maður tekur nefnilega deginum í dag oft sem sjálfsögðum hlut, maður hugsar alltaf að það komi nýr dagur og maður geti gert betur næst eða klárað verkefnið á morgun, knúsað eða spjallað við vini eða fjölskyldu á morgun. En hvað ef það er ekkert ,,á morgun”?

Nú er ég ekki að segja að við eigum að hverfa í eitthvað svartnætti og bíða dómsdags heldur að við séum meðvituð um daginn í dag og hvað við getum gert til að hann verði góður og eftirminnilegur fyrir okkur og aðra.

Þessir atburðir hafa að minnsta kosta fengið mig til að hugsa hlutina aðeins öðruvísi, hversu mikilvægt það er að taka hverjum degi sem gjöf, nýta tímann sinn sem best, hlúa að þeim sem standa manni næst og þeim sem manni þykir vænt um. Því þegar uppi er staðið eru vinir og fjölskylda það mikilvægasta sem maður á og maður á aldrei að taka því sem gefnu að fólkið manns verði ætíð til staðar. Við skulum einnig hlúa að okkur sjálfum, gera það sem veitir okkur sanna ánægju og gleði þannig að þegar við leggjumst á koddan að kvöldi dags þá erum við sátt við verkefni dagsins.

Ég vil því ráðleggja ykkur að fylgja ykkar innsæi, hlustið á hjarta ykkar og fylgið því. Knúsið einnig fólkið ykkar, segið því hvernig ykkur líður gagnvart þeim og komum alltaf fram við okkar samferðafólk af virðingu, kærleik og hlýju.

Við vitum svo sannarlega ekki hvað morgundagurinn felur í sér þannig að við skulum vera meðvituð um að njóta dagsins í dag.

Með ást og kærleik,
Erna

Fyrri greinLeiðir styttast með nýjum og endurbættum Reykjavegi
Næsta greinLeið yfir mig í kynfræðslutíma