Sem manneskjur höfum við nokkrar grunnþarfir, við þurfum mat og skjól en einnig þurfum við að tilheyra.
Að tilheyra er ein af grunnþörfum okkar og hún er mjög sterk, við hugsum kannski ekki út í það dagsdaglega og við tökum því kannski sem sjálfsögðum hlut en sú upplifun að tilheyra hóp er jafn mikilvæg og að fá að borða og að eiga öruggt skjól.
Þegar grunnþörfum okkar er ekki fullnægt, þá líður okkur ekki vel. Við verðum óörugg, fyllumst vanmætti og vitum ekki alltaf hvernig við eigum að bregðast við.
Við fæðingu tilheyrum við óhjákvæmilega hóp sem er fjölskyldan okkar og hún gefur okkur veganesti út í lífið. Hjá fjölskyldum okkar lærum við ákveðin gildi og menningu sem getur mótað það hvernig við hugsum og frá hvaða sjónarhorni við lítum á lífið og tilveruna. Þetta veganesti fylgir börnum svo inn í skólaumhverfið.
Nú þegar allir skólar landsins eru byrjaðir er mikilvægt að hugsa til þess að ekki upplifa öll börn það að þau tilheyri hóp. Þau eru jú sjálfsagt hluti af bekk en það að vera hluti af hóp og finnast þú tilheyra honum er ekki endilega það sama. Sumir velja það að vera á jaðrinum og fylgjast með úr fjarlægð en aðrir þrá ekkert heitar en að fá að vera með og tilheyra.
Skólaumhverfið kallar á mikil samskipti á milli einstaklinga og þau geta verið flókin, allskonar óskrifaðar samskiptareglur gilda sem getur verið mjög erfitt fyrir marga að fylgja. Einnig getur verið erfitt að lesa í aðstæður því að samskipti geta verið í margs konar formi; líkamleg tjáning, orð, svipbrigði, raddblær og fleira. Við þurfum því alltaf að vera meðvituð um hvernig við tjáum okkur og hvað við segjum því að þó að það taki mjög stuttan tíma að segja nokkur orð, geta orð sært og fylgt manneskju í langan tíma.
Öll viljum við tilheyra, öll viljum við upplifa að við séum örugg og elskuð. Gefum börnum okkar það veganesti inn í nýtt skólaár að þó við séum ólík og eigum ekki alltaf samleið þá er mikilvægt að vera góður og koma alltaf vel fram við þá sem eru í kringum okkur. Því þó að sumir taki því sem sjálfsögðum hlut getur vinalegt bros verið ómetanlegt fyrir aðra.
Ást og friður,
Erna