Hvolpasveit

Á hverjum morgni um 6 leytið vakna ég við það að það er rifið í hárið á mér, ég skölluð, sest á andlitið á mér, ég lamin með hendi eða fæti eða öskrað í eyrað á mér…

…nei, ég á ekki ofbeldisfullan eiginmann, ég á tveggja ára son sem sefur upp í. Hann er um það bil versti bólfélagi sem ég hef átt. Hann er heldur ekki sú týpa sem lúrir í rólegheitum og leyfir foreldrum sínum að hvíla sig heldur sest hann upp og segir hátt og snjallt ,,Jæja! Búin að lúlla“ rífur af okkur sængurnar og krefst þess að við förum framúr.

Við þessar aðstæður þar sem hvorugt foreldri er tilbúið að þeysast framúr grípum við oft til þess ráðs að kveikja á krakkarúv og leyfa honum að horfa á Hvolpasveitina. Eflaust er það ekki uppeldislega rétt að troða skjá framan í krakkann í morgunsárið en hvað gerir maður ekki fyrir auka 20 mínútur af kúri, sérstaklega um helgar þegar kl. er 06:00. Það er einnig yndislegt að sjá bros færast yfir andlit hans og líkaminn fer að dilla sér við upphafslag Hvolpasveitar. Hvolpasveitin er nefnilega ansi mögnuð.

Sonur minn er afskaplega iðinn og duglegur strákur og þær fáu stundir sem hann er kyrr lengur en í 5 sekúndur er þegar hann er sofandi eða að horfa á Hvolpasveit. Nú eru kannski bara foreldrar ungra barna sem eru að tengja en Hvolpasveitin teiknimynd með sveit hvolpa sem heita Kappi, Píla, Bessi, Köggur, Seifur og Rikki og yfirmaður sveitarinnar er 10 ára drengur sem heitir Róbert.

Hvolpasveitin og Róbert búa í turni í Ævintýraflóa, þessi turn er svo vel búinn tæknilega að Bill Gates og helstu tæknifrumkvöðlar heimsins myndu skammast sín. Græjurnar sem hvolparnir og Róbert eiga og nota myndi henta háþróuðustu og ríkustu björgunarsveit heims (ég minni á að 10 ára drengur og hvolpar sjá um græjurnar og hver fjármagnar þetta allt?). Í hverjum þætti lenda íbúar Ævintýraflóa í allskonar veseni, aðrir íbúar Flóans eru fullorðið fólk sem þarf mjög oft að láta 10 ára barn og hvolpa bjarga sér.

Þeirra verst er elsku Blíða borgarstjóri og hænan hennar Hænulína. Ef ég byggi í Ævintýraflóa myndi ég efast stórlega um getu Blíðu sem borgarstjóra og forgangsröðun hennar í starfi. Þær lenda í eilífum vandræðum sem fullorðið fólk með einhverju viti ætti að geta leyst frekar auðveldlega en aðstæður virðast henni alltaf ofviða og hún kallar á barn sem ætti að vera í 5. bekk í grunnskóla og hvolpana hans.

Nú er ég alls ekki að gera lítið úr getu hvolpa og 10 ára barna, ég held að allt of oft vanmetum við getu barna og látum ekki reyna nógu mikið á hæfni þeirra. En mér finnst alveg stórkostlegt að í samfélagi fullorðinna þar sem í eðlilegum aðstæðum ættu þeir að vera þeir ábyrgðarfullu og þeir sem ættu að vita betur þarf barn og hvolpar sífelld að koma þeim úr vandræðum.

En kannski er það akkúrat málið, oft vita börnin betur en þeir fullorðnu og koma með lausnir sem hinir fullorðnu sjá ekki.

Ég og Óðinn Darri bíðum að minnsta kosti spennt eftir nýjum þætti af hvolpsveit!

Erna

Fyrri greinHeiða Guðný efst á Z-listanum
Næsta greinAndri ráðinn forstöðumaður Skógasafns