„Já, alltaf brjálað að gera! Börnin, skutlið, heimilið, vinnan, haha alltaf brjálað að gera! En hjá þér?“
– „Jú sama hér, alltaf brjálað að gera!“
– „Oh þú ert svo dugleg!“
– „Oh þú líka! Ég veit ekki hvernig þú ferð að þessu!?!“
– „Æi þetta er ekkert mál, ég sef bara þegar ég er dauð! Hahaha!“
– „Já, einmitt! Hahaha!“
Mér finnast auglýsingarnar frá VIRK alveg frábærar, ég tengdi svo við mömmuna sem kom allt of sein á jólatónleikana, hlaðin pokum frá jólainnkaupunum, fattaði svo að það átti að koma með veitingar sem hún kom ekki með, fékk svo símtal frá dóttur sinni sem átti að vera að syngja á tónleikunum og blessuð mamman gleymdi að ná í hana.
Að vera rosalega dugleg/ur er mælikvarði sem við Íslendingar metum frekar mikils, við teljum það mikinn mannkost að vera dugleg/ur! Það kemur mjög líklega úr menningararfi okkar því í gamla daga var það að vera dugleg/ur bókstaflega spurning um líf eða dauða! Ef þú varst ekki dugleg/ur og vannst meirihluta sólahringsins þá var ekkert sérstaklega bjart framundan hjá þér! En tímarnir hafa breyst, við lepjum ekki lengur dauðan úr skel í torfkofum með beljurnar í næsta herbergi til að halda á okkur hita. Samt sem áður setjum við mjög miklar kröfur á okkur sjálf! Við erum alltaf að keppast við að gera okkar allra besta, við ætlum að gera hlutina svo vel að oft erum við á barmi taugaáfalls! Eða er ég ein um það?
Auðvitað er frábært að gera sitt besta og vilja gera hlutina vel en það má heldur ekki gleyma því að forgangsraða og leggja áherslu á hluti sem virkilega gleðja mann og næra sál og líkama! Því að eins mikið og manni langar að hafa allt á hreinu og vera alveg með‘idda á öllum sviðum að þá er það gjörsamlega óraunhæft! Ég hef reynt það og það er ekki hægt!
Að lokum verður maður að játa sig sigraðan og einbeita sér að því sem virkilega skiptir mann máli og efst á listanum hjá mér þessa dagana eru samskipti, samskipti mín við fjölskyldu og vini. Ég held að vinir mínir (ef einhverjir vinir eru eftir) geti allir kvittað undir það að ég hef verið algjör drullusokkur varðandi það að rækta samskipti mín við þá! Fjölskyldu mína á ég erfiðara með að hrista af mér en ég sinni henni eftir bestu getu.
En forgangsröðunin er bara þannig hjá mér núna að ég næ ekki yfir mikið meira en heimilið. Nú eru vetrarfrí í Árborg og margir gera sér glaðan dag, ferðast og hafa gaman! Ég samgleðst þeim innilega! Ég vona að þeir samgleðjist mér líka því að ég var heima hjá mér að gera nákvæmlega ekki rassgat! Og mér fannst það yndislegt!
Slökum bara á og gerum það sem okkur finnst gaman og lætur okkur líða vel!
Erna