Þetta litla orð felur í sér svo margt, eftirvæntingu, gleði, áhyggjuleysi, dagdrykkju, slökun og góðar minningar um útilegur, utanlandsferðir, heita sólríka daga og bjartar langar nætur úti í náttúrunni þar sem það eina sem heyrist er kvakið í mófuglinum.
Ég veit ekki hvort að foreldrar mínir hafi gert mig ónæma fyrir útilegum þegar þau drösluðu mér og tveimur bræðrum mínum út um allar trissur með fimm manna A-tjald, prímus og svefnpoka að vopni allar helgar. Við fórum aldrei á almenn tjaldsvæði heldur á afskekkta staði þar sem enginn var og helst engin leið að komast þangað. Þannig skökuðumst við um allt land. Í minningunni var þetta yndislegt en ekki skil ég hvernig í ósköpunum hún móðir mín nennti þessu brölti með þrjá óþæga krakka og karl.
Í mínum huga eru útilegur vesen, væntingar manns til þeirra eru allt of háar og allt sem á að vera svo skemmtilegt getur breyst í vonbrigði sumarsins með einum gleymdum pakka af sykurpúðum á eldhúsborðinu heima.
Ef maður ætlar í útilegu með börn á Íslandi þarf í fyrsta lagi að gera ráð fyrir allskonar veðri: rigningu, roki, sól, kulda, hita og snjókomu. Þessu fylgir að helst þarf að taka með hverja einustu flík sem hvert barn á. Þó að veðurfræðingar spái glampandi sól og hita alla helgina tekur maður samt allt með… til öryggis.
Þegar maður er búin að troða öllu í bílinn með allri geðvonskunni sem því fylgir og með kvíðahnút í maganum yfir því að maður sé að gleyma einhverju er lagt af stað.
Bílferðin sem tekur við getur verið álíka skemmtileg og að vera fastur í búri með öpum í dýragarði. Öskrandi börn í aftursætinu sem eru svöng, þyrst, þurfa að pissa, lemja hvort annað, rífast, losa beltin sín, skrúfa niður rúðurnar, sparka í framsætin og öskra aðeins meira.
Á meðan pabbinn reynir að halda bílnum á veginum er mamman komin með hryggskekkju af því að snúa hausnum í aftursætið alla leiðina til að reyna að róa liðið.
Eftir yndislegu bílferðina er loks komið á áfangastað. Ævintýralegt tjaldsvæði sem kostar annað nýrað úr öðru foreldrinu og slagsmál eru við hverja rafmagnsinnstungu. Þá á eftir að tjalda. Ef hjónin eru ekki með algjörlega skothelt plan og mjög góða verkaskiptingu þegar kemur að tjöldun gæti hjónaskilnaður verið á næsta leyti sérstaklega ef það á að setja upp fortjald.
Maður sér brostnar vonir í augum barna sinna þegar útilegan sem átti að vera svo brjálæðislega skemmtileg er ekkert nema geðvondir og tuðandi foreldrar.
Nú erum ég og maðurinn minn ekki svo heppin að hafa fengið jafnaðargeð í vöggugjöf þannig að kannski á þessi tjöldunarlýsing bara við um okkur… ég vona það.
Kannski er ég að missa af einhverju en ég sé bara ekki sjarmann við það að eyða helgi eftir helgi á tjaldsvæði þar sem maður hrasar um rafmagnssnúrur, vaknar við lætin í börnum ókunnugra, þarf að nota almenningsklósett, fara út í kuldann um miðja nótt að pissa og vaska upp úr köldu vatni.
Ég þarf varla að taka fram á þessum tímapunkti að við eigum hvorki hjól- né fellihýsi.
En auðvitað hefur allt sinn sjarma og ég er kannski að ýkja aðeins en mér dugir ein útilega á ári til að mæta þörfum barnanna og sú útilega er mjög skemmtileg og dýrmæt því að ég veit að þá þarf ég ekki að fara í útilegu fyrr en ári seinna.
Eins og foreldrar mínir hafa gert fyrir mig þá hef ég skapað góðar minningar með mínum börnum þar sem við hlæjum reglulega að öllum misheppnuðu útilegunum okkar.
Eigið yndislegt sumarfrí og njótið þess að eiga gleðilega og áhyggjulausa daga!
Erna