Elsku Daði Freyr og meðlimir Gagnamagnsins.
Þegar þetta er skrifað hlusta ég á fréttir um heimsfaraldur, flóttafólk, verkföll og jarðskjálftahrinur. Ég sprittaði meira að segja hendurnar og þvoði þær áður en ég settist við lyklaborðið. Það eru nú ekki beinlínis frábærar fréttir sem dynja á okkur þessa dagana. Ég vil þó ekki gera lítið úr vandanum og vona að allir taki alvarlega það sem herjar á heiminn.
En akkúrat vegna alls þess neikvæða sem er í gangi vil ég skrifa ykkur þetta bréf. Það sem þið hafið gert fyrir mig þessa vikuna er að létta mér lundina, ég er jákvæð að eðlisfari og ég elska tónlist og hún er yfirleitt það sem hjálpar mér að komast í gegnum erfiða tíma, hvort sem þeir eru persónulegir, vinnutengdir eða eitthvað annað.
Framlag ykkar kom með gleði inn í mitt líf, ég dansaði, fékk útrás, söng og fann fyrir von og bjartsýni í hjartanu mínu. Ég hef horft á myndbönd frá fólki um allan heim þar sem verið er að hrósa frammistöðu ykkar og allir viðmælendur tala um gleði og stuð! Það langar alla að dansa með og helst að kynnast ykkur persónulega því þið eruð svo einlæg og vinaleg.
Það að fara sínar eigin leiðir og skera sig út úr hópnum hefur mér alltaf fundist aðdáunarverður eiginleiki. Það þarf sterkan og skapandi persónuleika til að hugsa út fyrir boxið og vita nákvæmlega hvernig maður vill hafa hlutina. Þið eru svo innilega að fylgja ykkar innsæi og persónuleika í öllu sem þið gerið og það er dásamlegt.
Takk fyrir að koma með gleðisprengju og dansspor (sem ég á eftir að fullkomna) á tímum þar sem meira og minna allt er að fara til fjandans.
Takk fyrir að gefa okkur eitthvað til að gleðjast yfir, vera stolt af og gefa okkur tilefni til að hlakka til einhvers.
Ég er spennt fyrir maí mánuði og vona að hamfarafréttum fari að fækka.
Munum svo að vera dugleg að spritta og þvo hendurnar og fara eftir tilmælum landlæknis! 😊
Erna